150 ára afmæli

Þættir úr sögu skólans

Í tilefni af 150 ára afmæli skólahalds í hreppnum/sveitarfélaginu hefur Þorvaldur Örn Árnason tekið saman efni og skrifað um sögu skólans.

Skólinn okkar á afmæli í ár! Afmælisdagurinn er 12. september, en við höldum upp á afmælið allt árið! Þættina má nálgast hér til hliðar.

-------

Barnaskóli var stofnaður í Vatnsleysustrandarhreppi 12. september 1872, í sérbyggðu húsi, og hefur hann starfað samfellt síðan, nú undir nafninu Stóru-Vogaskóli.

Allt núverandi afmælisár hefur birst einn þáttur í viku í Víkurfréttum og á vefnum (á vf.is, vogar.is og storuvogaskoli.is ) og verður svo út afmælisárið.

Ástæða er til að minnast þess afreks forfeðra okkar og mæðra – að koma hér á fót skóla fyrir öll börn, stúlkur sem drengi, snauða sem ríka – löngu áður en skólaskylda komst á og opinberir aðilar fóru að sinna skólamenntun barna af alvöru. Þá hafði barnaskóli starfað á Eyrarbakka í 20 ár og í Reykjavík í 10 ár.

Séra Stefán Thorarensen, prestur og sálmaskáld á Kálfatjörn, átti frumkvæði að því að stofna hér skóla. Hann stofnaði til þess félag sem aflaði fjár og lét byggja skólahús. Þannig starfaði skólinn frá upphafi í eigin húsnæði. Stefán samdi reglugerð fyrir skólann í 30 greinum, eins konar skólanámskrá. Vísir var að unglingadeild og heimavist var frá upphafi, en það starf virðist hafa fjarað út.

Í upphafi hét skólinn Thorchillii Barnaskólinn í Vatnsleysustrandarhreppi”. Það nafn festist ekki við hann, heldur var hann kallaður Suðurkotsskóli, enda byggður á jörðinni Suðurkoti í Brunnastaðahverfi. Seinna (1948) breyttist nafnið í Brunnastaðaskóli. Grunnur elsta skólahússins þar er enn heillegur. Þegar skólinn var síðan fluttur í Voga árið 1979 fékk hann núverandi nafn, Stóru-Vogaskóli, enda byggður í túni höfuðbýlisins Stóru-Voga. Öll þessi 150 ár er þetta í raun sama stofnunin, þó hús væru byggð og rifin og nöfnum breytt. Byggð voru minni skólahús og starfækt um tíma - eins konar útibú frá skólanum - í fjarlægum hverfum, þegar þar var barnmargt. Þannig starfaði skóli í Kálfatjarnarhverfi 1893-1910, fyrst á Þórustöðum og í Landakoti og frá 1903 í sérbyggðu húsi í Norðurkoti; og í Vatnsleysuhverfi 1910-1914 og 1925-1943. Frá haustinu 1943 hefur verið skólabíll og eftir það öll kennslan á einum stað. Minjafélag Vatnsleysustrandar hefur endurbyggt Norðurkotsskóla við Kálfatjörn og er þar nú skólaminjasafn.

Fyrstu 100 árin var fjöldi skólabarna á bilinu 20-50, fór upp í 100 um 1990 og í 200 árið 2010.

Opin afmælishátíð verður í sal skólans 1. október 2022 kl. 14.

Haldið var upp á 140 ára afmælið fyrir réttum áratug. Á youtube er stutt myndskeið frá þeim hátíðarhöldum og undirbúningi þeirra – og annað frá klukkustundar hringborðsumræðum um sögu skólans.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School