
1. þáttur: Þriðji elsti barnaskóli sem enn starfar
Stóru-Vogaskóli er þriðji elsti barnaskólinn á Íslandi sem hefur starfað samfleytt. Þrátt fyrir það er varla minnst á hann í „Almenningsfræðsla á Íslandi 1880-2007“, 700 síðna tveggja binda verki Kennaraháskóla Íslands sem Loftur Guttormsson ritstýrði og kom út 2008, og sjaldan er minnst á hann þegar fjallað er um skólasögu landsins. Því er ástæða að draga sögu skólans fram í dagsljósið nú á 150. starfsárinu, af nógu er að taka, bæði frumgögn og blaðaskrif.
Eldri skólar sem enn starfa eru barnaskólinn á Eyrarbakka (1852) og barnaskóli Reykjavíkur (1862). Gerðaskóli í Suðurnesjabæ er aðeins mánuði yngri, stofnaður í okt. 1872. Þeim skólum eru gerð góð skil í áðurnefndu verki og Gerðaskóla einnig í þáttum hér síðar, nr. 13, 14 og 15.
Séra Stefán Thorarensen, prestur á Kálfatjörn, átti frumkvæði að því að stofna hér skóla. Hann stofnaði til þess félag sem aflaði fjár og lét byggja skólahús. Þannig starfaði skólinn frá upphafi í eigin húsnæði. Stefán samdi reglugerð fyrir skólann í 30 greinum. Vísir var að unglingadeild og heimavist var frá upphafi.
Haustið 1872 tóku tveir skólar til starfa, báðir í nýbyggðu húsnæði, báðir á Suðurnesjum; Gerðaskóli í Garði og skólinn okkar hér í Sveitarfélaginu Vogum sem þá hét Vatnsleysustrandarhreppur og náði einnig yfir Njarðvík.
Í upphafi hét skólinn okkar því langa nafni: “Thorchillii Barnaskólinn í Vatnsleysustrandarhreppi”. Það nafn festist þó ekki við hann, heldur var hann kallaður Suðurkotsskóli, enda byggður í landi Suðurkots í Brunnastaðahverfi. Seinna (1938) breyttist nafnið í Brunnastaðaskóli og þegar hann var síðan fluttur í Voga árið 1979 fékk hann núverandi nafn, Stóru-Vogaskóli, enda byggður í túni höfuðbýlisins Stóru-Voga. Steinhlaðnar rústir síðustu íbúðarhúsanna að Stóru-Vogum, sem reist voru 1871 og 1912, eru nú hluti af leikvelli skólans.
Öll þessi 150 ár er þetta sama stofnunin, þó hús væru byggð og rifin og nöfnum breytt. Grunnur elsta skólahússins er enn heillegur og aðalbygging skólans 1944-1979 er nú íbúðarhúsið Skólatún í Brunnastaðahverfi. Byggð voru tvö minni skólahús og starfækt um tíma - eins konar útibú frá skólanum í fjarlægum hverfum þegar þar var barnmargt. Þannig starfaði skóli í Kálfatjarnarhverfi 189?-1910 (í Landakoti og síðar Norðurkotsskóla) og í Vatnsleysuhverfi 1910-1914 og 1925-1943. Frá haustinu 1943 hefur verið skólabíll og eftir það öll kennslan á einum stað.
Minjafélag Vatnsleysustrandar hefur nú endurbyggt Norðurkotsskóla að Kálfatjörn og er þar nú lítið snoturt skólasafn.
Myndin með fréttinni er af fundargerð stofnfundar skólans 12. sept. 1872.
- Forsíða
-
Þættir úr sögu skólans
- 1. þáttur: Þriðji elsti barnaskóli sem enn starfar
- 2. þáttur: Torchillii-sjóður og skóli fyrir alla
- 3. þáttur: Fjölþætt starf á 56 fermetrum
- 4. þáttur: Upphafsmaðurinn Stefán Thorarensen
- 5. þáttur: Séra Stefán og stofnun skólans
- 6. þáttur: Skólamenntun á Íslandi frá upphafi
- 7. þáttur: Meira um Thorkillius, Jón Þorkelsson
- 8. þáttur: Elstu barnaskólar landsins
- 9. þáttur: Barnaskóli í Keflavík frá 1887 eða fyrr
- 10. þáttur: Áður en skólinn kom til
- 11. þáttur: Hvernig var hér suður með sjó árið 1872
- 12. þáttur: Vatnsleysustrandarhreppur sjávarþorp á 19. öld?
- 13. þáttur: Skóli einnig stofnaður í Garðinum árið 1872
- 14. þáttur: Ögmundur Sigurðsson, merkur skólamaður
- 15. þáttur: Skólar á Suðurnesjum 1890
- 16. þáttur: Fyrsti vetur skólans á Vatnsleysuströnd
- 17. þáttur: Fyrstu kennararnir - ungir menn á uppleið
- 18. þáttur: Kennarar um aldamótin 1900
- 19. þáttur: Margir skólar, mörg skólahús í sömu sveit
- 20. þáttur: Skólakerfi í mótun um aldamótin 1900
- 21. þáttur: Námsgögn - frá allsleysi til ofgnóttar
- 22. þáttur: Kennslan á Vatnsleysuströnd um 1900
- 23. þáttur: Vatnsleysuskólinn og Ingibjörg Erlendsdóttir
- 24. þáttur: Úr dagbók kennara í Vatnsleysuskóla
- 25. þáttur: Árni Theodór 1910-1920 - og ófarir skólanefndar
- 26. þáttur: Svo kom kennslukona með kennarapróf
- 27. þáttur: Í skólanum hjá Viktoríu
- 28. þáttur: Landsins fyrsti skólabíll - öll kennsla á einum stað
- 29. þáttur: Nýtt og betra hús Brunnastaðaskóla
- 30. þáttur: Skóli, þinghús og samkomuhús
- 31. þáttur: Ungmennaskóli - miðskóli - gagnfræðaskóli...
- 32. þáttur: Íþróttir og sundkennsla
- 33. þáttur: Skólinn fluttur í Voga
- 34. þáttur: Hvernig var í skólanum 1970-1990?
- 35. þáttur: Félagslíf - Skólaferðalög
- 36. þáttur: Afmælishátíð 1. október 2022
- 37. þáttur: Tónlistarkennsla í 150 ár
- 38. þáttur: Mynd- og handmennt og heimilisfræði
- 39. þáttur: Skólinn, umhverfið, náttúran
- 40. þáttur: Samfélagið og skólinn
- 41. þáttur: Erlend mál og tengsl við útlönd
- 42. þáttur: Lesa, skrifa og reikna í 150 ár
- 43. þáttur: Menntun og skemmtun kennara
- 44. þáttur: Þrautseigir kennarar
- 45. þáttur: Fólk í skólasögu Voga
- 46. þáttur: Jólahald í 150 ár og sögulok
- Myndir og verk nemenda