Upphaf grunnskólagöngu

Fyrsti skóladagurinn er stór dagur í lífi sex ára barna  og markar upphaf að löngum og viðburðaríkum þroska. Við bjóðum nemendur og forráðamenn velkomin í skólann okkar.

Hér eru nokkrir hagnýttir punktar sem gott er að lesa yfir:

  • Nú hefst 10 ára samstarf við skólann um menntun og velferð barnsins þíns.
  • Þú berð höfuðábyrgð á menntun þess skv. grunnskólalögum
  • Mikilvægt er að mæta á fundi og námskeið fyrir foreldra.
  • Röltu með barninu um skólalóðina og um skólann, utan annatíma.
  • Mælum með að geyma hjólin heima fram á vor.
  • Finndu bestu leiðina í skólann, farðu hana nokkrum sinnum með barninu og leiðbeindu því í umferðinni.
  • Veldu skólatösku við hæfi, gott að miða við að í hana komist A4 plastmappa, pennaveski, litir og nestisbox, hún þarf ekki að vera stór. (Dýrast er ekki alltaf best, gott að hafa í huga þyngd töskunnar án námsgagna)
  • Sendu barnið alltaf með nægt og hollt nesti í skólann, t.d. ávaxtabita og grænmeti.
  • Veittu barninu ríkulega hlýju, stuðning og áhuga.
  • Gættu þess að hafa nægan tíma fyrir barnið á hverjum degi meðan það er að aðlagast skólanum.
  • Verið dugleg að láta barnið æfa stafina sem verið er að fara í hverju sinni og lesa heima. Æfingin skapar meistarann!
  • Vertu í sambandi við umsjónarkennarann, best er að þið styðjið hvort annað, því markmiðið er sameiginlegt: Velferð barnsins þíns!

Mentor

Þeir sem ekki hafa lykilorð í Mentor munu fá það sent frá skólanum eftir skólasetningu, en liggja þarf fyrir kennitala og netfang forráðamanna. Mikilvægt er að foreldrar skrái þar inn helstu upplýsingar sem fylgja eiga barninu til þess að auðvelda samskipti og upplýsingagjöf. Á Mentor getur þú m.a. nálgast upplýsingar um heimanám barnsins, stundaskrá, einkunnir, námsframvindu og haft samband við kennara. Hér má nálgast leiðbeiningar 

Frístund

Í Vogum er boðið upp á vistun fyrir 1.- 4.bekk að loknum skóladegi til kl.16:00. Óski foreldrar eftir því að nýta sér þessa þjónustu þarf að sækja um hana í gegnum íbúagátt. https://vogar.ibuagatt.is/login.aspx eða á skrifstofu sveitafélagsins Voga, Iðndal 2. Gjaldskrá og reglur er hægt að sjá á heimasíðu sveitafélagsins.

Hægt er að kaupa nýmjólk í áskrift. Pantað er fyrir eina önn í senn eða allt skólaárið í heild.  Óski foreldrar eftir því að kaupa áskrift skal sækja um það á skrifstofu skólans eða fylla út eyðublað og senda á ritari@vogar.is.

Skólamatur

Í mötuneyti skólans er haft til hliðsjónar markmið Lýðheilsustöðvar varðandi næringu barna. Hér í eldhúsinu er því eldaður á staðnum hollur og góður matur frá grunni úr fyrsta flokks hráefni og ávallt hlaðborð með grænmeti og ávöxtum með máltíðum.

Umferðaröryggi

Skólabörn eru hvött til að ganga í skólann og eru foreldrar hvattir til þess að ganga með börnum sínum fyrstu dagana og leiðbeina þeim. Mikilvægt er að allir séu með endurskinsmerki.

Ekki er mælst til þess að börn í 1.bekk komi á hjóli í skólann fyrr en að vori, nóg fyrir börnin að læra að bera skólatöskur sínar í og úr skóla.

Með von um ánægjulega skólagöngu

Stjórnendur Stóru-Vogaskóla

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School