3. þáttur: Fjölþætt starf á 56 fermetrum

Skólinn okkar er þriðji elsti grunnskóli landsins sem starfað hefur samfellt. Eldri eru barnaskólar Eyrarbakka (frá 1852) og Reykjavíkur ( frá 1862). Gerðaskóli er stofnaður mánuði síðar en okkar skóli. Á þessum tíma voru fordæmin fá og skólaskylda engin.

Árið 1870 hóf Stefán Thorarenssen, prestur og sálmaskáld á Kálfatjörn, undirbúning stofnunar barnaskóla í Vatnsleysustrandarhreppi. Efnt var til samskota. Egill í Minni-Vogum gaf 140 kr, Jón Breiðfjörð á Efri-Brunnastöðum 120, Lárus hómópati gaf höfðinglega, og 12 manns gáfu á bilinu 20 – 50 kr.  Svo var keypt hálf jörðin Suðurkot í Brunnastaðahverfi (4 hundruð og 50 álnir að dýrðleika, greitt fyrir hana 500 rd) og reist þar skólahús. Stefán í Minni-Vogum sá um smíði hússins, hann hafði viðurnefnið snikkari. Vann hann frá klukkan 6 á morgnana fram til 10 á kvöldin og hafði í laun 2 – 3 krónur á dag. Hóf Stefán smíðina í júní 1872 og var húsið vígt 12. sept. það ár með því að halda þar stofnfund skólans, sem hóf síðan starfsemi 1. október og hefur starfað óslitið síðan, stundum á fleiri en einum stað samtímis.

Með leyfi kóngsins og Alþingis fékkst 1200 ríkisdala vaxtalaust lán til skólans úr Thorchilliisjóði sem ekki þarf að greiða meðan skólinn sinnir vel börnum sem minna mega sín.

Thorchilllii-sjóðurinn greiddi  um áratuga skeið skólagjöld fátækustu barnanna í skólanum og í fleiri skólum á Reykjanesskaga, einnig til fátækra heimila um tíma. Sum barnanna bjuggu á skólatíma í risi skólahússins, ásamt fólki sem annaðist þau. Þannig var skólinn í upphafi bæði heimavistarskóli og heimangönguskóli. Einnig var frá upphafi vísir að unglingaskóla (2 eftirmiðdagsstundir á dag, fyrir fermd börn, þau voru 6 fyrsta veturinn en fór svo fækkandi) og handavinnukennsla fyrir stálpaðar stúlkur.

Kennarinn var vanalega einn og ”var það nærri undarlega mikið, hvað kennararnir afköstuðu þá. Flestir voru þeir strangir og alvarlegir, og höfðu börnin ótta af þeim, ef þau lærðu ekki vel, … Vanalega voru kennararnir góðir við börnin og sumir skemmtilegir.” Svo segir Ágúst í Halakoti, sem var nemandi í skólanum um 1880.

Fyrstu áratugina urðu börnin flest 47, það var veturinn 1903 -’04, en flesta vetur voru þau á bilinu 20 – 30. 

Fyrsta veturinn voru 30 börn í skólanum, á aldrnum 9 – 17 ára, þar af 8 í sérstakri kennsla fyrir fermd ungmenni, þau voru á aldrinum 15 – 20 ára. Bjuggu 9 börn í risi skólahúsins og nutu 6 styrks úr Thorkillii-sjóði.

Annan veturinn, 1873-74, var skólatíminn 15. sept til 15. mars, 5 stundir á dag, börnin flest 27, en aðeins 17 luku vorprófi, "af því, að þegar kominn er martsmánuðr, mega allflestir foreldrar ekki missa þau börn sín heiman að, sem komin eru til vika, með því þá er komin vertíð." Þórður Grímsson var kennari og auk þess "heimilisfaðir og fóstri Thorchilliisjóðsbarnanna, með bú á jörð skólans. Engin fermd ungmenni gáfu sig fram til sérstakrar kennslu þann vetur. Thorchilliisjóðsbörnin og nokkur fleiri "höfðu um skólatímann heimili, kost og þjónustu í skólanum; hin börnin gengu annaðhvort heiman að frá sér í skólann, eða frá næstu bæum, er þeim var komið fyrir á um skólatímann. Handiðnakenslu nutu 5 stúlkubörn ... var þeim helst kendur fatasaumur." (Frétt frá Stefáni í Víkverja 1874).

Öll lærðu börnin lestur, skript, kver, biflíusögur og reikning, og þau eldri einnig réttritun, landafræði og dönsku. Auk þess að iðka söng við morgunbænir var þeim kenndur söngur eina vikustund af organista kirkjunnar.

Séra Stefán færði í prestþjónustubók nöfn, einkunnir og fleira um nemendur sem voru við miðsvetrarpróf fyrstu 5 árin. Þau virðast hafa verið heldur færri annað til fjórða árið og frekar fá úr Njarðvík þar til þar var stofnaður Hákotsskóli og vou þar 18 börn fyrsta veturinn. Þetta voru ekki öll börnin á þessum aldri í þessum byggðarlögum – enda engin skólaskylda – og þessi fyrstu ár voru drengir tvöfalt fleiri en stúlkur. Veturinn 1877 -´78 voru börnin 22, og 29 veturinn eftir.

Í húsinu, sem var 14x10 álnir = 56 m2 að grunnfleti, hæð og ris, var einnig íbúð fyrir kennarann svo það hefur verið búið þröngt, sem hefur komið sér vel því timburhús á þessum tíma voru köld. Kennt var í einni stofu og þar var stór og góður ofn. Fyrsta veturinn fórst árabátur og tveir ungir menn með, þegar verið var að sækja kol fyrir skólann til Hafnarfjarðar.

Árið 1874 var húsið virt á 3360 kr. og jörðin á 1400 kr. Tekjumar voru: jarðarafgjald; kennslukaup (skólagjöld) barnanna (15 - 20 kr. á barn, Thorkilliisjóður greiddi fyrir þau fátækustu); og 60 kr árlegt tillag úr sveitarsjóði. Landsjóður greiddi fyrst til skólans árið 1878, kr. 200, sem varið var til endurbóta skólahússins.

Byggt var við skólahúsið 1886 og það stækkað, líklega til suðurs, í 10x20 álnir = 80 m².

Síðan var skólahúsið endurbyggt á sama grunni 1907 og mikið efni notað úr því gamla. Einangrað var með mosa. Keyptir voru 10 skólabekkir frá Völundi fyrir 145 kr. Skúr (anddyri) virðist hafa verið smíðaður 1911 og kamar 1914, ekki ljóst hvort það var fyrsti kamarinn.

Tekið var 2000 kr lán hjá Landsbankanum og fékkst 1000 kr. byggingarstyrkur úr Landsjóði, en byggingarkostnaður var 2300 kr. Nýja húsið var virt á 6000 kr. Til eru nákvæmar lýsingar á þessu húsi og byggingu þess, því tekið var lán hjá ríkinu. Íbúð kennara var nyrst, eldhús stofa og eitt svefnherbergi.  Stór stofa var syðst og á milli lítil stofa sem var lengi stofa kennarans/skólastjórans en varð kennslustofa yngri barna 1939 þar til húsið var rifið 1944. Á loftinu var geymslurými, líklega ekki lengur gistirými fyrir börn..

Myndina tók Jón M. Guðjónsson skömmu áður en húsið var rifið 1944.

Jón fæddist á Efri-Brunnastöðum 1905, ólst þar upp, gekk í þennan skóla og segir svo frá í bréfi 1963: „Sennilega eru ekki margar myndir til af þessari byggingu, sem svo sögufræg er í margra huga, þó ekki sje nema að því leyti, að þar innan veggna voru þau ástaratlot viðhöfð gagnkvæm milli manns og konu, sem drógu ærinn dilk á eftir sér. Eitt hús hefur orðið frægt fyrir minna!, svo ekki sé talað um „skammarkrók“ , sem ýmsir fengu að gista, er urðu all-stór nöfn síðar á ævinni. Gæti jeg nefnt nokkra. Saga gamla skólans er margþætt, og skemmtileg væri hún vissulega til aflestrar, ef fyrir lægi í bók. Njóttu vel myndarinnar – og þið.“

Jón varð prestur í Holti undir Eyjafjöllum 1934 og einn af frumkvöðlum Skógaskóla, Skógasafns og skógræktarfélags Rangæinga. Hann var síðan prestur á Akranesi 1946 – 1974 og kom þar upp byggðasafninu í Görðum.

Þessa mynd tók höfundur af hópi fólks á grunni Suðurkotsbarnaskóla  í Brunnastaðahverfi 23. maí 2022. Íbúðarhúsið með rauða þakinu er Suðurkot, byggt 1930.

Heimildir.  Í þessum þáttum er víða byggt á bók Guðmundar Björgvins Jónssonar: Mannlíf og mannvirki í Vatnsleysustrandarhreppi, (gefin út 1987) einkum bls. 173 – 179.  Hér er einnig byggt á bók Ágústs í Halakoti., grein í janúarblaði Faxa 1990. Einnig á sóknarmannatali sr. Stefáns, Reikningabók barnaskólasjóðsins, grein Stefáns Thorarensen í  Ísafold. 29.3.1879 og bréfi Stefáns til stiftsyfirvalda 8. maí 1874, að hluta birt í  Víkverja 18.4.1874.  Lýsing hússins í grein Bjarka Þ. Wium 19. 9. 2021 á facebook síðu Brunnastaðaskóla. Viðtal við Ásu Árnadóttur 1. 6. 2022.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School