48. þáttur: Fjöldi íbúa og nemenda fyrstu 150 ár skólans

Hér er teiknað graf er sýnir fjölda íbúa og nemenda starfstíma skólans. Lóðrétti ásinn vinstra megin sýnir íbúafjöldann en ásinn hægra megin nemendafjölda og er sá skali 10x gleiðari. Þykka línan sýnir íbúa-fjölda og sú granna nemendafjölda. Þar sem línuritin skerast er fjöldi nemena 10% af íbúafjölda.

Íbúafjöldinn er allan tímann innan sömu (núverandi) sveitarfélagamarka. Fyrstu 17 ár skólans, til 1889, tilheyrði
Njarðvík Vatnsleysustrandarhreppi. Voru nokkrir nemendur þaðan fyrstu 4 árin, en þá stofnuðu Njarðvíkingar eigin skóla sem starfaði slitrótt fyrstu áratugina. Hér er notast við íbúatölur í Kálfatjarnarprestakalli þessi fyrstu ár, en það hefur allan tímann verið innan sömu marka og núverandi sveitarfélag. Íbúum fjölgaði mestalla 19. öldina en fækkaði verulega um aldamótin 1900 og fór ekki að fjölga að ráði fyrr en um 1970. Fæstir voru þeir árin 1930–1950, einmitt á þeim tíma þegar verið var að byggja nýtt og stærra skólahús í Brunnastaðahverfinu.

Frá stofnun skólans og fram á miðjan 4. áratuginn voru að jafnaði aðeins 4 árgangar í skólanum, þ.e. börn á aldrinum 10 – 14 ára, skipt í yngri og eldri deild sem kennt var saman, í sömu stofu af sama kennara. Á þessu voru þó undantekningar. Á fyrstu 35 árum skólans, áður en fræðslulögin og fræðsluskyldan kom til sögunnar 1907, voru nemendur á heldur breiðara aldursbili. Fyrstu árin var síðdegiskennsla fyrir fermd börn, þó aldrei fleiri en 8 svo vitað sé (eru hér talin með). Á þeim tíma voru oft yngri nemendur en 10 ára, allt niður í 7 ára. Það er því erfitt að gefa upp samanburðarhæfa tölu nemenda þessi ár.

Síðasta áratug 19. aldar var farkennsla í vissum hverfum auk skólans í Suðurkoti. Lítið er vitað um umfang þeirrar kennslu, en hún fór fram heima í stofu á Þórustöðum og í Landkoti þar til 1903 að byggt var skólahús í Norðurkoti og kennt á tveimur stöðum í 7 ár. Síðan var stofnaður skóli á Vatnsleysu 1911 og kennt þar í 4 ár aukreitis. Nemendur í Norðurkots- og Vatnsleysuskóla eru oftar en ekki taldir með.

Tímabilið 1907 – 1934 var aðeins kennt 4 árgöngum, enda styrkur frá ríkinu bundinn við aldurinn 9–13 ára. Síðan fór árgöngum að fjölga, urðu 6  þegar 7–9 ára börn bættust við 1934;  og síðan 8 árgangar þegar unglingadeild  (1. og 2. bekkur, 13–15 ára)  hóf starfsemi 1961, síðan 9 árgangar þegar farið var að kenna 6 ára börnum 1978 og hafa svo verið 10 árgangar frá því að einnig var farið að kenna 10. bekk árið 1985.

Tímabilið 1908 – 1934 er nemendafjöldin býsna hár miðað við íbúafjöldann, því þá eru aðeins 4 árgangar í skólanum. Hefðu verið 10 árgangar í skólanum þá eins og nú, hefði nemendafjöldin verið rúmlega tvöfalt meiri.

Heimildir.  Blaðaskrif og prestþjónustubók Stefáns Thorarensen. Dagbækur, prófabók og Gjörðabók Suðurkotsbarnaskóla.  Hagskinna og vefur HagstofunnarFaxi 1990.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School