32. þáttur: Íþróttir og sundkennsla

Íþróttir teljast ekki meðal námsgreina í fyrstu reglugerð skólans, frá 1872. Fyrstu 7 áratugina þurftu börnin að ganga í skólann í misjöfnum veðrum, sum langan veg. Í því hefur falist drjúg líkamsþjálfun, jafnvel þrekraun. Íþróttakennslu er fyrst krafist í fræðslulögum 1926 og sunds í íþróttalögum 1940.

Ólafur Rosenkranz, sem var frumkvöðull í íþróttum hér á landi, kenndi hér við skólann veturinn 1876-´77. Ekki hafa fundist heimildir um hvort eða hvernig hann kenndi íþróttir það skólaár.

Árni Þorsteinsson kenndi oft og einatt íþróttir þegar hann var hér prestur og kennari 1886–1919. Veturinn 1908–1909 mun hann hafa kennt leikfimi 3 stundir í viku í Norðurkotsskóla, einkum stökk, glímur og ýmsar líkamsæfingar, göngulag og fleira. Húsakynnin voru afar þröng, allt upp í 20 nemendur í u.þ.b. 12 m² skólastofu, og því líklegt að hann hafi verið með útikennslu.

Ungmennafélag Vatnsleysustrandar, sem stofnað var 1907, fékk Guðmund Sigurjónsson íþróttakennara til að kenna glímur og félagið keypti skíði til að nota í Arahólsbrekkum.

Vorið 1924 bendir prófdómari á að sérherbergi vanti fyrir fimleikakennslu, því það sé nauðsynlegur liður í uppeldinu.

Reynir Brynjólfs (nemandi 1944-´47) segir: ”í Kirkjuhvoli var kennd leikfimi og glíma meðan eldra skólahúsið var, þar var m.a. stokkið yfir hest. Síðan þegar nýja húsið kom til kenndi Stefán Hallsson leikfimina á ganginum.”

Stefán Hallsson kenndi 1934-´45, lengst af í Kirkjuhvoli, m.a. íþróttir, síðast 1945 á gangi nýs húss Brunnastaðaskóla (þar var til taks dýna og hestur), 2 st á viku skipt milli stráka og stelpna. Síðan kenndu umferðarkennarar sem fóru á milli skóla, m.a. Lúðvík Jónasson. Jón H. Kristjánsson mun hafa kennt íþróttir 1948-’49 og Ingi Haraldsson 1950-’52. Símon Rafnsson segir enga íþróttakennslu hafa verið þegar hann gekk í skólann, 1955–1961. Særún Jónsdóttir var aldrei í leikfimi, ekki heldur Helgi Guðmundsson en Jóhann Sævar segir Jón H. skólastjóra hafa kennt íþróttir á gangi Brunnastaðaskóla (um 1955) og gefin einkunn fyrir.

Á 8. áratug var farið að aka öllum skólabörnum vikulega í íþróttir og sund í Njarðvík (reyndar í Sandgerði eitt ár þegar ekki samdist við Njarðvíkinga). Kópur Kjartansson ók á skólarútunni tveimur eða þremur árgöngum í senn, ásamt kennara sem gætti nemenda. Íþróttakennari Njarðvíkurskóla kenndi, einum hópi í senn meðan hinir biðu. Hver nemandi fékk eina vikustund í leikfimi og eina í sundi. Þegar Guðmundur Þórðarson réðist til Stóru-Vogaskóla sem íþróttakennari 1983 tók hann við þessari íþróttakennslu og fór þá með rútunni ásamt öðrum kennara. Þetta fyrirkomulag hélst allt þar til haustið 1993 að bylting varð í íþrótta- og sundkennslu í Vogum þegar þar var tekinn í notkun nýbyggður íþróttasalur og sundlaug. Eftir það þurftu skólabörnin aðeins að ganga í 5 mínútur í íþróttir og sund. Hjónin Egill Sæmundsson og Sigríður V. Jakobsdóttir í Minni-Vogum og María Finnsdóttir í Austurkoti höfðu af rausnarskap gefið 4.5 ha land undir félagsheimili og íþróttasvæði þegar árið 1966. Myndina tók Eyjólfur Guðmundsson 1996 í áhorfendabrekku við sundlaugina í Vogum tveimur árum eftir að hún tók til starfa.

Nú eru þrír íþróttakennarar við skólann: Guðmundur Þórðarson (í hlutastarfi) Jens G. Einarsson og Sólrún Ósk Árnadóttir, útskrifuð íþróttakennari 2022 og nú í fullu starfi. Sólrún lýsir starfinu sínu þannig: „Það er svo margt sem mér finnst sérstakt við mitt starf en mér finnst ótrúlega skemmtilegt að kenna börnum í gegnum leiki og æfingar. Mörg börn eiga erfitt með bóklegt nám og er því frábært fyrir þau að fá íþrótta- og sundkennslu. Það er skemmtilegt að geta bætt og aukið við hreyfiþroska barna og kenna þeim fjölbreytta hreyfingu. Íþróttakennsla er mikið meira en bara að hreyfa sig þar sem börn læra heilmargt óskrifað í gegnum leiki sem nýtist þeim í lífinu, t.d. samvinnu, að vera örugg í mismunandi aðstæðum, að bera virðingu fyrir þörfum annarra, að baða sig, að skipuleggja sig og svo margt fleira.“

Sund. Jakob A. Sigurðsson í Sólheimum í Vogum (faðir fyrrnefndrar Sigríðar) var fjölhæfur maður, m.a. sundkennari í Keflavík og víðar. Á 4. áratugnum kenndi hann m.a. sund í sjónum í höfninni í Vogum og við Halakot og Knarrarnes. Hann rak niður 4 staura í fjöruna og batt í þá eins konar rólu sem börnin hanga í þegar þau læra sundtökin, með fæturna öðru megin og bringuna hinu megin. Námskeið þessi voru ekki á vegum skólans og hafa verið á 4. áratugnum. Jakob var í fyrstu stjórn u.m.f. Þróttar og lengi formaður þess.

Myndin af ungmennum standandi á haus mun vera tekin í sundferð til Reykjavíkur 1935. Á næstu mynd sést hópur á leið á 10 daga sundnámskeið á Laugarvatni 1936, á mjólkurbílnum. Börnin voru á fermingaraldri, fóru gjarna á eitt námskeið og mun þetta hafa verið ný til komið.

Í skólaskýrslum 1943 er þess getið að fermingarbörn, sem gengu til sr. Garðars Þorsteinssonar prófasts í Hafnarfirði, hafi notið sundkennslu þar í bæ á sama tímabili. Árið 1940 var sundkennsla lögskipuð. Vorin 1944-´47 sóttu börnin sundnámskeið í Sundlaug Hafnarfjarðar og 1949-´50 í Sundlaug Laugarvatnsskóla. Frá 1952 voru unglingar keyrðir á tveggja vikna sundnámskeið í Sundhöll Keflavíkur, sem opnuð var sem útisundlaug 1939 og byggt yfir hana 1950. Í Keflavík var ágóða af sjómannadagshátíðarhöldum varið til sundkennslu á þessum tíma.

Árið 1954 samþykkir skólanefnd að öll börn 9 ára og eldri fari á sundnámskeið (líklega í Keflavík). Jón H. Kristjánsson skólstjóri og skólabílstjóri sá um börnin og ók þeim fyrir kr. 120 á ferð.

Í apríl 1966 (og oftar) fær fræðslunefnd sendar ítarlegar reglur um framkvæmd sundskyldu. Þar sem ekki er sundlaug við skóla skulu nemendur njóta námskeiða sem eru minnst 72 st fyrir börn og 32 st fyrir unglinga. Þorsteinn íþróttafulltrúi ríkisins fylgdist með og sendi árlega nöfn nemenda sem höfðu tekið fullnaðarpróf án sundprófs.

Um þetta leyti hófst vikulegur akstur eldri nemenda í sund í Njarðvík – og einn vetur í Hafnarfjörð. Frá 1973 var öllum nemendum ekið tvisvar í viku í Njarðvík í sund og leikfimi og var það svo þar til íþróttamiðstöðin
í Vogum kemur til sögunnar 1993, en þar með fá allir nemendur 2 vikustundir í íþróttum og eina í sundi.

Guðmundur Þórðarson byrjaði með sérkennslu í sundi 1994, fyrir nemendur sem eiga þar erfitt af ýmsum ástæðum. Hefur verið af og til síðan og reynist m.a. vel við að efla sjálfstraust nemenda. Nörg börn innflytjenda koma ósynd til landsins og hefur þörf á sérkennslu í sundi aukist undanfarið. Síðustu áratugi hefur verið árlegur íþróttadagur. Þar er leikur úrvalsliðs nemenda við kennara fastur liður. Myndin er af liði nemenda 2003. Svo hafa nemendur árlega tekið þátt í skólahreysti.

Helstu heimildir m.a.: Myndasafn Minjafélagsins. Óbirt skjöl. Egill Hallgrímsson: Fjörutíu ára minning ungmennafélagshreyfingarinar á Vatnsleysuströnd. SKINFAXI 39. árg. 1948 tbl. Um sundkennslu, Faxi
5.-6.tbl. 1943. Viðtöl við Guðrúnu Lovísu Magnúsdóttur (f.1922 d.2020), og við kennarana Jón Inga Baldvinsson, Guðmund Þórðarson og Særúnu Jónsdóttur, og Hlöðver Kristinsson, fyrrum skólabílstjóra.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School