22. október 2014

Börn um allan heim

 

Yfirskrift þemadaga í Stóru-Vogaskóla var ,,Börn um allan heim“ og stóðu þeir yfir frá 15.-17.október. Hugmyndin kviknaði þegar Unicef sendi okkur beiðni um þátttöku í söfnun til styrktar þróunarhjálp fyrir börn og fannst okkur tilvalið að fræða okkar börn um Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og  um aðstæður barna víða um heim. Þá notuðum við tækifærið og ræddum mun á réttindum og forréttindum.

Að sjálfsögðu tókum við þátt í degi rauða nefsins og má segja að þar hafi vinnan byrjað. Kennarar hafa síðan þá kynnt greinar barnasáttmálans og fléttað inn í kennslu eftir atvikum. Þegar kom svo að þemadögum voru nemendur orðnir nokkuð vel kunnugir barnasáttmálanum.

Fyrstu tvo dagana unnu nemendur alls konar verkefni úr Litla kompás og fjölmörg önnur verkefni sem hægt var að tengja við barnasáttmálann. Afraksturinn var t.d. plaköt þar sem sjá má á öðru þeirra jákvæðar fréttir og hinu neikvæðar fréttir, þau kusu að tjá þær með myndum sem töluðu sterkt til þeirra. Annar hópur teiknaði hendur sem leiddust í hring og fallegt ljóð í miðjunni um vinskap. Einn hópur gerði útlínur manneskju á stórt plakat og síðan límdu þau inn á það réttindi barna skv. sáttmálanum.

 

Á þriðja degi leystu nemendur svo þrautir sem reyndu mjög á samvinnu og samheldni. Nemendum var blandað saman frá 1.-10. bekk og skipt í hópa. Sú hópaskipting var óvenjuleg og fór fram undir yfirskriftinni:

,,Leit að týndum fjölskyldumeðlimum

Leit að fjölskyldumeðlimum fer fram í skólanum. Hver fjölskylda hefur sitt sérkenni (litaða borða). Fyrirliðar ganga milli kennslustofa og safna saman fjölskyldumeðlimum.

Þegar allir eru fundnir kemur hópurinn saman inn í sal“.

Fyrirliði úr 9. eða 10.bekk ber ábyrgð á að allur hópurinn sé alltaf saman í öllum þrautum.

Elstu nemendurnir báru sem sagt ábyrgð á þeim yngri og sáu til þess að enginn týndist úr hópnum. Þau fylgdust síðan að á milli 12 stöðva og leystu mismunandi þrautir, til dæmis bjuggu þau  til bolta úr einhverju efni sem þau fundu, jafnvel pappír, plastpokum og límbandi,  skó úr efni sem til féll, kaffipokum, sóttu vatn í tjörnina og settu á flöskur (án þess að nota trekt), flokkuðu hrísgrjón, við hrísgrjónavinnuna voru þau svo einbeitt að það mátti heyra saumnál detta. Þau þvoðu sér upp úr mis hreinu vatni, gengu fram og aftur göngustíginn, eldri nemendur þurftu að bera þau yngri á bakinu. Dagurinn gekk mjög vel og allri nemendur stóðu sig með prýði. Það var frábært að sjá hve ábyrg þau eldri voru gagnvart yngri krökkunum og þau yngri litu með stórum augum upp til þeirra. Hvert sem litið var sáust nemendur með bros á vör og þau fundu til ábyrgðar og samkenndar.  Við erum ákaflega stolt af krökkunum okkar og höfðu einhverjir starfsmenn á orði að þessir þemadagar hefðu verið einstaklega vel heppnaðir.

Börnin hafa safnað áheitum eða styrkjum í tengslum við verkefnið sem þau munu skila af sér í næstu viku.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School