Skólahjúkrun

Í Stóru-Vogaskóla starfar einn skólahjúkrunarfræðingur í hlutastarfi.

Hann er við tvo daga í viku mánudaga og þriðjudaga frá kl: 10:00-14:00 og sinnir viðtölum, athugunum á heilsu nemenda og almennri heilbrigðisfræðslu.

Meginmarkmið skólaheilsugæslu er að stuðla að því að nemendur vaxi, þroskist og stundi nám sitt við bestu andlegu, líkamlegu og félagslegu aðstæður sem völ er á.

Heilsugæsla skólabarna er framhald af ungbarnavernd. Skólaheilsugæsla vinnur í samvinnu við foreldra/forráðamenn, skólastjórnendur, kennara og aðra sem koma að málefnum nemenda. Farið er með allar upplýsingar sem trúnaðarmál. Skólahjúkrunarfræðingur situr í nemendaverndarráði skólans og forvarnarteymi.

Reglulegar skoðanir og bólusetningar:

1. bekkur: Hæð, þyngd og sjónpróf - viðtal, lífstíll og líðan.
4. bekkur: Hæð, þyngd og sjónpróf - viðtal, lífstíll og líðan.
7. bekkur: Hæð, þyngd, og bólusetning gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum - stúlkur fá bólusetningu við leghálskrabbameini - viðtal, lífstíll og líðan.
9. bekkur: Hæð, þyngd og sjónpróf. Bólusetning gegn kíghósta, barnaveiki og stífkrampa, mænusótt (Boostrix/polio) - viðtal, lífstíll og líðan.

Ef ástæða þykir til vísar skólahjúkrunarfræðingur nemanda til læknis.

Nemendum í öðrum árgöngum eru skoðaðir ef þörf er á. Ef líkur eru á að barnið sé ekki að fullu bólusett þá eru foreldrar hvattir til að hafa samband við skólaheilsugæslu. Bólusetningar barna eru alltaf á ábyrgð foreldra.

Send er tilkynning heim rafrænt fyrir bólusetningar nemenda (alltaf gert í samráði við foreldra). Þeir foreldrar sem þess óska geta fengið viðtal við skólahjúkrunarfræðing.

6-H heilsugæslunnar
Skólaheilsugæslan sinnir skipulagðri heilbrigðisfræðslu og hvetur til heilbrigðra lífshátta. Byggt er á hugmyndafræðinni um 6-H heilsunnar sem er samstarfsverkefni skólaheilsugæslunnar og landlæknis.

Áherslur fræðslunnar eru:

*Hollusta - Hvíld - Hreyfing - Hreinlæti - Hamingja

*Hugrekki og kynheilbrigði

*Svefn, nesti og skjólfatnaður

Reglulegur og nægjanlegur svefn er mikilvægur fyrir heilsu og þroska barna. Börn þurfa að sofa 10-12 klst. á nóttu. Skóladagur nemenda er langur, mikilvægt er að borða reglulega og hafa með sér hollt og gott nesti. Einnig er nauðsynlegt að nemendur séu í góðum skjólfatnaði og með húfu og vettlinga.

*Slys, veikindi

Veitt er fyrsta hjálp í skólanum og minniháttar slysum sinnt. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Mikilvægt er að skólinn hafi öll símanúmer sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins. Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt í skólanum. Ef barn er með greindan alvarlegan sjúkdóm sem getur stefnt heilsu/lífi þess í bráða hættu er nauðsynlegt að skólaheilsugæsla viti af því. Hér er átt við sjúkdóma eins og t.d. sykursýki, bráðaofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma.

*Lyfjagjafir

Samkvæmt fyrirmælum Landlæknisembættisins eru sérstakar vinnureglur varðandi lyfjagjafir til nemenda á skólatíma. Þar kemur meðal annars fram að skólabörn skulu ekki fá önnur lyf í skólanum en þau sem hafa verið ávísuð af lækni. Í engum tilvikum getur barn borið ábyrgð á lyfjatökunni, ábyrgðin er foreldranna. Börn skulu ekki hafa nein lyf undir höndum í skólanum nema í algjörum undantekningartilvikum. Slíkar lyfjagjafir geta t.d. verið insúlingjafir sem barnið sér sjálft alfarið um. Foreldrar/forráðamenn þeirra barna sem þurfa að taka lyf á skólatíma skulu hafa samband við skólaheilsugæslu og skipuleggja lyfjagjafir á skólatíma.

Tannvernd - fróðleikur og upplýsingar

Lús - fróðleikur og upplýsingar

Njálgur - fróðleikur og upplýsingar

Mikilvægt að meðhöndla smit STRAX.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School