Stefna skólans

Markmið Stóru-Vogaskóla er að veita hverjum og einum nemanda tækifæri til að þroska hæfileika sína og auka þekkingu sína. Með því taki skólinn þátt í að móta einstaklinga sem taki virkan og jákvæðan þátt í að bæta samfélagið.

Stóru-Vogaskóli hefur það að markmiði að nám og kennsla verði skilvirkt ferli sem lagi sig að nýjum tímum og nýrri kennslutækni. Með því búi skólinn nemendur undir líf og starf í tæknivæddu þjóðfélagi í örri þróun.

Áhersla verði lögð á að kennarar og stjórnendur skólans endurmeti sífellt markmið skólans og kennsluaðferðir og sæki sér endur- og símenntun í því skyni. Það skuli þó aldrei vera markmið að gera breytingar breytinganna vegna heldur til að stuðla að sannanlega bættu skólastarfi. Með það í huga innleiði skólinn aðferðir til að meta skólastarfið og um leið þörf fyrir breyttar áherslur.

Skólastarf í Stóru-Vogaskóla byggist í grunninn á bekkjakennslu í getublönduðum bekkjum. Til að koma til móts við þá kröfu að allir nemendur fái kennslu við hæfi þróar skólinn nú aðferðir sem miðast í auknum mæli við þarfir og hæfileika einstaklingsins. Þetta er m.a. gert með þemabundnu námi og hópaskiptingu þvert á aldur eftir viðfangsefnum og verkfærni nemenda.

Skólinn leggur áherslu á að grípa strax inn í með greiningar, sérkennslu eða öðrum stuðningsúrræðum ef nemendur virðast ekki ná námsmarkmiðum.

Skólinn stefnir að því að nýta sér umhverfi skólans og byggðarlagsins í auknum mæli, t.d. hvað varðar kennslu í náttúrufræði og samfélagsfræði.

Skólinn hefur það að markmiði að skapa umhverfi þar sem nemendum líður vel, andlega og líkamlega. Skólinn leitast við að innleiða, í samráði og samvinnu við nemendur og foreldra, reglur og vinnuaðferðir sem taka til samskipta nemenda innbyrðis og samskipta nemenda og starfsmanna skólans. Jafnframt vill skólinn innleiða aðferðir til að sporna við og bregðast við einelti.

Skólinn vill stuðla að líkamlegri vellíðan nemenda  m.a. með því að bjóða upp á hollan og góðan mat í mötuneyti skólans og að nemendur stundi útiveru og hreyfingu.

 

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School