Skólinn

Stóru-Vogaskóli er heildstæður grunnskóli með 1.-10. bekk. Íþrótta- og sundkennsla fer fram í íþróttamiðstöð og sundlaug bæjarins. Innan veggja skólans og undir stjórn skólastjóra er einnig rekinn Tónlistarskóli Sveitarfélagsins Voga.

Frístundaskóli er starfræktur á vegum skólans, þar er athvarf fyrir nemendur í 1.-4. bekk að loknum skóladegi.

Einkunnarorð skólans eru virðing – vinátta – velgengni og hefur starfsfólk skólans ásamt nemendum lagt sig fram um að halda þeim á lofti.

 

Sagan

Stóru-Vogaskóli er afsprengi samfellds skólahalds í Sveitarfélaginu Vogum (Vatnsleysu-strandarhreppi) frá því haustið 1872. Þá var byggt skólahús á jörðinni Suðurkoti á Vatnsleysuströnd og nefndist skólinn Suðurkotsskóli en síðar Brunnastaðaskóli. Var það eitt af fyrstu sérsmíðuðu barnaskólahúsum landsins. Árið 1886 var byggt við skólahúsið og það síðan endurbyggt árið 1907, Steinhlaðinn grunnur hússins er enn sjáanlegur. Nýtt og stærra skólahús var byggt skammt frá því gamla árið 1944 og er það nú íbúðarhúsið Skólatún.

Lengi vel  fór kennsla fram frá kl. 10 – 14 sex daga vikunnar  6 máunði ársins og var jólaprófið haldið 23. desember og vorpróf í lok apríl. Stundum var kennt á fleiri stöðum samtímis til að stytta göngu barnanna í skólann sem oft var löng. Á Vatnsleysu var eins konar farskóli með hléum í samtals 2 áratugi og í nokkur ár var kennt í Landakoti eða Þórustöðum. Byggt var sérstakt skólahús í Norðurkoti skammt frá Kálfatjörn 1903 og kennt þar auk Suðurkotsskóla í áratug. Eftir það varð húsið íbúðarhús í marga áratugi uns það fór í niðurníðslu en Minjafélag Vatnsleysustrandarhrepps bjargaði því og hefur nú endurbyggt það á Kálfatjörn sem hluta af minjasafni. Skólaakstur hófst 1943 (með fyrstu stöðum á landinu) og eftir það var allt skólahaldið á einum stað. Fyrsti áfangi Stóru-Vogaskóla (670m2) var tekinn í notkun 1979 og voru verkgreinar kenndar áfram í Brunnastaðaskóla í fáein ár. Annar áfangi skólans var tilbúinn um áramótin 1998-99. Haustið 2005 var síðan tekin í notkun veruleg viðbót við skólahúsnæðið. Þar munar mest um 8 kennslustofur, þar af kennslustofu til náttúrufræðikennslu og textílmenntar, auk myndarlegs samkomusalar og mötuneytiseldhúss.

Saga skólahalds í Vatnsleysustrandahreppi

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School