Comeniusheimsókn lokið
Nú er lokið næst síðasta fundinum í comeniusarverkefni Stóru-Vogaskóla og samstarfsskólanna í Tyrklandi og á Ítalíu. Fóru gestirnir heim á leið í gærmorgun eftir velheppnaða dvöl á Íslandi. Gestirnir komu til landsins seint s.l. laugardag og á sunnudeginum var farið með þá í skoðunarferð um Þingvöll, Geysi, Gullfoss, Kerið, Hveragerði og endað á Stokkseyri. Á mánudeginum var skólinn okkar skoðaður og þá hittu gestirnir nemendur og foreldra sem buðu til veglegs kaffiboðs. Að mestu leyti fór dagurinn í fundarhöld en að þeim loknum brugðu menn sér í Bláa lónið. Á þriðjudeginum var farið í fróðlega heimsókn í Ingunnarskóla í Grafarholti og að því loknu fengu gestirnir tíma til að skoða sig um í höfuðstaðnum. Nú liggur fyrir áætlun um þau verkefni sem unnið verður að í vetur en verkefninu lýkur í vor með lokafundi sem verður í Martina Franca á Ítalíu um miðjan mars. Öll verkefni, áætlanir, fundargerðir o.fl. eru jafnóðum birt á heimasíðu verkefnisins.
Í heimsókn hjá 5. bekk en sá bekkur vinnur í verkefninu ásamt 4. bekk. Fleiri myndir eru hér.