Dagur gegn einelti
Dagur gegn einelti
8. nóvember ár hvert
Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti hefur ákveðið að helga 8. nóvember ár hvert baráttunni gegn einelti. Slíkur baráttudagur var fyrst haldinn árið 2011 og markmiðið með deginum er og var að vekja sérstaka athygli á málefninu. Undirritun fulltrúa félaga, samtaka og opinberra stofnana á þjóðarsáttmála gegn einelti var þar einn liður. Sáttmálinn er einnig grunnur að frekari vinnu, við hann má bæta og miða í þeim efnum við þarfir þeirra fjölmörgu félaga, samtaka og stofnana er undirrituðu sáttmálann í Höfða í fyrra. Sáttmálann má því útfæra enn frekar með undirmarkmiðum og fjölbreyttum verkefnum.
Mörg verkefni sem tengjast baráttudeginum eiga sér langan aðdraganda, eru ólík en eiga það öll sammerkt að vera liður í að efla jákvæð samskipti í samfélaginu. Markmiðið með baráttudeginum er því ekki það að efna til sérstakrar flugeldasýningar á þessum tiltekna degi, dagurinn er fremur tilefni til þess að gefa gaum og benda á margt það sem vel er gert í þessum efnum. Baráttudagurinn er því ekki síður dagur til þessa að líta yfir farinn veg, þétta raðirnar, ákveða næstu skerf og bretta upp ermarnar hver í sínum mikilvæga ranni.
Verkefnastjórnin hvetur alla þá fjölmörgu aðila og samtök, sem starfa á þeim vettvangi sem átakið nær til, til þess að taka höndum saman og helga 8. nóvember ár hvert baráttunni gegn einelti. Sérstaklega er þessu beint til leikskóla, grunn- og framhaldsskóla, félags- og frístundamiðstöðva, auk vinnustaða og stofnana. Ýmislegt er að hægt að gera á þessum baráttudegi, s.s. með táknrænum viðburðum eða viðfangsefnum sem hafa það að markmiði að beina umræðunni að einelti og alvarlegum afleiðingum þess í samfélaginu og ekki síst mikilvægi jákvæðra og uppbyggilegra samskipta.
Tekið af heimasíðunni gegneinelti.is
Það voru jafnframt tilmæli frá samtökum gegn einelti, að kl. 13 myndu allir hringja bjöllum í 7 mínútur en hugsunin er sú hver dagur ársins fái rúmlega sekúndu í hringingu þar sem stefnan er að sjálfsögðu sú að hver einasti dagur ársins verði baráttudagur gegn einelti.
Í Stóru-Vogaskóla ákváðum við að minnast sérstaklega á málstaðinn með því að safna saman öllum hljóðfærum sem til eru í skólanum og ganga hring í kringum húsnæðið. Það voru því 77 nemendur (með 77 hljóðfæri) sem gengu hringinn og slógu taktinn.
STÖNDUM ÖLL SAMAN GEGN EINELTI - ALLTAF
HVAR SEM ER OG HVENÆR SEM ER
UNGIR SEM ALDNIR