Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur
Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur í Stóru-Vogaskóla þann 16. nóvember á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar (1807-1845).
Nemendur og starfsfólk kom saman í Tjarnarsal þar sem skólastjórinn ávarpaði viðstadda. Fór hann yfir mikilvægi íslenskunnar og læsi almennt. Að sjálfsögðu var farið yfir æviágrip Jónasar í stuttu máli og nýyrðasmíð hans, sem í dag er samofið íslensku máli eins og gefur að skilja. Af miklum fjölda orða má nefna AÐDRÁTTARAFL, HITABELTI, SJÓNARHORN, VETRARBRAUT, ELDSUMBROT, BRINGUSUND, FJÖLBREYTTUR, HAGAMÚS, LAMBASTEIK, KENNSLUGREIN, SUNDKENNSLA.
Litla og Stóra upplestrarkeppnin var sett og fór skólastjóri yfir að nú sé formlegur undirbúningur fyrir keppnirnar hafinn. Nemendur sem unnu Stóru upplestrarkeppnina í 7. bekk í vor lásu upp ljóðin sem þeir lásu í upplestrarkeppninni í vor.
Að lokum voru sungin þrjú rammíslensk lög sem nemendur höfðu æft sig á í vikunni. Þorvaldur Örn, fyrrverandi kennari við skólann, kom og spilaði undir á gítarinn sinn. Á meðan á söng stóð hallaði yngri nemandi sér að kennara og spurði hvort söngvarinn (Þorvaldur) væri Jónas Hallgrímsson.