Dagur íslenskrar tungu í Stóru-Vogaskóla
Ýmislegt var í gangi hjá okkur á þessum merkisdegi, 16.nóvember, sem er afmælisdagur Jónasar Hallgrímssonar en í dag eru 205 ár síðan hann fæddist.
Árlega minnumst við þessa dags með ýmsum hætti.
Við byrjuðum daginn með samveru á sal hjá 8.bekk og síðan hjá 6.bekk. Þar sýndu nemendur á ýmsan hátt hæfileika sína, með ljóðalestri, leikþáttum og leikjum. Samverur eru hjá okkur einu sinni í viku og eru foreldrar yfirleitt duglegir að mæta til að sjá börn sín á sviði og aðrir nemendur setja sig í ,,leikhúsgírinn“ , fylgjast með og þykir okkur nemendur hafa náð miklum framförum í hvoru tveggja.
Í dag fer formlega af stað Stóra-upplestrarkeppnin í 7.bekk en þau munu æfa upplestur sem endar með lokahátíð í Garðinum 28.febrúar. Stóru-Vogaskóli hefur tekið þátt í þessari keppni frá upphafi eða í 14 ár og á lokahátíð etja kappi nemendur úr Gerðaskóla, Grunnskólanum í Grindavík og okkar skóli, þrír úr hverjum skóla. Skólarnir skiptast á að halda lokahátíðina. Nemendur í 7.bekk eru reyndar byrjaðir að æfa sig þar sem þeir hafa í nokkrar vikur farið í Álfagerði og lesið fyrir eldri borgara. Mjög skemmtilegt framtak það og held ég að allir hafi gaman að því. Þeir fóru líka í heimsókn í yngri bekki og lásu upphátt úr sögum.
Í fyrsta sinn tökum við nú þátt í Litlu-upplestrarkeppninni þar sem nemendur í 4.bekk æfa upplestur og hefst hún líka í dag. Þau fóru í heimsókn til eldri borgara, fóru með ljóðið ,,Sáuð þið hana systur mína“ eftir Jónas Hallgrímsson og lásu Söguna af Signýju úr Ævintýrinu um Hlina kóngsson eftir Huldu. Í staðinn fengu þau fallegt munnhörpuspil sem vakti kátínu, dans og gleði. Nemendur í 4.bekk fóru líka í heimsókn í yngri bekki og lásu upphátt.
Fyrstu bekkingar föndruðu með vísuna ,,Buxur, vesti, brók og skór“ eftir Jónas Hallgrímsson og nemendur í 3.bekk lærðu þá vísu og myndskreyttu. Þriðjubekkingar komu með bangsana sína í tilefni dagsins, teiknuðu mynd af þeim og skrifuðu sögu um þá.
Allir okkar skóladagar eru annars dagar íslenskrar tungu þar sem við á einhvern hátt sinnum íslenskunni og höfum gaman af.