6. apríl 2022

Erasmus+ - nemendur frá Frakklandi í heimsókn

Erasmus+ - nemendur frá Frakklandi í heimsókn

Nemendur í 10. bekk hafa tekið þátt í verkefni á vegum Erasmus+ sem hófst 2019 en vegna Covid faraldurs tafðist verkefnið verulega. Þráðurinn var tekinn upp að nýju á þessu ári og verkefnið verður klárað nú í sumar. Stóru-Vogaskóli er einn þriggja samstarfsskóla í verkefninu, hinir eru frá Pornic í Frakklandi og Battipaglia á Ítalíu. Heimsóknir milli skólanna eru á áætlun nú í vor og mættu frönsku nemendurnir til okkar í Vogana nú í byrjun apríl. Við munum heimsækja Pornic í maí og hitta þar ítölsku nemendurnar ásamt gestgjöfunum, Frökkum.

 

Nemendur 10. bekkjar kynntu Reykjanesið fyrir gestum okkar, farið var í Bláa lónið, Kvikuna, Krýsuvík, Kleifarvatn og að Brúnni milli heimsálfa einn daginn, Þingvelli, Gullfoss og Geysi annan dag auk þess sem Vogar voru skoðaðir fyrsta dag heimsóknarinnar og farið á kajak á Tjörninni, í frisbígolf, hestar skoðaðir og síðan fór allur hópurinn í sund. Lokadaginn fóru krakkarnir svo með fjölskyldunum og skoðuðu ýmislegt í Reykjavík og víðar m.a. Fly Over Iceland.

 

Þetta er í fyrsta sinn sem Stóru-Vogaskóli tekur þátt Í Erasmus+ verkefni þar sem nemendaskipti fara fram og fjölskyldur nemenda fá „nýjan“ fjölskyldumeðlim í nokkra daga en frönsku nemendurnir gistu á heimilum íslensku nemendanna. Er foreldrum og systkinum 10. bekkjar nemenda þökkuð þátttaka þeirra í verkefninu en án þeirra væri þessi vinna ekki möguleg.

 

Í byrjun ársins var umsókn Stóru-Vogaskóla samþykkt hjá Erasmus+ og Rannís og mun skólinn því vera Erasmus+ skóli næstu 6 árin með þátttöku nemenda og nemendaskiptum á hverju ári. Það eru því spennandi tímar framundan á næstu árum hjá nemendum skólans, kennurum, foreldrum og aðstandendum þeirra.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School