Fernuflug mjólkursamsölunnar
Textasamkeppnin Fernuflug Mjólkursamsölunnar hóf sig til flugs nú í byrjun skólaárs þar sem grunnskólanemendum í 8.-10. bekk um land allt var boðið að taka þátt og senda inn texta undir yfirskriftinni „Hvað er að vera ég?“. Um 1.200 textar bárust í keppnina. Einungis 48 textar munu vera valdir og birtir á mjólkurfernum.
Við tilkynnum stolt á degi íslenskrar tungu að það er einn nemandi í Stóru-Vogaskóla sem á texta sem var valinn. Patryk Grygoruk í 9.b. á ljóð sem mun birtasta á mjólkurfernum eftir áramót þar sem ljóðið mun vera myndskreytt.
Við óskum Patryk innilega til hamingju með þetta skemmtilega ljóð.
Hvað er að vera ég?
Er ég aðeins líkami sem andar,
eða rödd sem leitar svara?
Er ég hugsun sem fer á flakk,
eða tilfinning sem býr í hjarta?
Kannski er ég meira en eitt eða ekki neitt,
kannski samansafn augnablika,
dansandi í tíma, þrátt fyrir alla þögn og hávaða.
Að vera ég er að leita, að finna, að vera
– alltaf eitthvað meira en orð.
Patryk Grygoruk
14 ára, Stóru-Vogaskóla








