4. september 2020

Fréttabréf

Kæru foreldrar/forráðamenn nemenda í Stóru-Vogaskóla

Þá hefur skólinn verið settur og nemendur glæða skólann okkar lífi á degi hverjum. Undirbúningur skólastarfs gekk vel á undirbúningsdögum og skólastarfi fer mjög vel af stað.
Í vetur erum við þátttakendur að nýrri fræðsluþjónustu í samstarfi við Suðurnesjabæ. Breytingar eru í raun engar en þjónustuaðilinn er annar. Kristín Helgadóttir er deildastjóri fræðslusviðs og er okkar fræðslustjóri. Atli Viðar Bragason verður áfram hjá okkur í vetur sem sálfræðingur. Hjördís Hafsteinsdóttir er talmeinafræðingur og Heiða Ingólfsdóttir er kennsluráðgjafi. Munu þau styðja okkar skólastarf í vetur.
Það er mikilvægt að forráðamenn muni að þegar skólinn byrjar á ný er mikilvægt að koma á reglu og rútínu.
Hver nemandi þarf nægilegan svefn og góða næringu því nám og langur skóladagur krefst mikillar orku og þá er mikilvægt að vera úthvíldur.
Ég hvet foreldra að veita skólagöngu barna sinna athygli, spyrja t.d. hvað skemmtilegt hafi verið gert í dag o.s.frv. Hér er vænlegt að vera hvetjandi gagnvart lestri og námi almennt. Spyrja með jákvæðni að leiðarljósi. Jákvætt hugarfar hefur jákvæð áhrif á nemendur. Verum dugleg að vinna saman og vera í sambandi ef eitthvað er.
Í Stóru-Vogaskóla væntum við árangurs af nemendum og starfsfólki. Því er hjálplegt að foreldrar hvetji barnið til þess að sýna metnað, seiglu, sköpun, sjálfstæði og útsjónarsemi. Aðstoðið, leiðbeinið, hjálpið, léttið undir en umfram allt, verið til staðar.
Skólaforeldrar eru stór hluti af skólasamfélaginu. Við eigum gott samstarf við stjórn foreldrafélags skólans og væntum mikils af góðu samstarfi við alla foreldra. Viðhorf foreldra er mikilvægur stuðningur við nám og þroska nemenda skólans.
Foreldrar og skóli bera sameiginlega ábyrgð á að nemendur fái eins góða skólagöngu og mögulegt er. Ef samstarf á milli skóla og heimilis er ekki vel virkt, er ekki mögulegt að skapa nauðsynlegar forsendur fyrir að einstakir nemendur geti þróað sína hæfileika til fullnustu. Samt er það þannig að skóli og heimili bera ekki sömu ábyrgð á öllum atriðum skólastarfsins. Það eru ákveðin atriði sem foreldrar bera höfuðábyrgð á og önnur atriði sem skólinn ber höfuðábyrgð á. Bið ég ykkur að kynna ykkur þetta skjal vel ég legg áherslu að það við mitt starfsfólk að þau hafi þessi leiðarsjós í samskiptum. http://www.storuvogaskoli.is/skolastarfid/sameiginleg-abyrgd
Það er okkur mikilvægt að upplýsingar um foreldra og forráðamenn séu réttar í Mentor. Því vil ég biðja alla að líta inn á Mentor og kanna hvort allt sé rétt þar inni, heimilisföng, netföng, símanúmer og þess háttar.
Hjá okkur er einn nemandi með Kiwi bráðaofnæmi og bið ég ykkur að senda ekki nemendur með Kiwi í nesti.
Hlakka til að vinna með ykkur í vetur.

Kær kveðja
Hálfdan Þorsteinsson, skólastjóri Stóru-Vogaskóla.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School