Fréttabréf janúar 2015
Skólavogin-Skólapúlsinn, fyrstu niðurstöður á þessu skólaári
Í nokkur ár höfum við í Stóru-Vogaskóla tekið þátt í viðhorfskönnun meðal nemenda í 6.-10.bekk um virkni, líðan og skóla- og bekkjaranda á vegum Skólapúlsins. Flestir grunnskólar á landinu taka þátt og getum við séð hvar við stöndum miðað við landið og miðað við síðustu ár. Þessar kannanir eru gagnlegar fyrir okkur, nemendur, foreldra og skólasamfélagið almennt.
Framkvæmdin er þannig að tvisvar á ári er könnunin lögð fyrir úrtak nemenda í 6.-10.bekk, sú fyrri á haustin, sú seinni í febrúar-mars. Í febrúar-mars er líka lögð könnun fyrir starfsmenn og foreldra svo seinni niðurstöður koma í júní sem við kynnum þá næsta haust.
Hér fyrir neðan má sjá samantekt um helstu niðurstöður úr nemendakönnun sem lögð var fyrir síðastliðið haust. Einnig er hægt að sjá niðurstöður í heild sinni á heimasíðu skólans undir kannanir.
Þegar skoðuð er virkni nemenda í námi kemur í ljós að ánægja af lestri er fyrir neðan landsmeðaltal, 50% nemenda segjast bara lesa þegar þau verða að gera það en 60% þeirra segjast vera ánægðir ef þeir fá bók að gjöf og 50% finnst gaman að fara á bókasafn. Þó hefur ánægja af lestri aukist frá síðasta skólaári. Þetta er jákvæð þróun og viljum við halda áfram á þeirri braut.
Ánægja af náttúrufræði er undir meðaltali, en við erum á réttri leið, þar sem ánægja nemenda hefur aukist milli ára.
Trú á eigin námsgetu mælist undir landsmeðaltali og þar þurfum við að taka höndum saman. Við teljum að nemendurnir okkar hafi alla burði til að standa sig vel (þau hafa sýnt framfarir á samræmdum prófum), okkar verkefni er að sannfæra þau um eigið ágæti. Mikilvægt er að ræða við börnin okkar um menntun og tala við þau um hvað þau langi til að læra þegar þau útskrifast frá okkur. Hvort sem þau langar til að læra iðnmennt, bóknám, list – eða tæknimenntun þá standa þeim allar dyr opnar.
Sjálfsálit nemenda er undir landsmeðaltali sem er í takt við niðurstöður um trú á eigin námsgetu. Nokkrar undirspurningar fylgja hverjum þætti og í þessum þætti er t.d. fullyrðingin: ,,stundum finnst mér ég ekki skipta neinu máli fyrir aðra“ og geta þau merkt við frá mjög ósammála upp í mjög sammála, þar koma þau ekki vel út, þau segjast ekki heldur hafa marga góða eiginleika. Líðan er rétt undir meðaltali.
Þrautseigja í námi hefur aukist og hefur náð landsmeðaltali, þar segjast nemendur leggja sig fram, þegar þau læra. Áhugi nemenda á stærðfræði er yfir landsmeðaltali.
Tíðni eineltis hefur minnkað og mælist nú talsvert undir landsmeðaltali sem er mjög ánægjulegt. Það þýðir ekki að við getum sofnað á verðinum heldur munum við halda áfram að vinna í eineltismálum í samvinnu við nemendur og foreldra og við ítrekum að ef foreldrar eða nemendur hafa grun um að einelti sé í gangi þá er fyrsta skrefið að láta okkur vita en upplýsingar um viðbragðsáætlun og tilkynningarblað er á heimasíðu skólans.
Samband nemenda við kennara er um meðaltalið, hefur batnað frá síðasta ári og er það jákvætt. Agi í tímum er þó rétt undir meðaltali og að sjálfsögðu leggjum við áherslu á að vera a.m.k. í meðaltalinu.
Virk þátttaka nemenda í tímum hefur aukist, það er jákvætt að svo skuli vera. Til að nemendur nái tökum á námsefninu er mikilvægt að virkja þau, nýta þá krafta og hæfileika sem hver og einn býr yfir.
Mikilvægi heimavinnu í námi mælist rétt undir meðaltali, að sjálfsögðu er stefnan sett á að vera yfir meðaltalinu.
Í lok september tóku nemendur í 4., 7. og 10.bekk samræmd könnunarpróf í íslensku og stærðfræði og í 10.bekk tóku þau líka próf í ensku. Tilgangur samræmdra könnunarprófa er að:
- athuga eftir því sem kostur er, að hvaða marki námsmarkmiðum aðalnámskrár í viðkomandi námsgrein eða námsþáttum hafi verið náð,
- vera leiðbeinandi um áherslur í kennslu fyrir einstaka nemendur,
- veita nemendum, foreldrum og skólum upplýsingar um námsárangur og námsstöðu nemenda,
- veita upplýsingar um hvernig skólar standa í þeim námsgreinum sem prófað er úr, miðað við aðra skóla landsins.
Niðurstöður í 4.bekk voru þær að þau voru undir landsmeðaltali, í 7.bekk voru þau talsvert yfir landsmeðaltali og í 10.bekk voru þau undir landsmeðaltali í stærðfræði og íslensku en yfir í ensku. Þegar niðurstöður eru skoðaðar þurfum við alltaf að hafa í huga mismunandi samsetningu á námshópum. Í 7. og 10.bekk er líka reiknaður framfarastuðull sem segir okkur hvort nemendur standa sig jafnvel, betur eða verr en í síðasta prófi. Strax og niðurstöður birtust fóru kennarar að vinna með nemendur í samræmi við þær, t.d. með aukinni lestraraðstoð.
Þegar niðurstöður skólans eru skoðaðar miðað við síðustu ár kemur í ljós að meðaltal er að hækka og gleðjumst við að sjálfsögðu yfir því en markmiðið er samt alltaf að ná yfir landsmeðaltal sem flestir bekkir hafa alla burði til að ná.
Nemendur okkar er hópur af frábærum krökkum sem við erum ánægð með, stolt yfir að hafa hér og okkur líður vel með. Það er eftir því tekið að þau sýna öðrum vináttu og virðingu. Við þurfum í sameiningu að vekja hjá þeim metnað, taka eftir því sem vel er gert og hrósa, sem mun þá auka trú þeirra á eigin námsgetu og þeim mun líða betur.