10. desember 2008

Fréttir frá foreldrafélaginu


Aðventutónleikar í Stóru-Vogaskóla
Í ár stóð stjórn foreldrafélags Stóru-Vogaskóla fyrir þeirri nýjung að halda aðventutónleika fyrir alla fjölskylduna. Miðvikudagskvöldið þann 3. desember komu tónlistarfólkið og systkinin KK og Ellen og spiluðu ljúfa tónlist í anda aðventunnar fyrir fullum Tjarnarsal. Er óhætt að segja að aðdáendahópur systkinanna sé ekki bundinn við ákveðinn aldurshóp, og má segja að einna dyggustu aðdáendurnir hafi verið af yngri kynslóðinni. Í hléi voru seldar veitingar af hálfu 7. bekkjar skólans en hann safnar nú fyrir ferð í skólabúðir að Reykjum. Eftir hlé sýndu 7. bekkingar söng- og leikatriði sitt sem byggir á Mamma Mia myndinni við mikinn fögnuð áhorfenda. 


Jólaföndurstund í Stóru-Vogaskóla
Laugardaginn 29. nóvember sl. hélt foreldrafélag Stóru-Vogaskóla jólaföndurstund í Tjarnarsalnum. Hvatti félagið og bauð öllum nemendum skólans að mæta með yngri systkinum, foreldrum og öfum og ömmum. Óhætt er að segja að nemendur og aðstandendur þeirra hafi tekið foreldrafélagið á orðinu og mættu 120 manns í jólaföndrið og áttu saman notalega föndurstund með fjölskyldu og vinum við upphaf aðventunnar. Veitingasala var í höndum 7. bekkjar skólans en nú er safnað fyrir ferð í skólabúðir að Reykjum sem farin verður í janúar.

Sjá myndir á heimasíðu.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School