30. október 2025

Gæðaviðurkenning eTwinning

Gæðaviðurkenning eTwinning

Það er okkur mikil ánægja að tilkynna að skólinn okkar hefur hlotið gæðaviðurkenningu eTwinning (National Quality Label). Rannís og Landsskrifstofa Erasmus+ standa að Evrópsku nýsköpunarverðlaununum í kennslu og eTwinning gæðaviðurkenningum fyrir framúrskarandi verkefni.

Viðurkenningar eTwinning eru veittar fyrir vel unnin verkefni sem sýna fram á fagmennsku, frumkvæði og árangursríka notkun á eTwinning til alþjóðlegs samstarfs og skapandi náms. Vert er að nefna að í ár hlutu aðeins fimm skólar á Íslandi þessa viðurkenningu – tveir framhaldsskólar, tveir grunnskólar og einn leikskóli.

Í verkefninu Plasticsaurus unnu elstu nemendur Stóru-Vogaskóla með jafnöldrum sínum frá Frakklandi og Ítalíu. Verkefnið fólst í að safna saman plasti og rusli úr nærumhverfi og var lokaafurðin að búa til úr því skapandi listaverk. Hluti af verkefninu eru nemendaskipti og var listaverkið unnið í Frakklandi, á Ítalíu og Íslandi af nemendum okkar. Verkið var til sýnis í Brussel á fundi UNESCO.

Viðurkenningin fólst m.a. í því að innleiða hæfniviðmið úr aðalnámskrá grunnskóla í verkefnið. Unnið er markvisst með hæfniviðmið í öllum bekkjum skólans, UNESCO á yngsta stigi, Grænfána á miðstigi og Erasmus+/eTwinning á elsta stigi.

Stóru-Vogaskóli var heiðraður sérstaklega þegar mennta- og barnamálaráðherra ávarpaði gesti á hátíðarathöfn. Erna umsjónarkennari á elsta stigi og Hilmar Egill skólastjóri tóku á móti viðurkenningunni.

Við viljum nota tækifærið og þakka öllum þeim sem komu að verkefninu, m.a. nemendum, starfsfólki skólans, sveitarfélaginu og foreldrum sem lögðu hönd á plóg við að gera þetta verkefni að veruleika. Viðurkenningin er staðfesting á framsæknu og metnaðarfullu skólastarfi og samfélagi okkar

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • UNESCO
  • Hnetulaus skóli
  • Mentor
  • Twinning School