22. maí 2012

Gengið á Hátind Esju

Valhópurinn Hollusta og hreyfing gengu á Esju sunnudaginn 20. maí í frábæru veðri. Hilmar, kennari hópsins, skrifaði eftirfarandi um ferðina:

"Síðasta gangan á önninni var á Hátind (909 m) í Esju. Gangan sem tók þó nokkuð á stóð yfir í um 5 tíma. Til að byrja með var hækkunin um móa og mela uns komið var að hamrabelti ofarlega í fjallinu. Ásýndar var það ekki árennilegt en þegar komið var í það var þetta bara skemmtilegur tröppugangur, þó vissulega þyrfti að fara varlega.
 
Þegar upp á brún var komið tók við ganga í snjó upp á topp. Þaðan var útsýni með besta móti. Það sem fyrir augu bar var að sjálfsögðu Snæfellsjökull og fjöllin á Snæfellsnesi. Skarðsheiðin, Baula í Borgarfirði, Tröllakirkja á Holtavörðuheiði, Víðidalsfjall og fleiri í Húnavatnssýslu, Ok, Eiríksjökull, Þórisjökull, Botnssúlur, Skjaldbreiður, Hlöðufell, Hekla, Þingvallavatn, Þríhyrningur, Vestmannaeyjar, Hengill og fjöllin á Reykjanesskaga svo þó nokkur séu nefnd. Útsýnið yfir höfuðborgarsvæðið var einnig glæsilegt."

Fleiri myndir úr ferðinni má svo finna inni á myndasafninu.
  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School