11. maí 2020

Hefðbundið skólastarf á ný

SKÓLASTARF FRÁ 4. MAÍ

Mánudaginn 4. maí var skipulagsdagur í Stóru-Vogaskóla og því enginn skóli hjá nemendum. Þriðjudaginn 5. maí hófst hins vegar hefðbundið skólastarf að nýju, ásamt íþrótta- og sundkennslu.

 

STUNDATAFLA SKÓLAÁRSINS GILDIR

Unnið verður eftir hefðbundinni stundatöflu til vors og skólaslit munu fara fram út frá samþykktu skóladagatali, þó með breyttu sniði. Frímínútur verða með hefðbundnu sniði.

Frístund tekur til starfa. Starf félagsmiðstöðvar fer í eðlilegt horf og kennsla í tónlistarskólanum hefst sömuleiðis.

Námsmat mun fara fram samkvæmt venju en verður útfært í ljósi skerts skólahalds í samkomubanni.

 

Skóladagatalið í maí verður með eftirfarandi hætti, örlítið breytt frá áður útgefnu:

 • Skipulagsdagur 4. maí.
 • Skipulagsdagur 18. maí verður færður til 2. júní.
 • Þemadagar 19.-20. maí falla niður.
 • Vorhátíð 21. maí fellur niður.
 • Skólahlaup og tiltekt 3. júní.
 • Vordagur 4. júní.
 • Skólaslit 5. júní.

 

SUMT FELLUR ÚT – ANNAÐ HELDUR SÉR

Það er þó ljóst að verkefnum verður að raða í forgangsröð núna í maí þar sem hefðbundið skólastarf hefur ekki verið frá 16. mars sl. Það felur í sér að ekki verður mögulegt að sinna öllum hefðbundnum verkefnum í maímánuði eða þeim sem misst hefur verið af. Stjórnendur hafa komið sér saman um skipulag að vinna eftir til vors. Þannig munu foreldraskemmtanir og útihátíðir með foreldrum ekki verða í vor þótt slíkt verði mögulegt með nemendum. Árshátíðir nemenda falla niður en skoðað verður með aðrar skemmtanir undir lok skólaársins. Ferðalög verða í styttri kantinum. Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar verður á dagskrá sem og Litla upplestrarkeppnin, þó með takmörkuðum fjölda fullorðinna í sal.

 

TILMÆLI TIL FORELDRA

Almennt komi foreldrar eða aðrir fullorðnir gestir ekki inn í skólahúsnæðið til vors nema brýna nauðsyn beri til, t.d. að mæta á teymis-/skilafundi, og skal þá fylgja viðmiðum um smitgát. Þá viljum við biðja foreldra að virða tveggja metra nálægðarregluna og leitast eftir fremsta megni að notast við rafræn samskipti eftir því sem við á.

Skólaslit verða með öðru sniði í júní. Þar verður brugðist við því að takmarka að of margir fullorðnir verði ekki staddir á sama stað á sama tíma. Þetta verður kynnt síðar.

 

MÖTUNEYTI

Matsalur skólans verður opnaður á ný og hádegismatur framreiddur frá 5. maí. Hugað verður sérstaklega að smitvörnum í matsal.

 

SÓTTVARNIR

Áfram verður lögð áhersla á sóttvarnir í skólanum þótt sóttvarnarhólf leggist af þann 4. maí og treyst verður áfram á samvinnu og samstöðu allra um að þvo sér vel og spritta hendur.

 

SKÓLASÓKN

Þá ber þess að geta að reglur um skólasókn taka aftur gildi 5. maí eftir að hafa verið settar í bið meðan á samkomubannstímanum stóð. Það er mikilvægt að mæta í skólann og ætlast er til af skólanum að fylgja fast eftir að nemendur sæki skóla. Engin sjálfskipuð sóttkví er lengur í boði fyrir nemendur og foreldrar hafa ekki heimild til að hafa nemendur heima vegna Covid. Hefðbundin stoðþjónusta hefst á ný, t.d. teymisvinna vegna einstakra nemenda, greiningar, ráðgjöf sálfræðings, þjónusta talmeinafræðings og önnur stoðþjónusta eins og við á.

 

ÞAKKIR TIL FORELDRA

Með þessum breytingum sem nú taka gildi skiptir miklu máli að allir taki virkan þátt í að viðhalda þeim árangri sem hefur náðst í að stöðva kórónuveirufaraldurinn.

Við þökkum ykkur fyrir jákvæðni gagnvart þeim takmörkunum sem þurfti að setja á skólastarfið í mars og vonumst nú til að þessi breyting yfir í eðlilegt skólastarf komi til með að vera.

Gaman að fá börnin ykkar í hefðbundið skólastarf á ný.

 • Vogar
 • Saft
 • Heimili og skóli
 • Barnaheill
 • Grænfáninn
 • Mentor
 • Twinning School