Höfðingleg gjöf frá Nesbúeggjum
Fyrir skömmu síðan var ýtt úr vör söfnun fyrir Ipad spjaldtölvum fyrir skólann sem Elín Þuríður Samúelsdóttir þroskaþjálfi hafði veg og vanda að.
Nesbúegg brugðust skjótt við og ákváðu að gefa skólanum eina slíka spjaldtölvu.
Svava Bogadóttir skólastjóri tók við spjaldtölvunni,
en Erna Margrét Gunnlaugsdóttir afhenti hana fyrir hönd Nesbúeggja
en Erna Margrét Gunnlaugsdóttir afhenti hana fyrir hönd Nesbúeggja
Eins og sjá má í textanum hér fyrir neðan getur slíkt kennslutæki skipt sköpum.
Spjaldtölvurnar munum við nýta í kennslu fyrir nemendur með sérþarfir. Markmiðið með notkun tækjanna er breytilegt eftir aldri nemenda:
· Fyrir nemendur með einhverfu eða ADHD (athyglisbrest með ofvirkni) sem eiga erfitt með að tileinka sér almennar námsleiðir þar sem kennari leggur inn námsefni og nemendur vinna sjálfstætt í námsbókum. Sem dæmi um notkun:
o Kennsla í ritun fyrir nemendur sem vegna fötlunar sinnar hafa ekki tök á að nýta sér blýant og blað eingöngu til að ná valdi á stöfum.
o Gerð félagshæfnisagna og geymsla á aðgengilegan hátt fyrir nemendur með einhverfu sem geta þá lært að leita eftir sögunum í tölvum þegar þeir þurfa á að halda.
o Nemendum kennt að gera sjónrænt skipulag (grunnur að því að halda dagbók) þ.e setja upp myndir fyrir athafnir daglegs lífs sem auðveldar nemendum að hafa yfirsýn yfir daginn. Rannsóknir og reynsla af starfi með einhverfum og ofvirkum nemendum hafa sýnt fram á mikilvægi þess að nemandinn viti hvað hann á að gera yfir daginn, í hvaða röð og hvenær.
o Möguleikar á mismunandi tegundum af „appi“ (viðbótum) eru óþrjótandi á netinu og mörg af þeim sem framleidd eru til að auðvelda almenningi lífið geta skipt sköpum í lífsgæðum fyrir einstaklinga með fötlun.
· Notkunarmöguleikar fyrir eldri nemendur að tileinka sér tæknina til að halda skipulagi á lífinu gera þeim kleift að verða samkeppnishæfari einstaklingar í lífinu. Það er gríðarlega mikilvægt að hægt sé að kenna nemendum snemma á ævinni að koma sér upp skipulagi í námi og daglegu lífi og undirbúa þá þannig sem best fyrir fullorðinsárin þegar út í samfélagið er komið.
· Nemendum með lesblindu hefur opnast nýr möguleiki með tækninni og er gríðarlega mikilvægt fyrir sjálfsmynd þessara einstaklinga að tileinka sér úrræði sem eru til staðar. Sem dæmi má nefna mismunandi viðbætur sem hjálpa nemendum að lesa ensku og viðbætur sem taka við munnlegum skipunum notandans á vefum eins og google, youtube og fleiri. Með því móti getur nemandinn auðveldlega sótt sér fróðleik á þessum síðum án þess að skrifa textann. Að auki er hægt að nýta sér talvélar á netinu til að hlusta á lesinn texta.
Fyrir hönd Stóru-Vogaskóla þakka ég Nesbúeggjum kærlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf.
Svava Bogadóttir
skólastjóri Stóru-Vogaskóla