21. júní 2023

Innleiðing teymiskennslu í 1.-7. bekk og aukin stoðþjónusta

Innleiðing teymiskennslu í 1.-7. bekk og aukin stoðþjónusta

Haustið 2023 verður teymiskennsla innleidd í Stóru-Vogaskóla í 1.-7. bekk. Teymiskennsla felur í sér sameiginlega ábyrgð tveggja eða fleiri kennara á námi nemenda, kennslu, daglegum samskiptum, líðan og samstarfi með nemendahóp. Aðferðir og skipulag teymiskennslu er mismunandi eftir útfærslu teyma, tveir kennarar halda utan um hvert teymi og hafa tvær kennslustofur til umráða. Nemendum verður áfram skipt upp í hópa í list- og verkgreinum og skólaíþróttum, ýmist eftir árgöngum eða færni sem nemendur hafa tileinkað sér.

Kostir teymiskennslu eru margvíslegir og má þar nefna sveigjanleika og fjölbreytni í verkefnum nemenda, möguleika á smærri hópum og þannig auðveldara að mæta ólíkum þörfum nemenda. Þá fær hver og einn nemandi meira vægi og nám við hæfi. Fagleg teymi gefa kennurum auk þess tækifæri til að þróa og læra í starfi, þau skapa námsumhverfi og nýjar bjargir og umræðu um kennslu og nám.

Teymiskennsla hefur verið rannsökuð í marga áratugi víða um heim á öllum skólastigum (Ingvar Sigurgeirsson og Ingibjörg Kaldalóns, 2017). Niðurstöður margra rannsókna hafa leitt í ljós betri námsárangur í teymiskennsluskólum og að samstarf kennara stuðli að margvíslegum ávinningi fyrir nemendur, kennara og skóla. Rannsóknir benda einnig til þess að teymiskennsla hafi jákvæða félagslega þýðingu fyrir nemendur, stuðli að betri hegðun, ástundun og viðhorfum til náms, kennara og skóla.

Samhliða innleiðingu teymiskennslu verður stoðþjónusta aukin. Til viðbótar við þau námsver sem nú eru til staðar verða ný námsver stofnuð, ÍSAT-ver (Íslenska Sem Annað Tungumál) og einhverfuver. Þá verður frekari áhersla lögð á að sérkennsla fari fram inni í bekkjum þar sem því verður við komið, í stað þess að nemendur séu teknir úr kennslustundum.

Innleiðingin mun taka tíma og skólasamfélagið getur upplifað teymiskennslu á mismunandi hátt, sérstaklega meðan á innleiðingu stendur, enda er um margþætta samvinnu að ræða. Við munum eflaust rekast á hindranir á leiðinni sem við þurfum með samtali og samvinnu að yfirstíga.

Það er hlutverk skólans að leiða skólastarf á farsælar brautir í krefjandi umhverfi nútíma skólahalds.

Heimild: Ingvar Sigurgeirsson og Ingibjörg Kaldalóns. (2017). Er samvinna lykill að skólaþróun? Samanburður á bekkjarkennsluskólum og teymiskennsluskólum. Netla – veftímarit um uppeldi og menntun. Kennaraháskóli Íslands http://netla.hi.is/greinar/2017/ryn/10.pdf

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School