LEGO
Stóru-Vogaskóli í FIRST LEGO League í Háskólabíói
Síðasta dag janúarmánaðar fór 7.b. í Stóru-Vogaskóla í FIRST LEGO League keppnina (FLL) í Háskólabíói. Þema keppninnar í ár var World Class eða Skóli framtíðarinnar. Markmið keppninnar er að vekja áhuga ungs fólks á vísindum og tækni, sem og að efla sjálfstraust, leiðtogahæfni og lífsleikni.
Lið Stóru-Vogaskóla var skipað 9 keppendum, 8 stelpum og einum strák, auk liðstjóra sem var kennari.
Í október fékk liðið sem hét BUBBI BYGGIR send gögn sem unnið var með fram að keppnisdegi, LEGO-þrautabraut. Þar með gat forritun á LEGO-vélmenni hafist.
Keppnin fólst í eftirfarandi þáttum:
-
Hönnun og forritun á vélmenni úr tölvustýrðu LEGO til að leysa þrautir í þrautabraut sem byggir á þema keppninnar
-
að kynna rannsóknir sínar og lausnir
-
að skrá skrá niður ferli verkefnisins og kynna það
-
að æfa skemmtiatriði og sýna
Nemendur læra að beita stærðfræði og vísindum til að leysa raunveruleg verkefni og temja sér öguð vinnubrögð við öflun heimilda, úrvinnslu gagna og skýrslugerð. Einnig læra nemendur að vinna sem liðsheild og að kynna verkefni frammi fyrir áheyrendum. Ekki má gleyma því að félagsskapurinn og skemmtunin sem felst í því að leysa verkefni í hóp, er veganesti fyrir lífið.
-
Takmark keppninnar er að skapa heim þar sem vísindi og tækni eru í hávegum höfð og þar sem ungt fólk lætur sig dreyma um að skara fram úr á þeim sviðum.
-
Tilgangur keppninnar er að hvetja til þátttöku á sviði tækni og vísinda, örva nýsköpun og byggja upp lífsleiknihæfileika eins og sjálfstraust, samskiptahæfni og forystuhæfileika.
-
Viðhorf keppninnar er að upphefja árangur, að allir séu sigurvegarar. Allir mótast af þeirri reynslu sem undirbúningur og keppni færði þeim.
-
Hugmyndafræði keppninnar er að nemendur læri að vinna saman og taki þátt í nýsköpun og framleiðslu á einhvers konar tæki sem leysi þarfir sem eru samfélaginu nauðsynlegar.
LEGO-keppnin hefur náð til fleiri en 100.000 barna í 45 löndum víða um heim. Á Íslandi hefur keppnin verið haldin af Háskóla Íslands síðan árið 2005.
Lið grunnskólans á Reyðarfirði vann keppnina í ár og ávann sér rétt til þátttöku í heimsmeistaramóti FIRST LEGO League í St. Louis í Bandaríkjunum í apríl í vor. Lið Stóru-Vogaskóla stóð sig vel og var skólanum til sóma. Í lok keppnisdags var rætt um hvaða þætti þyrfti að bæta fyrir keppnina að ári.
Hillmar Egill Sveinbjörnsson
umsjónarkennari 7. bekkjar