30. júní 2014

Leikum og lesum í Vogunum

 

,,Lestur er bestur” skrifuðu nemendur  á  plakat hjá okkur í skólanum og fyrir neðan töldu þau upp bækur sem þau höfðu lesið í vetur. Þau voru stolt og ánægð með sig og máttu svo sannaralega vera það. Lestur er undirstaða alls náms, það eru ekki nýjar fréttir. Það er því mikilvægt að leyfa börnunum að lesa á hverjum degi heima og gefa sér tíma til að hlusta. Það þarf alls ekki að taka langan tíma, 5-15 mínútur á dag, það léttir þeim róðurinn seinna meir.

Dagana 23.-26. júní voru nemendur í 1.- 4. bekk í Stóru –Vogaskóla á námskeiði sem hefur það að markmiði að auka lestrarfærni þeirra.  13 nemendum var boðin þátttaka  og þáðu allir boðið. Á námskeiðinu voru notaðar tvær stofur, ( hreyfistofa og vinnustofa), útisvæði og bókasafn. Unnið var með nemendum á fjölbreyttan hátt þar sem skiptust á leikir og lestrarverkefni. Áhersla var lögð á samhæfingu hugar og handar, hlustun, minni, einbeitingu, málörvun, hreyfileiki o.fl. Öll verkefni voru þannig sett upp að allir gætu tekið þátt og skemmt sér.

Einn reyndur kennari, Halldóra Magnúsdóttir skipulagði námskeiðið og hafði sér til aðstoðar þrjá nemendur úr vinnuskólanum, Tönju, Hlyn og Helenu.

Hver dagur hófst í hreyfistofunni þar sem unnið var með málörvun og hreyfingu. Þá var farið í vinnustofu þar sem unnin voru alls konar lestrarverkefni.  Í frímínútum var farið í skipulagða leiki þar sem reyndi á einbeitingu, jafnvægi og samhæfingu. Þá var komið inn í nesti og kenndur nýr hreyfileikur áður en farið var í vinnustofu þar sem unnin voru lestrarverkefni og endað á félagalestri (PALS, pör að lesa saman).

Í lok dags var slakað á í hreyfistofunni, rifjaður  upp  lærdómur dagsins, og allir fóru sáttir og glaðir heim.

Síðan verður boðið upp á framhaldsnámskeið í ágúst.

 

Það var virkilega gamacn að fylgjast með glöðum og eftirvæntingarfullum börnunum, áhugasömum og flottum unglingunum og kennara dansa, leika og síðast en ekki síst lesa!

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School