7. maí 2010

Námsmat við skólalok í Stóru-Vogaskóla

 
Nú líður að lokum þessa skólaárs og vilja því skólastjórnendur nota tækifærið til að upplýsa foreldra og forráðamenn um það hvernig við metum það starf sem nemendur hafa unnið í vetur.
Tilgangur námsmats er að kanna að hve miklu leyti nemandi hefur tileinkað sér markmið aðalnámskrár (skólanámskrár) í viðkomandi grein. Námsmat getur farið fram með mismunandi hætti eftir ákvörðun skóla. Umfang þess skal þó að jafnaði vera í samræmi við umfang kennslu í viðkomandi grein. Kennarar bera ábyrgð á námsmati og þeir meta úrlausnir nemenda.
Námsmat á að vera það fjölbreytt að sterkustu hliðar hvers nemanda fái að njóta sín. Mestu máli skiptir að nemendur viti fyrirfram hvaða þættir verða metnir og til hvers er ætlast af þeim. Einnig skiptir miklu máli að matið sé réttmætt, þ.e. að samræmi sé á milli þeirra þátta sem metnir eru og þess sem kennt hefur verið. Mat á að endurspegla skólastarfið hverju sinni og vera í samræmi við skólanámskrána og aðalnámskrá grunnskóla.
Til að ná markmiðum námsmatsins er mikilvægt að hafa sem fjölbreyttastar aðferðir til að meta árangur nemenda. Skólaárinu er skipt í tvær annir og lýkur hvorri þeirra með heildarniðurstöðum námsmats. Heildarniðurstaðan getur verið byggð upp með eftirfarandi leiðum og þá í þeim hlutföllum sem við á hverju sinni:
  • Símat. Samkvæmt grunnskólalögum á námsmat ekki einungis að fara fram í lok námstímans heldur er símat einn af föstum þáttum skólastarfs, órjúfanlegt frá námi og kennslu. Símat er m.a. mat á verkefnaskilum á önninni (skólaverkefni, kaflapróf, heimaverkefni, hópverkefni, einstaklingsverkefni), mat á færni, virkni og vinnubrögðum nemandans.
  • Stöðupróf er hluti af símati og er í sumum tilfellum lagt fyrir til að fá upplýsingar um hvernig best er að haga kennslunni. Stöðupróf er t.d. hraðapróf í lestri og skimanir.
  • Sjálfsmat nemenda er hluti af símati og er mat nemenda á eigin frammistöðu og líðan.
 
Það er því mikilvægt að hafa þessi atriði í huga þegar vitnisburðarbækur nemenda eru skoðaðar.
Hér við Stóru-Vogaskóla leggjum við sérstaka áherslu á símat og þess vegna eru ekki sérstakir prófdagar á miðjum vetri og á vorin.
 
Skólastjórnendur.
 
  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School