16. janúar 2009
Primalinguaverkefnið í fullum gangi
Primalinguaverkefnið er komið vel af stað.
Nemendur í 6.bekk eru búnir með fjögur verkefni. Skólinn okkar hefur verið kynntur í mörgum Evrópulöndum. Upplýsingar, sögur og myndir af Sveitarfélaginu Vogar hafa vakið verðskuldaða athygli. Lukkudýrið Primalina heiðraði okkur með því að gera Stóru-Vogaskóla að fyrsta viðkomustað sínum. Músin Primalina hefur notið þess að vera í tímum með 6.bekkingum og skoða skólann okkar. Primalina er nú farin í heimsókn til Hollands og var erfitt að kveðja hana. Primalina er vissulega mjög forvitin og hefur gaman að ferðast og kynnast nýju fólk. Um jólin bökuðu nemendur í 6.bekk piparkökur og sendu þær til útlanda. Á móti fengu þeir sendar kökur frá Frakklandi og Ungverjalandi. Íslensku piparkökurnar slógu í gegn á erlendri grund og höfum við fengið mikið af tölvupósti þar sem okkar frábæru bökurum hefur verið hrósað. Á næstunni eru mjög spennandi verkefni fram á vor. Nemendur ætla að halda áfram að kynna sig og umhverfi skólans. Það verður sérstaklega talað um matargerð (,snacks at school), sérkenni skólans, ýmsa leiki í kennslustofunum og á skólalóðinni (,games at school’). Nemendur ætla einnig að kynna sveitarfélagið (,Welcome to our town’).