21. desember 2012

Skógarferð á aðventu

 
 
Á aðventunni fóru nemendur úr 6. bekk Stóru-Vogaskóla í skógarferð á Háabjalla. Tilefni ferðarinnar var, að Skógræktarfélagið Skógfell í Vogum hafði tekið ákvörðun um að gefa skólanum grenitré úr skógræktinni á Háabjalla sem nota mætti sem jólatré. Krakkarnir létu sig ekki muna um að fara fótgangandi til að sækja jólatré fyrir skólann sinn. Eftir nákvæma leit fannst loks rétta tréð, það var sagað niður og flutt til byggða. 
Nokkur ár eru síðan sú hefð skapaðist, að nemendur Stóru-Vogaskóla hófu að gróðursetja tré á svæðinu, en þau eru fengin úr Yrkjusjóði sem er sjóður æskunnar til ræktunar landsins. Vonandi á komandi árum verður svo hægt að sækja jólatré fyrir skólann úr þessum reit. Lengra er síðan sú hefð skapaðist að útskriftarnemendur Leikskólans Suðurvalla hófu að gróðursetja tré á sömu slóðum. Gaman er að geta þess, að börnin eru fyrrum nemendur á deild leikskólans sem heitir Háibjalli.
Jólatrénu af Háabjalla hefur nú verið komið fyrir í sal skólans þar sem það sómir sér vel fagurlega skreytt til augnayndis fyrir þá sem koma í salinn. Á litlu-jólunum dansa nemendur skólans kringum tréð og syngja jólasöngva, þar sem ríkja mun sönn jólagleði.
 
Skógræktarfélagið Skógfell óskar nemendum og starfsfólki skólans gleðilegrar jólahátíðar.  
 
 
 
 
  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School