Skólakeppni lokið fyrir Stóru upplestrarkeppnina
Í dag fór fram í Tjarnarsal keppni meðal nemenda í 7. bekk Stóru-Vogaskóla um það hverjir verða fulltrúar skólans í Stóru upplestrarkeppninni. Bekkurinn hefur æft að undanförnu undir stjórn Ernu Gunnlaugsdóttur umsjónarkennara og árangur góður. Eftirtaldir nemendur báru sigur úr býtum og mæta keppendum úr Garði og Grindavík þann 12. mars n.k. en nú er einmitt komið að Stóru-Vogaskóla að sjá um úrslitakeppnina: Sædís María Drzymkowska, Kolbrún Fríða Hrafnkelsdóttir, Sóley Ósk Hafsteinsdóttir og Aron Ingi Gestsson. Varamaður er Natalía Ríharðsdóttir. Við óskum þessum nemendum okkar góðs gengis í komandi keppni.
Markmið upplestrarkeppni í 7. bekk grunnskóla er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði. Keppnin sjálf er í rauninni aukaatriði og forðast skyldi að einblína á sigur. Mestu skiptir að kennarar nýti þetta tækifæri til að leggja markvissa rækt við einn þátt móðurmálsins með nemendum sínum, vandaðan upplestur og framburð, og fái alla nemendur til að lesa upp, sjálfum sér og öðrum til ánægju. Stefnt skyldi að því að allur upplestur í tengslum við keppnina sé fremur í ætt við hátíð en keppni. Þetta á ekki síst við um lokahátíð keppninnar.
Ágætar upplýsingar um keppnina, sögu hennar og tilgang má finna á eftirfarandi vef um keppnina.