19. júní 2023

Skólaslit og útskrift

Skólaslit og útskrift

Skólaslit Stóru-Vogaskóla fóru fram við hátíðlega athöfn á sal skólans 2. júní s.l. Skólaslitin voru tvískipt þ.e. 1.-5. bekkur og 6.-10. bekkur. Á skólaslitum hjá yngri spilaði Gabríela Ósk Sequeira Gomes í 4. bekk á píanó. Hjá eldri spilaði Guðrún Eva Þorsteinsdóttir 8. bekk á píanó.

Sem áður einkenndist skólaárið af fjölbreyttum verkefnum og áskorunum. Einn merkasti viðburður þessa skólaárs var 150 ára afmæli samfellds skólahalds í sveitarfélaginu, áður Vatnsleysustrandarhreppi. Þann 1. október var haldið uppá afmælið í Tjarnarsal. Í tilefni afmælisins hefur Þorvaldur Örn Árnason tekið saman söguþætti og gefið skólanum. Söguþættina má finna á heimasíðu skólans. Einnig gaf Kvenfélagið Fjóla fjórar KitchenAid hrærivélar í tilefni afmælisins.

Í byrjun janúar fór 7. bekkur í skólabúðirnar á Reykjum í Hrútafirði og dvaldi þar eina viku. Stóru og litlu upplestrarkeppninni var ýtt úr vör á degi íslenskra tungu, 16. nóv. eins og venja hefur verið í mörg ár. Árshátíð nemenda og árshátíðarballið var á sínum stað og tókst mjög vel. Vorhátíð var haldin á uppstigningardag í maí. Á vorhátíð er sýning á hluta af verkum nemenda sem unnin hafa verið yfir veturinn. Á vorhátíðardegi sér 6. bekkur og foreldrar um vinsæla kaffisamsætið í Tjarnarsal sem er liður í fjáröflun bekkjarins fyrir Reykjaferð sem farin er haustið eftir. Í lok maí tók Stóru-Vogaskóli þátt í Skólahreysti eftir miklar æfingar og undirbúning í allan vetur. Félagsmiðstöðin Boran tók þátt í lokakeppni söngvakeppni Samfés þar sem Arnbjörg Hjartardóttir nemandi í 10. bekk lenti í öðru sæti. Íþróttakappleikir 10. bekkinga við kennara var háður í maí og lauk með sigri nemenda. Skólahlaupið var á vordögum og var hlaupið í tveimur flokkum, keppnis- og skemmtiskokk. 10. bekkur fór í sína árlegu vorferð á Bakkaflöt í Skagafirði.

Stóru-Vogaskóli er viðurkenndur Erasmus-skóli. Erasmus er hluti af menntaáætlun Evrópusambandsins og er ætlað að stuðla að auknu samstarfi meðal skóla í Evrópu. Sem stendur er skólinn þátttakandi í 6 ára verkefni með skólum í Frakklandi og Ítalíu. Hluti af verkefninu er að taka á móti nemendum frá þessum löndum og senda bekk á unglingastigi frá Stóru-Vogaskóla á vorin til Frakklands eða Ítalíu. Í maí fengum við nemendur frá Frakklandi og Ítalíu sem dvöldu á heimilum 10. bekkinga. Síðar fóru nemendur 10. bekkjar til Frakklands og Ítalíu og dvöldu hjá þessum sömu fjölskyldum í tæpa viku.

Samstarf við Leikskólann Suðurvelli er heilmikið og hefur verið í gegnum árin. Má þar nefna verkefni í textíl þar sem 7. bekkur hefur saumað nýja búninga fyrir leikskólann, gamlir búningar verið lagaðir, þeim breytt og sumir fengið nýtt hlutverk. Einnig voru saumaðir skrautlegir margnota pokar fyrir Háabjalla og Lyngbjalla.

Auk þessarrar upptalningur stærstu viðburða er fjöldi annarra viðburða hjá öllum bekkjum. Það er svo sannarlega mikið líf og gaman í skólanum sem sjá má m.a. undir flipanum Fréttir á heimasíðu skólans.
Við útskrift 10. bekkjar ávarpaði Ingibjörg Ragnarsdóttir nemendur og fór yfir farinn veg. Fyrir hönd útskriftarárgangsins töluðu þau Jökull Þór Kjartansson, Mikael Árni Friðriksson og Sesselja Dögg Sigurðardóttir, fóru yfir farinn veg og þökkuðu fyrir árin fyrir hönd 10. bekkjar.

Við þökkum nemendum og foreldrum kærlega fyrir samstarfið í vetur. Óskum ykkur ánægjulegs sumars og hlökkum til samstarfsins á komandi hausti.


Hilmar Egill Sveinbjörnsson
Skólastjóri Stóru-Vogaskóla

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School