Skólaslit og útskrift
Skólaslit Stóru-Vogaskóla fóru fram við hátíðlega athöfn á sal skólans 4. júní s.l. Skólaslitin voru tvískipt þ.e. 1.-5. bekkur og 6.-10. bekkur. Á skólaslitum hjá yngri spilaði Daníel Gomes í 2. bekk á píanó. Hjá eldri spilaði Gabríela Ósk Sequeira Gomes í 5. bekk á píanó.
Sem áður einkenndist skólaárið af fjölbreyttum verkefnum og áskorunum. Það markverðasta í skólastarfinu í vetur var að nemendum í Stóru-Vogaskóla fjölgaði mikið. Úr rúmlega 160 nemendum í tæplega 210. Mikilli uppbyggingu í samfélaginu fylgir fjölgun nemenda í skólanum. Svo ör fjölgun nemenda er mikil áskorun fyrir skólasamfélagið svo vel megi til takast.
Í byrjun september fór 7. bekkur í skólabúðirnar á Reykjum í Hrútafirði og dvaldi þar tæpa viku. Stóru oo litlu upplestrarkeppninni var ýtt úr vör á degi íslenskra tungu, 16. nóv. eins og venja hefur verið í mörg ár. Árshátíð nemenda og árshátíðarballið var á sínum stað og tókst mjög vel. Vorhátíð var haldin á uppstigningardag í maí. Á vorhátíð er sýning á hluta af verkum nemenda sem unnin hafa verið yfir veturinn. Á vorhátíðardegi sér 6. bekkur og foreldrar um vinsæla kaffisamsætið í Tjarnarsal sem er liður í fjáröflun bekkjarins fyrir Reykjaferð sem farin er haustið eftir. Í lok maí tók Stóru-Vogaskóli þátt í Skólahreysti eftir miklar æfingar og undirbúning í allan vetur. Íþróttakappleikir 10. bekkinga við kennara var háður í maí og lauk með sigri kennara. Skólahlaupið var á vordögum og var hlaupið í tveimur flokkum, keppnis- og skemmtiskokk. 10. bekkur fór í sína árlegu vorferð á Bakkaflöt í Skagafirði.
Stóru-Vogaskóli er viðurkenndur Erasmus-skóli og einn sá fremsti og virkasti á því sviði á Íslandi. Erasmus er hluti af menntaáætlun Evrópusambandsins og er ætlað að stuðla að auknu samstarfi meðal skóla í Evrópu. Sem stendur er skólinn þátttakandi í 6 ára verkefni með skólum í Frakklandi og Ítalíu. Hluti af verkefninu er að taka á móti nemendum frá þessum löndum og senda bekk á unglingastigi frá Stóru-Vogaskóla á vorin til annað hvort Frakklands eða Ítalíu. Í mars fór helmingur 10.b. til Frakklands og í apríl fór hinn helmingurinn svo til Ítalíu. Í maí fengum við svo nemendur frá Frakklandi í skólann. Áframhald verður á Erasmus-verkefninu með skólunum í Frakklandi og á Ítalíu.
Samstarf við Heilsuleikskólann Suðurvelli hefur verið heilmikið í gegnum árin og verkefnin fjölbreytt. Í ár unnu elstu börn leikskólans verkefni í samvinnu með nemendum 6. og 7. bekkjar. Smíðaðir voru bátar og þeir málaðir, smíðað á þá rekkverk og segl saumuð. Vinnunni lauk listasýningu nemenda Stóru-Vogaskóla og Heilsuleikskólans Suðurvalla í anddyri bæjarskrifstofunnar. Einnig voru til sýnis fjölnota pokar sem nemendur 6. og 7. bekkjar saumuðu fyrir leikskólann og eru notaðir í staðinn fyrir plastpoka undir blaut og/eða skítug föt leikskólabarna. Eftir áramót unnu sömu bekkir með húsin í bænum. Þau gerðu líkan af húsunum, sem leikskólabörnin máluðu. Nöfn húsanna voru sett á spýtu. Til stendur að sýna afraksturinn í Álfagerði.
Skemmtilegt verkefni var unnið í vetur sem rithöfundurinn Þórunn Rakel Gylfadóttir hafði veg og vanda með ásamt starfsfólki á bókasafninu, kennurum, nemendum o.fl. Verkefnið hét Íslenska í orði og á borði. Samdar voru sögur á íslensku á grunni skapandi vinnu með börnum sem tala litla sem enga íslensku, fleiri bættust við. Verkefnið var unnið í verkmenntakennslu og íslensku.
Skemmtilegir hlutir gerðust á bókasafninu í vetur þar sem aukið var við þjónustu á safninu. Í mars var byrjað að bjóða uppá opnun á laugardagsmorgnum þar sem spilafélagar hittast yfir borðspili. Áskrift var tekin á Heimildinni og Morgunblaðinu, svo nú er hægt að fletta blöðunum.
Auk þessarrar upptalningur stærstu viðburða er fjöldi annarra viðburða hjá öllum bekkjum. Það er svo sannarlega mikið líf og gaman í skólanum sem sjá má m.a. undir flipanum Fréttir á heimasíðu skólans.
Við útskrift 10. bekkjar ávarpaði Ingibjörg Ragnarsdóttir nemendur og fór yfir farinn veg.
Við þökkum nemendum og foreldrum kærlega fyrir samstarfið í vetur. Óskum ykkur ánægjulegs sumars og hlökkum til samstarfsins á komandi hausti.
Hilmar Egill Sveinbjörnsson
Skólastjóri Stóru-Vogaskóla