9. september 2017

Söngsamvera og óvæntur tónlistarviðburður

Söngsamvera í Tjarnarsal +Óvæntur tónlistarviðburður 
Í Stóru-Vogaskóla höfum við haldið þeim vana í mörg ár að hafa svokallaðar samverur í Tjarnarsal á föstudögum. Þá hafa bekkirnir skipst á að sýna leikrit, dans eða eitthvað annað sem þau halda að aðrir nemendur, foreldrar og starfsmenn hafi gaman að. Þetta er kjörið tækifæri til að æfa framsögn og framkomu eða eins og segir í Aðalnámskrá grunnskóla um menntagildi listgreina:  
Með listum getur maðurinn tjáð og dýpkað tilfinningar sínar og öðlast skilning og reynslu sem ekki verður færð í orð.  
Listsköpun opnar einstaklingum fjölbreyttar leiðir til að vinna með hugmyndir, varpa fram spurningum, endurspegla og túlka eigin reynslu og annarra. Þannig þroska nemendur hæfileika sinn og getu til að vega og meta gjörðir sínar og umhverfi með gagnrýnum hætti. Við listsköpun opnast oft ný og óvænt sjónarhorn á hugmyndir og hluti, það losnar um hömlur og kímnigáfa nemenda fær gjarnan notið sín í óvenjulegum og ögrandi verkefnum. Við slíkar aðstæður koma leyndir hæfileikar gjarnan fram og nemendur tengjast innbyrðis á annan hátt en í öðrum greinum. 
Listir í sinni fjölbreyttustu mynd í fortíð og nútíð fást við hugtök, hugmyndir og hluti sem tengjast manneskjunni og nánasta umhverfi hennar. Þær hreyfa við okkur á margvíslegan hátt, næra ímyndunarafl og efla fegurðarskyn.  
Listupplifun opnar farveg til að skoða og meta eigin gildi og viðhorf, á beinan eða óbeinan hátt, út frá margvíslegum leiðum og miðlum. Í listum geta nemendur rýnt í gildi samfélagsins á ólíkum tímum og mismunandi menningarsvæðum og einnig persónuleg gildi, s.s. gagnvart einstaklingum, fjölskyldu, samfélaginu, vinnu og leik, náttúru og umhverfi, fegurð, ljótleika, ofbeldi og ást. 
Menntun í listum á að stuðla að því að nemendur öðlist hæfni til að: 
takast á við ófyrirséða framtíð á skapandi hátt,  
sjá ný mynstur og hugsa í lausnum, 
þroska persónulega tjáningu og smekk.“ 
Á milli þess sem bekkirnir láta ljós sitt skína þá höfum við söngsamverur þar sem allir nemendur syngja texta sem varpað er á tjald og Þorvaldur Örn Árnason, sem kenndi náttúrufræði við skólann í mörg ár, spilar undir á gítar. Nemendur okkar kunna því orðið ógrynni af fallegum og kjarnyrtum textum og syngja hátt og vel með. 
Í dag fengum við í lok söngsamveru óvænt tónlistaratriði. Við erum svo heppin að hafa fengið Alexandru Chernyshova í okkar lið en hún er nýr tónmenntakennari við skólann. Hún mun líka æfa skólakór og „bílskúrsband“. Alexandra, sem er frá Úkraínu,(sópransöngkona, tónskáld og kennari)er hámenntuð í óperusöng og er með söngkennarapróf auk réttinda til að kenna í grunn- og framhaldsskóla. Hún var valin í hóp 10 framúrskarandi ungra Íslendinga árið 2014 fyrir framlag sitt til menningar á Íslandi. Nú á sunnudaginn er hún að fara að syngja í Hörpunni ásamt Vladimir, sem er bassi og Elinu, sem spilar undir á pía en þau koma bæði frá Rússlandi. Listamennirnir lögðu lykkju á leið sína til Bláa lónsins til að syngja nokkur lög fyrir nemendur og starfsmenn skólans. Upplifunin var mögnuð, það var vel sýnilegt á látbragði barnanna og fullorðna fólksins. Einhver hafði svo á orði að þetta væri magnaðasti tónlistarflutningur sem heyrst hefði í Tjarnarsal. Einn 6 ára vatt sér að tónlistarmönnunum og sagði með bros á vör og vandaði sig mjög: „þetta var mjög fallegt hjá ykkur“.   
Hér eru fleiri myndir frá samverunni
   
  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School