Spinnum saman - höfum gaman - verkefni lýkur
Samvinna Stóru-Vogaskóla og Myllubakkaskóla í Keflavík.
Textíl- og smíðakennarar úr Myllubakkaskóla í Keflavík og Stóru-Vogaskóla í Vogum settu á stofn sameiginlegt verkefni sem hefur hlaut heitið Spinnum saman - höfum gaman. Verkefnið er styrkt af Menningaráði Suðurnesja með kr. 300 þús. Verkefnið var hugsað sem samstarf milli Stóru-Vogaskóla og Myllubakkaskóla og unnu textílkennarar og smíðakennarar skólanna verkefnið með nemendum skólanna.
Verkefnið hófst á því að nemendurnir tóku fjölda ljósmynda af umhverfi sínu og skoðuðu það út frá formum, litum og efniseigindum. Fóru þeir einnig á listasýningar í Reykjavík og Keflavík. Hugmyndavinna var unnin í báðum skólum og út frá henni var unnið að 7 skúlptúrum og voru þeir unnir úr ullarkembu, garni, pallíettum, efnisafgöngum, efni og öðrum mismunandi efnisvið, s.s. gleri, speglum, hænsnaneti, steinum, málningu, lakki, plasti, járni og pappír. Markmiðin með þessu verkefni var að opna augu nemenda fyrir því að ekki sé aðeins hægt að vinna nytjahluti úr textílefnum heldur einnig listaverk og auk þess voru mynduð tengsl milli skóla í sitt hvoru sveitafélaginu.
Um það bil 10 -15 nemendur úr hvorum skóla tóku þátt í verkefninu og voru þeir valdir af kennurum úr hópi nemenda 3. - 10. bekkja.
Verkin verða til sýnis frá og með miðvikudeginum 26. maí og fram eftir sumri. Verkin verða staðsett á skólalóð Stóru-Vogaskóla, í Aragerði í Vogum og á skólalóð Myllubakkaskóla í Keflavík.
Þennan dag kl. 10:00 kemur Myllubakkahópurinn í Vogana til að skoða listaverkin þar og kl. 10:30 fara báðir hóparnir í Keflavík til að skoða listaverkin þar. Þegar því er lokið verður sameiginleg pizzuhátíð og að því loknu halda Vogabúarnir heim á leið.
Sjá myndir á myndasafni skólans.