Stóra upplestrarkeppnin
Sigurður Bjartur Hallsson, Grindavík, hlutskarpastur í Stóru upplestrarkeppninni í Vogum.
Sigurður Bjartur Hallsson, Grunnskóla Grindavíkur, hlaut fyrsta sæti á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar sem haldin var í Vogum í liðinni viku. Í öðru sæti var Ingimundur Aron Guðnason, Gerðaskóla og Aðalheiður Lind Björnsdóttir, Gerðaskóla, var í þriðja sæti. Þá fékk Emilý Klemensdóttir, Grunnskóla Grindavíkur, viðurkenningu fyrir sérlega góðan ljóðalestur.
Tólf nemendur grunnskólanna í Garði, Grindavík og Vogum tóku þátt í hátíðinni og stóðu allir sig með mikilli prýði. Fjölmenni var á hátíðinni og fengu áheyrendur að njóta tónlistarflutnings nemenda úr tónlistarskólum sveitarfélaganna auk þess söng Melkorka Rós, Vogum, sigurlag sitt úr söngkeppninni Samfestingnum.