1. mars 2013

Tvenn verðlaun á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Garði

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar var haldin í Garði fimmtudaginn 28.febrúar. Á hátíðinni komu fram tólf nemendur úr 7. bekk Gerðaskóla, Grunnskóla Grindavíkur og Stóru-Vogaskóla. Markmið keppninnar er að vekja athygli og áhuga barna og unglinga á vönduðum upplestri og framburði.
 
Skáld hátíðarinnar í ár voru Friðrik Erlingsson en þátttakendur lásu kafla úr bók hans Benjamín dúfu og Þóra Jónsdóttir en þau lásu ljóð eftir hana.
Allir þátttakendur eiga heiður skilinn fyrir góðan og vandaðan flutning. Í dómnefnd hátíðarinnar sátu fulltrúar Radda, samtaka um vandaðan upplestur og framsögn, auk fulltrúa frá sveitarfélögunum sem stóðu að keppninni.
 
Fulltrúar Stóru-Vogaskóla voru Líney Helgadóttir, Gunnlaugur Atli Kristinsson, Helena Gísladóttir og Sindri Friðriksson. Þau stóðu sig öll með mikilli prýði en formlegur undirbúningur fyrir keppnina hófst 16.nóvember s.l. á degi íslenskrar tungu. Síðan þá hafa nemendur í 7.bekk æft upplestur í skólanum, heima og í Álfagerði. Þangað hafa þau farið um það bil einu sinni í viku í vetur og lesið fyrir eldri borgara, þeim til ánægju og nemendum til gagns því þau fengu oft ágætis ábendingar þar. Okkar hópur kom heim með tvenn verðlaun, Líney Helgadóttir lenti í öðru sæti og Gunnlaugur Atli Kristinsson fékk sérstök verðlaun fyrir vandaðan og góðan ljóðalestur.
Hver skóli kemur með sitt tónlistaratriði og að þessu sinni spilaði Fanney Björg Magnúsdóttir á píanó verkið Fyrir Elísu.
Næsta miðvikudag munu þau fara í Álfagerði og lesa og spila fyrir gesti þar.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School