9. janúar 2012

Verndarar barna

 
 
 
Starfsdaginn 3. janúar kom Sigríður Björnsdóttir frá samtökunum Blátt áfram til okkar með námskeið sem kallast Verndarar barna. Þar með hafa allir starfsmenn skólans hlotið forvarnarþjálfun gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum.
Á heimasíðu samtakanna stendur m.a. þetta um námskeiðið:
,,Námskeiðið Verndarar barna boðar byltingu í fræðslu, forvörnum og viðbrögðum við kynferðislegri misnotkun á börnum. Markmiðið er að veita fullorðnu fólki öfluga fræðslu og markvissa þjálfun í að fyrirbyggja, þekkja og bregðast við kynferðislegri misnotkun á börnum af hugrekki og ábyrgð. Námsefnið Verndarar barna er sérhannað fyrir stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök sem þjóna börnum og unglingum – sem og einstaklinga sem bera ábyrgð á umönnun og verndun barna; sínum eigin eða annarra. Efnið byggist á 7 skrefa bæklingnum til verndar börnunum okkar.“
Við teljum okkur margs vísari eftir fræðsluna og erum núna að útbúa verklagsáætlun sem hjálpar okkur betur að koma auga á þá nemendur sem hugsanlega hafa orðið fyrir kynferðislegri misnotkun. Eins og við var að búast var okkur brugðið við ýmislegt sem þarna kom fram. Eitt af því var að samkvæmt rannsóknum á þessu sviði má ætla að ein af hverjum fjórum stelpum og einn af hverjum sex drengjum hafi orðið fyrir misnotkun fyrir 18 ára aldur.   Því  er ekki hægt að setja þessa umræðu í neinn sparibúning.
Til upplýsingar þá hafa það verið vinnureglur hjá okkur, samkvæmt lögum, síðastliðin þrjú ár að við skólann er aldrei ráðinn starfsmaður án þess að við höfum fyrst fengið staðfestingu frá Sakaskrá ríkisins um að viðkomandi hafi ekki hlotið refsidóm fyrir eftirfarandi brot: Kynferðisbrot, önnur ofbeldisbrot eða brot gegn lögum um ávana og fíkniefni. Við leitum einnig eftir meðmælum hjá fyrrverandi vinnuveitendum.
Eins og áður sagði erum við að útbúa verklagsreglur sem gera okkur hæfari til að fylgjast með börnunum því öll erum við sammála því að þessum glæpum þarf að útrýma.
Hér er slóð fyrir bæklinginn 7 skref til verndar börnunum okkar: http://www.blattafram.is/7skref/
 
  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School