Yngstu börnin græða upp Stapann
Á vordögum í Stóru-Vogaskóla var 600 kg af tilbúnum áburði dreift á hálfgróið land upp af Reiðskarði á Vogastapa. Þar er strjáll gróður með grjóti og sand- og moldarflögum en töluvert af grasi sem er svo smávaxið að það sést varla en mun vaxa og þéttast þegar það fær áburð. Lúpínan er óðum að græða upp og leggja undir sig suðurhlið Vogastapa en ætlunin er a halda lúpínunni frá norðurhlutanum, þeim hluta sem sést frá Vogum. Börnin voru einmitt að græða upp hluta af því svæði sem á að vera lúpínulaust í framtíðinni. Landgræðsla ríkisins lagði til áburðinn. Börnin löbbuðu og hjóluðu á staðinn og voru innan við klukkustund að dreifa öllum áburðinum undir leiðsögn starfsfólks skólans. Allir voru ánægðir og glaðir er haldið var heim í mat í skólanum að loknu vel unnu verki.