2. þáttur: Torchillii-sjóður og skóli fyrir alla

Skólinn okkar, sem í upphafi hét Thorkillii barnaskólinn í Vatnsleysustrandarhreppi, var stofnaður í nýbyggðu skólahúsi af samnefndu félagi haustið 1872 af frumkvæði séra Stefáns Thorarensen prests og sálmafrumkvöðuls á Kálfatjörn.

Skólinn var í upphafi ekki stofnaður fyrir börn efnaðra foreldra, eins og halda mætti, heldur einkum fyrir fátæku börnin, fyrir tilstilli Thorchillii-sjóðs.

Thorchillii hét Jón Þorkelsson (1697-1759), barn efnaðra foreldra í Innri-Njarðvík, sem þá tilheyrði Vatnsleysustrandarhreppi. Hann varð mikill lærdómsmaður, m.a. rektor Skálholtsskóla í áratug og ferðaðist síðan 4 ár um landið með Harboe til að rannsaka menntunarástand Íslendinga. Hann var barnlaus og vel efnaður og gaf eftir sinn dag eigur sínar í sjóð til að "allra aumustu og fátækustu börn í Kjalarnesþingi skyldu fá kristilegt uppeldi, þ.m.t. húsnæði, fæði og klæði".

Það vafist mjög fyrir mönnum að uppfylla óskir Thorchillii, þar til rúmri öld eftir dauða hans að loks var stofnaður varanlegur skóli í fæðingarsveit hans. Að vísu var Hausastaðaskóli stofnaður á Garðaholti 1792, stafaði í 19 ár fyrir fátæk og heimilislaus börn og naut styrkja úr Torchilliisjóði. Síðan segir fátt af starfi í þágu fátækustu barnanna þar til 1870 að Stefán Thorarenssen hófst handa í Vatnsleysustrandarhreppi. Stofnað var félag, efnt til samskota, keyptur jarðarpartur og reist skólahús sem var vígt 12. sept. 1872. Með leyfi konungs og Alþingis fékkst 1200 ríkisdala vaxtalaust lán til skólans úr Thorchillii-sjóði sem ekki þarf að greiða meðan skólinn sinnir börnum sem minna mega sín. Lánið er ógreitt enn, 150 árum síðar, og í skilum, því skólinn hefur allta tíð sinnt fátækum börnum sem minna mega sín.

Í ítarlegri reglugerð, sem byggð var á reglugerð barnaskólans í Reykjavík og samþykkt á stofnfundi þessa skóla, segir m.a.:

“Það er enn fremur vilji stofnendanna, að stofnunin sé löguð, svo sem verða má, samkvæmt því augnamiði, sem Thorcillius heitinn hafði með gjöf sinni. Ætlunarverk stofnunarinnar er því fyrst og fremst það, að taka til fósturs, eða umsjónar og menningar, að minnsta kosti svo mörg börn í hreppnum, sem Thorchillis-sjóðurinn leggur fje með til uppeldis og kennslu og, á meðan þessi uppeldisstyrkur er veittur tilteknum börnum, þá einmitt og sjer í lagi þau börn; en þá því næst önnur umkomulítil og vanhirt börn í hreppnum, eptir því sem efni og ástæður stofnunarinnar leyfa. Ætlunarverk stofnunarinnar er yfir höfuð að gjöra úr börnunum, hvort sem þau eru heimilisföst í stofnuninni allt árið, nokkurn tíma árs, eða aðeins njóta þar kennslu, ráðvanda, siðferðisgóða menn, og að veita þeim þá þekkingu og kunnáttu, að þau megi verða nýtir borgarar í fjelaginu.” Hér er hlekkur á ítarlega frásögn Önnu Sveinsdóttur, kennara, af Thorchilliisjóðnum.

Sjóðurinn greiddi síðan um áratuga skeið skólagjöld fátækustu barnanna. Efnaðri foreldrar greiddu skólagjöld barna sinna, 10 ríkisdali á ári. Mörg “Thorchillii-barnanna” bjuggu á skólatíma í risi skólahússins og ráðið var fólk til að annast þau ásamt því að þrífa húsið og kynda. Þannig var skólinn bæði heimavistarskóli og heimangönguskóli og einnig var börnum komið fyrir á nálægum bæjum, m.a. börnunum úr Njarðvík, en fyrstu árin var skólinn líka fyrir Njarðvíkinga uns þeir komu sér upp eigin skóla áratug síðar. Einnig var frá upphafi vísir að unglingaskóla (fyrir fermd börn) og handavinnukennsla fyrir stálpaðar stúlkur.

Myndin er af fyrstu grein fyrrnefndrar reglugerðar, með skrift Stefáns. -->

Reglugerð 13.sept 1872

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School