Þættir úr sögu skólans

Í tilefni af 150 ára afmæli skólahalds (1872-2022) í hreppnum/sveitarfélaginu hefur Þorvaldur Örn Árnason tekið saman efni og skrifað um sögu skólans.

Þorvaldur er líffræðingur að mennt, hann kenndi náttúrufræði við skólann 2000-2016, sjá þætti 39 og 40. Virkur í félags- og bæjarmálum. Hafði áður verið námstjóri í náttúrufræði í áratug og kennt við framhaldsskóla í áratug. Sjá þætti 37, 39, 43 og 46.

Þorvaldur er sveitastrákur, alinn upp á bænum Álfhólum í Landeyjum þar sem hann á sér djúpar rætur.  Hann er þekktur fyrir að vera ötull baráttumaður um verndun náttúrunnar og hefur í hennar þágu unnið mikið og óeigingjarnt starf. Hann var upphafsmaður að stofnun umhverfisnefndar við skólann, sem skipuð hefur verið bæði starfsfólki og nemendum.

Eftir háskólanám í líffræði og nám til kennsluréttinda vann hann sem stundakennari við Háskóla Íslands, skrifaði nokkrar námsbækur, var námstjóri í Menntamálaráðuneyti, kenndi í framhaldsskólum, síðast í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Þorvaldur endaði kennsluferil sinn sem náttúrufræðikennari við Stóru-Vogaskóla í Vogum þar sem hann býr.

Söngurinn léttir lund, Þorvaldur er mikill söngunnandi og einn af upphafsmönnum söngfélagsins Uppsiglingar, hópur fólks sem hefur gaman af söng og hittist reglulega. Uppsigling hefur verið starfrækt í rúm tuttugu ár á Suðurnesjum. Áður spilaði hann í skólahljómsveitum, ein þeirra er danshljómsveitin Eldar sem var vinsæl á sjöunda áratugnum.

Þættina um sögu skólahalds í heild má nálgast hér einnig staka þætti hér til hliðar.

-------

Barnaskóli var stofnaður í Vatnsleysustrandarhreppi 12. september 1872, í sérbyggðu húsi, og hefur hann starfað samfellt síðan, nú undir nafninu Stóru-Vogaskóli.

Ástæða er til að minnast þess afreks forfeðra okkar og mæðra – að koma hér á fót skóla fyrir öll börn, stúlkur sem drengi, snauða sem ríka – löngu áður en skólaskylda komst á og opinberir aðilar fóru að sinna skólamenntun barna af alvöru. Þá hafði barnaskóli starfað á Eyrarbakka í 20 ár og í Reykjavík í 10 ár.

Séra Stefán Thorarensen, prestur og sálmaskáld á Kálfatjörn, átti frumkvæði að því að stofna hér skóla. Hann stofnaði til þess félag sem aflaði fjár og lét byggja skólahús. Þannig starfaði skólinn frá upphafi í eigin húsnæði. Stefán samdi reglugerð fyrir skólann í 30 greinum, eins konar skólanámskrá. Vísir var að unglingadeild og heimavist var frá upphafi, en það starf virðist hafa fjarað út.

Í upphafi hét skólinn Thorchillii Barnaskólinn í Vatnsleysustrandarhreppi”. Það nafn festist ekki við hann, heldur var hann kallaður Suðurkotsskóli, enda byggður á jörðinni Suðurkoti í Brunnastaðahverfi. Seinna (1948) breyttist nafnið í Brunnastaðaskóli. Grunnur elsta skólahússins þar er enn heillegur. Þegar skólinn var síðan fluttur í Voga árið 1979 fékk hann núverandi nafn, Stóru-Vogaskóli, enda byggður í túni höfuðbýlisins Stóru-Voga. Öll þessi 150 ár er þetta í raun sama stofnunin, þó hús væru byggð og rifin og nöfnum breytt. Byggð voru minni skólahús og starfækt um tíma - eins konar útibú frá skólanum - í fjarlægum hverfum, þegar þar var barnmargt. Þannig starfaði skóli í Kálfatjarnarhverfi 1893-1910, fyrst á Þórustöðum og í Landakoti og frá 1903 í sérbyggðu húsi í Norðurkoti; og í Vatnsleysuhverfi 1910-1914 og 1925-1943. Frá haustinu 1943 hefur verið skólabíll og eftir það öll kennslan á einum stað. Minjafélag Vatnsleysustrandar hefur endurbyggt Norðurkotsskóla við Kálfatjörn og er þar nú skólaminjasafn.

Fyrstu 100 árin var fjöldi skólabarna á bilinu 20-50, fór upp í 100 um 1990 og í 200 árið 2010.

Haldið var upp á 140 ára afmælið fyrir réttum áratug. Á youtube er stutt myndskeið frá þeim hátíðarhöldum og undirbúningi þeirra – og annað frá klukkustundar hringborðsumræðum um sögu skólans.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School