9. þáttur: Barnaskóli í Keflavík frá 1887 eða fyrr

Í Víkurfréttum 23. 2. 2022 segir frá 70 ára afmæli húss Myllubakkaskóla. Þar segir m.a. „Saga Myllubakkaskólans eða Barnaskóla Keflavíkur nær til ársins 1897.“ Það er ekki rétt, sú saga nær lengra aftur. Njaðrvíkur voru hluti af Vatnsleysustrandarhreppi þar til 1889 og áttu aðild að stofnun barnaskóla þar 1872. Vegna fjarlægðar reyndist Njarðvíkingum örðugt að sækja þann skóla, þurftu að vista börnin á skólaloftinu eða á nálægum bæjum. Að sögn Stefáns Thorarenson í grein í Ísafold 1879 stofnuðu þeir sinn eigin skóla 1876, „gjörðu þeir það ár með samtökum við Kefiavíkurmenn lofsverða tilraun til þess, að hafa skóla sjer. ... Skólinn var í Njarðvíkursókn haldinn alls 3 mánuði, með 15 börnum ... og var það ekki fátt í sókn með ekki fullum 250 manns. Í Keflavlk var annar skóli fyrir börnin þar, haldinn alls í 4 mánuði. Í þessum 2 skólum kenndi sami kennarinn til skiptis“. Kennarinn var Pétur Pétursson og segir frá honum í 18, þætti. Skólinn mun hafa verið í Hákoti í Innri-Njarðvík. Árið 1897 voru 15 börn í skóla í Njarðvík, að sögn séra Árna Þorsteinssonar í Fjallkonunni.

Ögmundur Sigurðsson kenndi við Gerðaskóla 1887-1896. Hann var vel menntaður kennari og frumkvöðull í menntamálum, stofnaði ásamt öðrum Timarit um uppeldi og menntamál árið 1888. Í 3. árgangi, 1890, skrifar Ögmundur um skóla á Suðurnesjum og segir um Keflavík og skólamál þar, á bls.87: „Næst fyrir utan Njarðvíkur kemur Keflavík; Þar er kaupstaður og allmikil byggð; Þar hefur suma vetur verið skóli, en stundum hefur hann lagzt niður, þrátt fyrir þótt þar sje all mannmargt og mjög hægt að sækja skóla.“

Á bls. 95 segir: „Síðastliðinn vetur var haldinn barnaskóli í Keflavík í 6 mánuði. Á honum voru 23 börn; þau voru á ýmsu reki, svo að það varð að skipta þeim í 2 deildir, Kennslugreinir hinar vanalegu; þaraðauki höfðu þau þroskuðustu rjettritun, landafræði og fáein dönsku. Kennari við skólann var ungfrú Guðlaug Arasen, sem í nokkur ár hefur notið menntunar í Danmörku. Skólinn á enn ekkert búsnæði, en handa honum var leigt «Good-Templarshúsið» í Keflavík; það er í alla staði ágætt húsnæði, víst hið bezta, sem notað hefur verið til kennslu á Suðurnesjum. Borð og bekkir var ekki hentugt. Áhöld átti skólinn engin, en kennarinn átti eitthvað af landabrjefum og hnött, sem mátti styðjast við við kennsluna. Framfarir barnanna á þessum skóla voru eptir vonum í flestum greinum eptir jafnstuttan tíma.“ Umrætt hús Góðtemplarastúkunnar Vonar var byggt 1889 þar sem nú er Hafnargata 32.

Í sama tímariti er skýrsla um barnaskóla á Íslandi 1887-88 og þar kemur fram að þann vetur hafi verið skóli í Keflavík með 14 börnum og starfað í 6 mánuði. Ekki er víst hvar þessi skóli var til húsa, en í Sögu Keflavíkur er talið líklegt að það hafi verið í húsi Skotfélagsins, sem byggt var 1872, sjá mynd, eða í greiðasölu- og íbúðarhúsi sem nefnt var Hótelið.

Samkvæmt Sögu Keflavíkur hefur barnaskóli starfað samfleytt í Keflavík frá árinu 1889, og líklega lengur. Árið 1897 flytur skólinn í lítið og snoturt hús við Íshússtíg 3 (sjá mynd), þar sem voru 2 stofur, en afar þröngt fyrir tugi barna. Þarna var barnaskólinn í Keflavík (og Njarðvík) til húsa allt þar til hann flytur í steinsteypta nýbyggingu við Skólaveg árið 1911 og er þar allt þar til elsti hluti húss Myllubakkaskóla er tilbúinn í febrúar 1952.

Í Sögu Keflavíkur I segir bls. 269-274:
Sigurður B. Sívertsen ber saman Suðurnesin árin 1830 og 1880. Húsin eru orðin mun betri, meira um timburhús. Fjárstofn hefur þrefaldast og það aflast meira. Minni sóðaskapur. Drykkja hefur minnkað með tilkomu bindindisfélaga. Þéttbýli myndaðist í Keflavík á árunum 1820-1850. Síðan er kyrrstaða til 1880, fór þá að vaxa aftur. Rosmhvalaneshreppi hinum forna var skipt 1886 í annars vegar Keflavíkurhrepp sem síðar sameinaðist Njarðvík; og í Gerðahrepp. Kreppa var í atvinnulífi um aldamót en vöxtur í félagslífi, einkum í stúkunni Voninni, minni drykkja.

Saga Keflavíkur II fjallar um árin 1890-1920. Þar er góður kafli um skóla bls.250-260, með myndum og segir m.a.: IOGT-hús Vonarinnar, var tekið í notkun 1887, þar sem nú er Hafnargata 32 (nú á móti bíóinu). Keypt var hús undir skólann við Íshússtíg 3, tekið í notkun haustið 1897. Skólaárið 1904-1905 voru börnin orðin 30 og ráðinn aukakennari. Árið 1908 komst á skólaskylda 10-14 ára barna og kostnaður greiddur af sveitarfélagi með ríkisstyrk. Þá voru börnin 50 – 60, þeim hafði fjölgað við sameiningu við Njarðvík. Sum árin var einnig kennt í Njarðvík, ýmist Ytri- eða Innri-Njarðvík.

Frá 1910 var yngri börnum kennt þó það væri ekki skylda, en því var hætt 1914 og féð notað til að kosta eftirlit með heimilisfræðslu (heimakennslu) yngri barna. Eftir nokkra ára bollaleggingar var ráðist í að steinsteypa nýtt skólahús sem var tekið í notkun 1911. Var það fyrsta steinsteypta húsið í Keflavík og veglegasta húsið í þorpinu! Útikamrar voru við húsið og á einum stað vatn í fötu til að drekka (voru nemendur látnir sækja vatn í tjörn á Vatnsnesi þar sem nú er bensínstöð, á milli hótelanna). Tímabilið 1914-1920 voru u.þ.b. 50 börn. Einnig var haldinn unglingaskóli um tíma sem var ekki skylda og þurfti að greiða skólagjöld fyrir það.

Saga Keflavíkur III, um árin 1920-1949. Kafli um skóla er bls. 403-412. Börnum fjölgaði og varð þröngt í húsinu sem tekið var í notkun 1911, þar til Njarðvíkurskóli tók til starfa 1942-43. Árið 1936 komst á skólaskylda niður í 7 ára, en byrjað var að kenna svo ungum börnum í Keflavík 1928. Enginn unglingaskóli var frá 1917-1932, en þá hófst kennsla unglinga sem Eiríkur nokkur átti veg og vanda að um árabil. Segir nánar frá því í bókinni. Það virðist harfa tekið 4 ár að byggja elsta hús Myllubakkaskóla, það var tekið í notkun 1952.

Heimildir: Saga Keflavíkur I-III. Ögmundur Sigurðsson 1890 Um skóla á Suðurnesjum. Grein Stefáns Thorarensen í Ísafold 1879. Grein Árna Þorsteinssonar í Fjallkonunni 1897. Skólar á Suðurnesjum. Faxi 01.03.1989. Skýrsla um barnaskóla 1887-1888

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Mentor
  • Twinning School