40. þáttur: Samfélagið og skólinn

Um aldir fór uppeldi og menntun barna fram á heimilum með aðstoð og undir eftirliti presta. Þegar kom fram á 19. öld aukast kröfur um kunnáttu og var það hvati að stofnun barnaskóla til að aðstoða heimilin og prestana, þótt skólaskylda væri engin. Framan af voru skólabörn dýrmætur vinnukraftur og á mörgum heimilum erfitt að sjá af þeim í skólann og skólanám einskonar aukastarf barnanna. Síðan hefur þetta gjörbreyst, nú fer nánast allt nám fram í skólanum og foreldrum og atvinnulífi hentar vel að börnin séu þar lengi, einkum þau yngstu.

Fyrstu áratugina var skólaganga barna fjögur ár, 6 mánuði á ári,  kl. 10-14 sex daga vikunnar. Skólatíminn lengdist í mörgum skrefum alla 20 öldina og undir síðustu aldamót voru grunnskólaár hvers barns orðin tíu; mánuðir á ári hverju níu; og daglegur skólatími auk þess mun lengri en áður, en vinnuvikan hafði reyndar styst úr 6 dögum í 5.  Að auki höfðu bæst við 4-5 ár í leikskóla og hjá flestum nokkur ár í iðn- eða háskóla-námi. Þetta er gríðarmikil breyting í lífi barna á 150 árum!

Samkvæmt 13. grein upphaflegu reglugerðar Thorchilliibarnaskólans frá 1872 skyldi „almenn kennsla veitt í trúarlærdómi, biflíusögum, íslenskum bóklestri, skrift, reikningi og söng. Þar að auki má, að því leyti sem kringumstæður leyfa, veita tilsögn í rjettritun, undirstöðu íslenskrar málfræði, föðurlandssögu og landafræði. Það skal leyft, að börnum sem skortir gáfur til að nema, sje ekki kennt annað en trúarlærdómurinn, lestur og skript. Þar að auki skal veitt sjerstök kennsla fermdum unglingum,“ og kenna, auk þess fyrrnefnda, dönsku, ensku (sögu) og náttúrusögu. Eins má, „þegar afgangs eru eftirmiðdagsstundir frá hinni sjerstöku kennslu, taka nokkra unglinga til undirbúnings undir latínuskólanám.“

Frá því að Íslendingar urðu kristnir var það hlutverk kristindómsins að móta siðferði og samfélagsskilning manna. Fram yfir aldamótin 1900 var kristindómur stór hluti náms og kennslu og prestar réðu þar miklu. Með fræðslulöggjöfinni 1907 dró úr kristinfræði og enn frekar er leið á 20. öldina. Þjóðrækni leysti þá trúrækni af hólmi. Þá var, auk landafræði og sögu, farið að kenna þjóðfélagsfræði og í lok aldarinnar var einnig farið að kenna nýja námsgrein, lífsleikni. Allan tímann hefur leiðsögn og fordæmi kennara skipt miklu máli, einnig ungmenna- og íþróttafélaga, svo ekki sé talað um heimilin. Að auki má nefna bókmenntir, fjölmiðla og nú síðast samfélagsmiðla.

Leikskóli var stofnaður í Vogum 1976, til húsa á Sólvöllum, sem nú er Lionsheimilið. Fyrsta árið voru börnin 20, en fóru allt upp í 40 í þessu litla húsi. Aldrei var lokað virkan dag, starfsfólk hélt fundi á kvöldin og keypti sjálft filmur til að geta ljósmyndað starfið og eru þær myndir nú í eigu Minjafélagsins. Anna Ingólfsdóttir var fyrsti forstöðumaðurinn, 2 starfsmenn í byrjun. Árið 1991 var byggt á núverandi stað, í túni Suðurkots. Skólinn hét þá Suðurvellir og var áfram ein deild, þar til byggt var við 2001 og deildirnar urðu þrjár. Frá 2004 ber hann nafnið Heilsuleikskólinn Suðurvellir, eftir að tekin var upp vottuð heilsustefna.

Flutningur barnanna frá leikskólanum í grunnskólann er vel hugsað ársferli, sbr. áætlun. Þar kemur sér vel að börnin fara langflest í sama grunnskólann. Síðasta veturinn í leikskólanum fara þau í nokkrar heimsóknir í Stóru-Vogaskóla. Þeim er sýnt skólahúsið, fá að fylgjast með kennslu í 1. bekk og leika sér við gömlu leikfélagana sína, fylgjast með 1. bekk á samveru á sal skólans og mæta á generalprufu á árshátíð yngri barnanna. Einnig er farin sérstök ferð á bókasafnið. Síðasta leikskólaveturinn fara þau vikulega í íþróttahúsið og kynnast aðstæðum þar í leikfimisal og fataklefa. Fyrsta haustið í grunnskólanum fara þau tvívegis í heimsókn í leikskólann og leika sér með gömlu félögum sínum. Þannig verður ganga Vogabarna gegnum leikskóla og grunnskóla býsna samfelld, svo framarlega sem þau flytja ekki milli byggðarlaga.

Margt er gert til að koma til móts við ólíkar þarfir barnanna í báðum skólunum og áhersla á að greina vandamál snemma og boðið upp á margþætta stoðþjónustu. Fyrsti stuðningsfulltrúi grunnskólans var Kristín Halldórsdóttir, ráðin 1994 vegna nemanda sem þurfti mikla aðstoð. Síðan þá hafa verið stuðningsfulltrúar, enda oft mikil þörf. Þeir eru ekki kennaramenntaðir en fara á námskeið og vinna undir stjórn kennara. Einnig var farið að ráða gangaverði og um 2010 var þessum störfum, ásamt ræstingum, slegið saman og þeir sem því sinna nú kallaðir skólaliðar. Erfiðum fjölskyldumálum er vísað til barnaverndarnefndar og félagsþjónustu sem er mönnuð fagfólki og er sameiginleg með Suðurnesjabæ. Skólahjúkrunarfræðingur á vegum heilbriðgðisþjónustunnar hefur verið í hlutastarfi í skólanum og geta nemendur leitað beint til hans á vissum tímum vikunnar. Einnig kemur skólasálfræðingur, talmeinafræðingur og fleiri sérfræðingar reglulega í skólann. Nú eru í Stóru-Vogaskóla fimm ólík námsver, til dæmis er eitt þeirra fyrir nemendur með annað móðurmál en Íslensku og annað fyrir nemendur með hegðunarvandkvæði.

Í kjölfar laga um grunnskóla 1974 varð skólaskylda níu ár og skóladagur samfelldur, með áherslu á jafnrétti allra til náms. Grunnskólinn skyldi í samvinnu við heimilin búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi sem er í sífelldri þróun; starfshættir mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi; og nemendum tamin víðsýni og skilningur á mannlegum kjörum og umhverfi. Þá var hafin umbylting námsgreina og kennsluhátta og 1989 tókst loks að setja saman heildstæða námskrá um allt þetta. Landafræði, saga og félagsfræði var tengt saman í samfélagsfræði. Í aðalnámskránni 2011 voru skilgreindir 6 grunnþættir og var einn þeirra „lýðræði og mannréttindi“.

Svava Bogadóttir, sem var skólastjóri 2008-2018, fékk nemendaráð skólans til að undirbúa og halda skólaþing nemenda þar sem lögð var áhersla á að nemendur kæmu sterkir að undirbúningi þingsins, stýrðu því og kynntu niðurstöður. Á einu þinginu var skoðað hvers vegna nemendur hefðu litla trú á eigin námsgetu og var yfirskrift þess þings metnaður.

Vorið 2023, verður unnið með höfundinum Þórunni Rakel Gylfadóttur að nemendaverkefnum við bók hennar, Akam, ég og Annika. Hún fjallar um íslenska unglingsstelpu sem flytur til Þýskalands og kynnist bæði Þjóðverjum og öðrum innflytjendum. Bókin er spennandi og tekur á málum sem nú brenna á ungu fólki.

Núverandi skólastjóri Hilmar Egill Sveinbjörnsson hefur samið 4 námsbækur í landafræði: Ísland, Evrópa, Heimsálfurnar og Jörðin. Þeim fylgja verkefni og kennsluleiðbeiningar og er þetta námsefni notað í skólum um allt land.

Með náms- og starfsfræðslu tengist skólinn atvinnulífi og nemendur átta sig á hvað þeir vilja læra og gera að loknum grunnskóla. Jón Ingi Baldvinsson hefur sinnt þeim þætti í rúman áratug. Undir lok 20. aldar voru nemendur efstu bekkja í starfskynningu í fyrirtækjum og námsráðgjafi Fjölbrautaskóla Suðurnesja kynnti skólann. Áður kom fyrir að skólaleiðir nemendur vörðu hluta skólatímans við störf hjá vinnuveitanda sem leiðsagði þeim. Frá árinu 2012 hafa Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og Þekkingarsetrið í Sandgerði haldið árlega mjög öflugar starfsgreinakynningar fyrir nemendur í 8. og 10. bekk. Síðast voru kynntar 110 starfsgreinar með tólum, tækjum, tali, tónum og veitingum!

Á myndinni eru nemendur staddir á Ms. Dröfn í apríl 2011 að kynna sér sjómennsku og sjávarlíf.

Heimilin eru tengiliður skóla og samfélags. Lítið er vitað um þau tengsl framan af. Þann 3. apríl 1962 samþykkti skólanefnd að á næstu skólaárum verði foreldradagar, einn í byrjun skólaárs og annar síðar, með nánara samband foreldra og kennara að markmiði. Hreinn skólastjóri getur um foreldrafund 30. jan. 1975 og við skólasetningu 1981 ber hann fram ósk um formlegt samstarf foreldra og skóla, sem geti orðið kveikja að auknum námsáhuga nemenda.

Haustið 1984 var stofnað foreldra- og kennarafélag við skólann. Var það fyrst og fremst framtak áhugasamra foreldra. Þátttaka var dræm framan af. Starfið lenti fyrst og femst á stjórninni sem stóð sig með prýði undir forystu Herdísar Herjólfsdóttur. Félagið hélt opið hús, fór í gönguferðir með nemendur, hélt fjöltefli, einnig diskótek í Glaðheimum til fjáröflunar fyrir félagið og beitti áhrifum sínum til eflingar skólanum. Það sama ár var opin vika í lok nóvember, þar sem foreldrar heimsóttu bekki sinna barna og haldnir voru tveir foreldrafundir. Árið 1987 skyldi vera foreldrafundur tvisvar á vetri, m.a. eftir miðsvetrarpróf og virðist gjarna hafa verið svo síðan. Bergsveinn auglýsti vikulega viðtalstíma kennara árið 1993. Hann boðaði til almenns foreldrafundar 1996 þar sem foreldraráð var kjörið. Nálægt aldamótunum 2000 stóðu umsjónarkennarar fyrir vel sóttum bekkjarkvöldum. Meðal annars kom fjölmenning þar við sögu er Halla Jóna Guðmundsdóttir kennari fékk foreldra af erlendu bergi til að kynna mat og menningu frá sínu heimalandi.

Árin kringum aldamótin 2000, á tíma Snæbjarnar skólastjóra, útfylltu kennarar mánaðarlega eyðublað um árangur hvers nemanda, sendu heim með honum og áttu nemendur að koma með blaðið til baka undirritað af foreldrum. Þetta kerfi var síðan leyst af hólmi með tölvukerfinu Mentor, þar sem kennarar skáðu mætingu og frammistöðu nemenda og foreldrar gátu séð hjá sínu barni og brugðist við. Býsna skilvirkt kerfi og tími kennara nýttist betur.

SOS agastjórnunarkerfi var innleitt með námskeiðshaldi 2002. Þar er áhersla lögð á að umbuna fyrir æskilega hegðun, en þegar barn sýnir óásættanlega hegðun, s.s. að slá, sparka, ýta, klóra, bíta, hrækja á aðra, brúka munn, eða hrifsa hluti af öðrum, þá er það sett í einveru. Einvera felst í því að setja barnið á lítið spennandi stað í stutta stund – miðað er við ½ - 1 mínútu fyrir hvert aldursár þess. Þetta kerfi var notað í fáein ár, aðallega í yngri bekkjardeildum. Síðar var einnig kynnt SMT-kerfi og ekki síst Olweusaráætlun gegn einelti.

Árið 2008 var um nokkurra mánaða skeið gerð sú tilraun að umbuna nemendum fyrir góða mætingu og góða hegðun. Fengu mið- og eldri bekkir óvæntar gjafir í lok mánaðar, en þeir sem ekki höfðu staðið sig fengu ekki. Stöku sinnum voru stórar gjafir eins og leikhúsferð. Höfundi er minnisstætt þegar allir nemendur, nema þeir sem ekki höfðu staðið sig, fengu lítil páskaegg, enda páskar í nánd. Þeir sem ekki fengu urðu afar sárir! Aðferð þessi virkaði vel á suma en ekki á alla og mæltist misvel fyrir og varð ekki langlíf. Kannski engin tilviljun að þetta var einmitt á vormánuðum árið 2008!

Skólinn hefur oft kynnt foreldrum nýtt námsefni og nýjungar í kennslu og haldið námsefniskynningar. Lengi hefur tíðkast að sýna handverk nemenda við skólaslit og síðasta áratug hefur öll vinna nemenda verið kynnt gestum og gangandi á uppstigningardag og hefur sjötti bekkur þá staðið fyrir kaffisölu til að afla fjár til ferðar í skólabúðir. Höfundur þessa þáttar sótti um styrk og gerði tilraun með að virkja nemendur hvers bekkjar sem hann kenndi (5.-10. bekk) til að kynna náttúrufræðinámið fyrir fjölskyldum sínum, síðdegis eftir vinnu. Mæting í sumum bekkjum var mjög góð og var slík kynning endurtekin á vorönn í þeim bekkjum. Til er ítarleg lýsing á verkefninu.

Skólinn hefur oft fengið gjafir frá félögum og einstaklingum við ýmis tækifæri, hvað oftast frá kvenfélaginu Fjólu, einnig oft frá Lionsklúbbnum Keili.

Lengst af þurfti nesti að duga börnunum í skólanum, og kennurum einnig, nema þegar þeir bjuggu í skólahúsinu á fyrstu áratugunum. Á kennarafundum árið 1985 var oft rætt um nestismál, þóttu brögð á að nemendur væru með óhollt nesti og Foreldra- og kennarafélagið hafði kynnt sér sölu nestispakka í öðrðum skólum. Um haustið var prófað að selja bæði nemendum og kennurum nestispakka frá Mjólkursamsölunni en það virðist ekki hafa staðið legi. Í þröngri aðstöðu kennara á 10. áratugnum var hægt að hita mat, en þeir áttu rétt á fæði samkvæmt kjarasamningi. Árið 2000 var útbúið skólaeldhús í 2 litlum herbergjum og farið að elda og selja hádegismat bæði fyrir nemendur og kennara, í salnum þar sem bókasafnið er nú. Guðný Snæland var matráður fyrstu árin og var með vel yfir 100 kostgangara í afar þröngu húsnæði. Þegar byggt var við og ný álma tekin í notkun haustið 2005 gjörbreyttist sú aðstaða til batnaðar og átti Guðný þar þátt í að hanna eldhúsið að frumkvæði Snæbjarnar skólastjóra. Haustið 2006 tók sveitarstjórn þá ákvörðun að veita skólabörnunum gjaldfrjálsan hádegisverð og hefur það verið síðan og er einstakt í skóla af þessari stærðargráðu.

Á myndinni eru nemendur með köku sem þeir bökuðu í skólaeldhúsinu og báru fram í mat- og samkomusal skólans  á 140 ára afmælishátið haustið 2012.

Heimildir m.a.: Reglugerð skólans frá 1872. Gjörðabók skólanefndar. Ræður Hreins Ásgrímssonar við skólasetningu og skólaslit. Samvinna Bergsveins. Vefur Þekkingarseturs Suðurnesja.  Fundargerðir skólaráðs. Almenningsfræðsla á Íslandi. Heilsuleikskólinn Suðurvellir.  Upplýsingar frá Svövu Bogadóttur, Hilmari E. Sveinbjörnssyni, Ragnheiði E. Jónsdóttur, Særúnu Jónsdóttur og úr dagbókum höfundar.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School