33 þáttur: Skólinn fluttur í Voga 1979
Brunnastaðahverfið var lengst af þungamiðja Vatnsleysustrandarhrepps og því eðlilegt að skólanum var valinn staður þar í upphafi. Þegar vélbátaútgerð hófst 1930 og byggð skyldi höfn reyndist besta hafnarstæðið vera í Vogum. Fiskvinnsla og bátaútgerð efldist þar mjög á 5. áratugnum þegar frystihús Voga hf var byggt ásamt nýrri höfn. Frá þeim tíma verður mun meiri byggð í Vogum en í Brunnastaðahverfi og börnum fjölgar sem aka þarf í skólann.
Í maí 1959 skorar skólanefndin á hreppsnefnd að nú þegar verði athugaðir möguleikar á að byggja nýtt skólahús í Vogum, enda sé skólahúsið svo ófullnægjandi að ekki sé hægt að framkvæma lögboðna kennslu. Börnum sé farið að fjölga og húsið of lítið. Í fundargerðum skólanefndar áratug síðar kemur fram að gera þurfi miklar endurbætur, skólinn haldi hvorki vatni né vindi, dúkar lélegir, salerni mjög léleg og drykkjarvatn mengað.
Við skólasetningu 15. sept. 1975 segir Hreinn Ásgrímsson, skólastjóri, lítið hafa gerst í byggingarmálum, þrátt fyrir ríka þörf, en þó hafi arkitektar lokið við teikningar en strandar á að ráðuneytið samþykki þær. Ríkið hafi ekki fengist til að ganga frá samningi. Kennsla fer fram á 3 stöðum, í skólanum, í leiguhúsnæði út í Vogum (smíðar) og úti í Njarðvík (íþróttir og sund). Íbúum fjölgar, námskrá breytist, það þarf að taka upp kennslu 9. bekkjar (10.) á næstu árum, bæta vinnuaðstöðu nemenda og kennara, svo vantar rúm fyrir skólabókasafn og félagslega aðstöðu.
En svo var farið að byggja. Á myndinni sjást foreldrar aðstoða við bygginguna í sjálfboðavinnu. Í baksýn sjást svo íbúðarhús við Vogagerði í byggingu, til vitnis um að íbúum var að fjölga.
Árið 1979 var svo tekið í notkun nýtt skólahús í Vogum sem hlaut nafnið Stóru-Vogaskóli, en einnig höfðu komið fram tillögur um nafnið Vogaskóli og Vogavíkurskóli. Í 4. tbl. Faxa 1979 rekur Hreinn Ásgrímsson, skólastjóri og formaður byggingarnefndar skólans, byggingasögu þess. Húsið hafi komist á fjárlög 1974, teikningar samþykktar árið eftir, sökklar steyptir 1976, síðan gólfplatan og útveggir 1977 og húsið fokhelt árið 1978.
Vígsluhátíðin 30. sept. hófst með því að sr. Bragi Friðriksson fór með vígslubæn og kór Kálfatjarnarkirkju söng nokkur lög. Magnús Agústsson, hreppstjóri og oddviti, flutti ávarp og sagði m.a.: „Það er von mín og trú, að frá þessari stofnun megi ætíð liggja straumar menningar og manndóms, gera æsku þessa byggðarlags mögulegt að verða góðir þegnar þessa lands, svo hér blómgist gott og fagurt mannlíf.“
Ingibjörg Erlendsdóttir afhenti skólanum að gjöf málverk af Viktoríu Guðmundsdóttur sem hafði verið skólastjóri í 31 ár. Myndina málaði Eiríkur Smith og gáfu 180 nemendur og velunnarar Viktoríu samtals milljón krónur til þess. Tillaga um slíka mynd var rædd á fundi skólanefndar strax 1964. Stefán Hallsson kennari las þrjú kvæði eftir Davíð Stefánsson. Helgi Jónasson fræðslustjóri flutti ávarp, einnig Kjartan Jóhannsson ráðherra, sem flutti kveðjur frá þingmönnum og árnaði skólanum allra heilla. Formaður kvenfélagsins, frú Margrét Jóhannsdóttir, færði skólanum 100 þúsund að gjöf til kaupa á kennslutækjum, Ómar Jónsson færði sömu upphæð frá u.m.f. Þrótti til kaupa á kennsluritum í bókasafnið, Lionsklúbburinn Keilir gaf nýtt ræðupúlt, Patricia Hand gaf málverk og María Finnsdóttir gaf skrifborð til minningar um mann sinn, Árna Klemens Hallgrímsson, sem lengi var formaður skólanefndar. Kópur skólabílstjóri gaf svo fyrstu tölvuna nokkrum árum síðar. Á myndinni situr Jón Ingi við þá tölvu.
Þegar skólinn er kominn í Voga geta flest börnin gengið í skólann, en börnum af Ströndinni er áfram ekið með skólabíl. Svo þurfti að aka öllum börnunum tvisvar í viku til Njarðvíkur í íþróttir og sund, allt þar til íþróttamiðstöðin í Vogum kom í gagnið 1993, en þá minnkaði verulega þörfin fyrir skólaakstur.
Flatarmál hússins var um 620 m2 og gert ráð fyrir að seinna yrði byggt við það önnur álma – sem varð raunin 1998. Voru 5 kennslustofur í húsinu, sú minnsta rúmlega 40 m2 en sú stærsta 70 m2. Bókasafn var í húsinu. Sökum þess að nemendafjöldi jókst verulega frá því að skólinn var teiknaður fékk byggingarnefnd samþykktar breytingar til að auka kennslurými. þannig að húsið var hannað fyrir 70-90 nemendur, en áratug síðar voru nemendur orðnir 140. Húsið varð fljótlega of lítið. Bæði fjölgaði börnum og frá 1985 var farið að kenna 10 árgöngum. Fljótlega var bætt við lausri kennslustofu fyrir smíðar og leigt húsnæði í Hábæ fyrir kennslu, en dugði skammt og var strax orðin þörf á viðbyggingu.
Snæbjörn Reynisson var skólastjóri 1995-2007, á mesta vaxtarskeiði skólahúsnæðisins, þegar húsrými skólans var tvívegis tvöfaldað! Reyndi þar mjög á Snæbjörn að þessar framkvæmdir gengu hratt og vel fyrir sig. Byggt var við húsið og það tvöfaldað að stærð og sú álma, sem nú er miðja hússins, tekin í notkun haustið 1998, myndin er af Snæbirni við vígsluna. Áfram fjölgaði nemendum og þessi stækkun dugði skammt. Upp úr 2000 var bætt við 3 lausum stofum, þar sem nú er boltavöllur, og voru þar miðstigsbekkjastofur þar til haustið 2005 að tekin var í notkun veruleg viðbót, vesturálma skólans, sem hafði aðeins tekið ár að byggja. Þar munar mestu um 8 kennslustofur, þar af sérstofur fyrir náttúrufræði og textílmennt, auk myndarlegs samkomu- og matsalar og eldhúss
sem þjónar bæði skólanum og sveitarfélaginu öllu. Fyrrnefndar þrjár lausar stofur voru fjarlægðar strax haustið 2005, skólalóðin lagfærð um leið og bætt við gervigrasvelli og skólahreystitækjum. Áratug síðar var bætt við lausri stofu fyrir sérkennslu.
Snæbjörn Reynisson segir í tölvupósti til höfundar 20. sept. 2022: „Á þessum tíma var í tvígang ráðist í stækkun Stóru-Vogaskóla og ég fann vel fyrir því þar sem enginn sérstakur starfsmaður hreppsins hafði beint með þá framkvæmd að gera, ef frá er talinn byggingafulltrúi. Ég var því í bæði skiptin í miklum tengslum við verktakana. Það var skemmtileg reynsla. Annars vil ég sérstaklega minnast góðs samstarfs við kennara og starfsfólk, vil þó sérstaklega nefna Jón aðstoðarskólastjóra sem var einstakur samstarfsmaður. Ég vil líka minnast á Jóhönnu Reynisdóttur sveitar-/bæjarstjóra, sem var einstaklega góður yfirmaður, hjálpleg og styðjandi og ætíð tilbúin til að verða við óskum sem að skólanum snéru, væru þær skynsamlega rökstuddar. Ég held að margir átti sig ekki á því hve oft reyndi á slíkt.”
Rakaskemmd og mygla kom upp í elstu álmunni fyrir rúmum áratug síðan. Kennari sem kenndi þar varð ítrekað veik í vinnunni en batnaði í skólafríum. Þegar fleiri fóru að veikjast uppgötvaðist hvað var á seyði. Þakið var lagað og veggir klæddir að utanverðu og kom það að gagni.
Á afmælisárinu 2022 er skólinn vel haldinn með húsnæði miðað við nemendafjölda, sem er rúmlega 160. Þó er fyrirsjáanlegt að innan örfárra ára þarf að bæta við húsnæði því ör uppbygging á sér stað og íbúum fjölgar hratt. Áætlanir eru uppi um næsta og líklega síðasta áfanga skólans og yrði þá hægt að sinna þar ríflega 400 nemendum.
Myndin sýnir fyrsta áfanga húss Stóru-Vogaskóla speglast í Vogatjörn um 1990. Til hægri er lausa smíðastofan sem var þar vel á annan áratug. (Mynd Eyjólfur Guðmundsson).
Heimildir. Gjörðabók skólanefndar. Faxi 4. tbl. 1979. Munnlegar heimildir þáverandi nemenda og kennara (Jón Ingi, Jóhann Sævar, Særún, Helgi Hólm, Halla Jóna, Sesselja o.fl.).
- Starfsmenn
- Matseðill
- Stefnur og áætlanir
- Bókasafnið
- Skólasöngurinn
-
150 ára saga
-
Þættir úr sögu skólans
- 1. þáttur: Þriðji elsti barnaskóli sem enn starfar
- 2. þáttur: Torchillii-sjóður og skóli fyrir alla
- 3. þáttur: Fjölþætt starf á 56 fermetrum
- 4. þáttur: Upphafsmaðurinn Stefán Thorarensen
- 5. þáttur: Séra Stefán og stofnun skólans
- 6. þáttur: Skólamenntun á Íslandi frá upphafi
- 7. þáttur: Meira um Thorkillius, Jón Þorkelsson
- 8. þáttur: Elstu barnaskólar landsins
- 9. þáttur: Barnaskóli í Keflavík frá 1887 eða fyrr
- 10. þáttur: Áður en skólinn kom til
- 11. þáttur: Hvernig var hér suður með sjó árið 1872
- 12. þáttur: Vatnsleysustrandarhreppur sjávarþorp á 19. öld?
- 13. þáttur: Skóli einnig stofnaður í Garðinum árið 1872
- 14. þáttur: Ögmundur Sigurðsson, merkur skólamaður
- 15. þáttur: Skólar á Suðurnesjum 1890
- 16. þáttur: Fyrsti vetur skólans á Vatnsleysuströnd
- 17. þáttur: Fyrstu kennararnir - ungir menn á uppleið
- 18. þáttur: Kennarar um aldamótin 1900
- 19. þáttur: Margir skólar, mörg skólahús í sömu sveit
- 20. þáttur: Skólakerfi í mótun um aldamótin 1900
- 21. þáttur: Námsgögn - frá allsleysi til ofgnóttar
- 22. þáttur: Kennslan á Vatnsleysuströnd um 1900
- 23. þáttur: Vatnsleysuskólinn og Ingibjörg Erlendsdóttir
- 24. þáttur: Úr dagbók kennara í Vatnsleysuskóla
- 25. þáttur: Árni Theodór 1910-1920 - og ófarir skólanefndar
- 26. þáttur: Svo kom kennslukona með kennarapróf
- 27. þáttur: Í skólanum hjá Viktoríu
- 28. þáttur: Landsins fyrsti skólabíll - öll kennsla á einum stað
- 29. þáttur: Nýtt og betra hús Brunnastaðaskóla
- 30. þáttur: Skóli, þinghús og samkomuhús
- 31. þáttur: Ungmennaskóli - miðskóli - gagnfræðaskóli...
- 32. þáttur: Íþróttir og sundkennsla
- 33. þáttur: Skólinn fluttur í Voga
- 34. þáttur: Hvernig var í skólanum 1970-1990?
- 35. þáttur: Félagslíf - Skólaferðalög
- 36. þáttur: Afmælishátíð 1. október 2022
- 37. þáttur: Tónlistarkennsla í 150 ár
- 38. þáttur: Mynd- og handmennt og heimilisfræði
- 39. þáttur: Skólinn, umhverfið, náttúran
- 40. þáttur: Samfélagið og skólinn
- 41. þáttur: Erlend mál og tengsl við útlönd
- 42. þáttur: Lesa, skrifa og reikna í 150 ár
- 43. þáttur: Menntun og skemmtun kennara
- 44. þáttur: Þrautseigir kennarar
- 45. þáttur: Fólk í skólasögu Voga
- 46. þáttur: Jólahald í 150 ár og sögulok
- 47. þáttur: Fleira fólk í 150 ára skólasögu Voga - í stafrófsröð
- 48. þáttur: Fjöldi íbúa og nemenda fyrstu 150 ár skólans
- 49. þáttur: Heimildir
- 50. þáttur: Lokaorð - um þessi skólasöguskrif
- Myndir og verk nemenda
-
Þættir úr sögu skólans