6. þáttur: Skólamenntun á Íslandi frá upphafi

Íslendingar hafa ávallt verið fróðleiksfúsir og menntaþrá þjóðarinnar hefir fleygt henni yfir hörmungar liðinna alda. Lengst af voru hér einungis æðri skólar, í Skálholti, Odda, Haukadal, á Hólum og í klaustrum. Síðar aðeins á Hólum og í Skálholti. Almenningur naut þessara menntasetra á ýmsan hátt. Þar voru oft haldnar samkomur og kom þangað fjöldi fólks, bæði ungt og aldið, sér til fróðleiks og skemmtunar. Þarna var söngur, kvæðaflutningur og sögusagnir og fólk bar þetta með sér út um byggðir landsins.

Skólarnir á hinum fornu biskupssetrum áttu sitt blómaskeið, en aðbúnaður var oft afleitur. Þegar Thorkillius kemur í Skálholt sem rektor 1728 er þar engin upphitun, lítil lýsing, lítið af bókum og matur harla rýr. Nemendur eru að krókna úr kulda og lifa mest á harðfiski, sméri og vatni. Þegar húsin í Skálholti féllu í jarðskjálftunum 1787 var ákveðið að flytja skólann til Reykjavíkur – eftir að hætt hafði verið við að flytja alla íslensku þjóðina suður á Jótlandsheiðar!

Hólavallaskóli í Reykjavík tók þá við af Skálholtsskóla, og líka Hólaskóla frá árinu 1801. Aðbúnaður var afar slæmur og árið 1804 varð að hætta skólahaldi! Næsta ár var skólalaust á Islandi, nema hvað barnaskóli starfaði með 12 börnum á Hausastöðum í Garðahreppi. Árið 1805 var Bessastaðaskóli stofnaður og var sagt að hann hafi verið besta lærdómsstofnun sem Ísland hefði átt. Hann var síðan fluttur til Reykjavíkur haustið 1846 og varð Menntaskólinn í Reykjavík.

Jón Sigurðsson, hinn eini og sanni (sjá mynd), taldi að betri skólar væru mikilvægir á braut þjóðarinnar til frelsis og framfara. Hann skrifaði um skólamál í tímarit sitt, Ný félagsrit, segir m.a.: ”Skólinn á að tendra hið andlega ljós, og hið andliga afl, og veita alla þá þekkíngu sem gjöra má menn hæfiliga til framkvæmdar öllu góðu, sem auðið má verða”. Jón leggur áherslu á gildi trúar fyrir siðferði, „siðferði mannsins verði því betra, sem þekkíng hans á guði er skírari og trúin sterkari, og þegar svo er, þá er óhætt að kveða svo að orði, að siðferðið fari eptir trúnni.“

Jón segir frá fyrirmyndar barnaskólum í Þýskalandi og víðar, sem Norðmenn, Danir o.fl. hafa heimsótt og ritað skýrslur um, og minna þeir um margt um skólann sem stofnaður var á Vatnsleysuströnd 30 árum síðar. Stefán Thorarensen og Jón Sigurðsson skrifuðust á. Var Stefán virkur í Þjóðvinafélaginu, sem stofnað var 1871, en á þeim vettvangi voru rædd ýmis framfaramál, m.a. skólamál.

Jón leggur mikla áherslu á hvað góð menntun presta sé alþýðu mikils virði. Hann telur menntun presta á Íslandi ekki standast samanburð við það sem gerist erlendis og lýsir því svo: „Prestsefnin nema því ekki einúngis lærdóm þann, sem hafður er um hönd í skólum þeim, er menn kalla latínuskóla,.... Þegar skólalærdóminum er lokið eru þeir settir til menta í öðrum skólum (háskólum), þar sem hin æðri vísindi eru höfð um hönd, og nema þar heimsspeki, og kynna sér jafnframt aðrar vísindagreinir, náttúrufræði og annað þvílíkt, sem vekur eptirþánkann á ýmsu sem vert er að skoða og íhuga. Þessar iðkanir eru einnig til þess hentugar, að gjöra þánkana liðugri, og kenna mönnum að skoða hlutina á ýmsa vegu, og þannig læra að þekkja hvað skynsamlegt er í hverjum hlut. Fremsta af öllu þessu má telja heimsspekina, því hún leiðbeinir mönnum í öllum þeim vísindum, sem menn eiga að stunda á eptir þessu, og þaraðauki eflir hún þeinkíngarkraptinn og vekur eptirtektina á öllu því, sem berr fyrir í lífinu, og skoðunina á heiminum yfirhöfuð að tala.“

Jón Sigurðsson leggur þarna til - líkt og Thorkillius gerði öld áður – að stofnaður verði prestaskóli á Íslandi. Það sé kostnaðarsamt að senda öll prestsefni í háskóla í Danmörku. Prestaskóli þessi ætti að vera fjölhæfur, ekki takmarkast við það eitt sem prestar þurfa að læra til að geta prédikað.

Prestaskóli var loks stofnaður í Reykjavík 1847. Síðan var stofnaður læknaskóli 1876, kennaradeild við Flensborgarskóla 1892, lagaskóli 1908 og loks sameinaðir með stofnun Háskóla Íslands árið 1911.

Heimildir: Um skóla á Íslandi, Jón Sigurðsson 1841 og 1842; Jón Skálholtsrektor eftir Gunnar M. Magnúss 1959; Horft um öxl, eftir Guðjón Kristinsson, 1959. Grein um stofnun skólans á Vatnsleysuströnd í Faxa 01.05.1979. Þorvaldur Örn feitletraði orð í texta.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School