16. þáttur: Fyrsti vetur skólans á Vatnsleysuströnd

Þegar skólinn hafði starfað hálfan vetur birtist svohljóðandi grein eftir fyrsta kennara skólans, Oddgeir Guðmundsen, í Þjóðólfi 21. janúar 1973.

„Með því að eg hefi orðið þess vís, að allflestum utan þessa hrepps er ókunnugt um stofnun þessa, gef eg hérmeð þessar fáorðu upplýsingar.

Upptök skólans eru þessi: Prestrinn síra St. Thorarensen lét ganga boðsbréf um sóknir sínar haustið 1870 um samskot til barnaskóla; gáfust þá innan sóknanna loforð um nálega 700 rd. á einni viku. Árið 1871 var tekið megnið af timbrinu til skólans, en byggingunni var frestað til næsta árs, sökum þess að nokkra máttarviði vantaði til hússins, er þá fengust hvergi. Sama ár (1871) var keyptr jarðarpartr í Brunnastaðahverfi, undir skólann til ábúðar fyrir skólahaldara (framvegis). Sumarið 1872 var húsið bygt af smiðum, er allir eiga heima í hreppnum; það er 10 álnir á breidd, 14 álnir á lengd og 5 áln. rúmar undir loft; sakir vanefna er húsið hvergi nærri fullbygt; kenslustofan er í öðrum enda hússins, og nær yfir það þvert (10 áln. á lengd og hérum 7 áln. á breidd); í hinum endanum eru tvö herbergi fyrir kennarann; eldhús er í skólanum með eldavél; uppi á lopti er stórt herbergi, einkum ætlað Thorchillii-börnum, og fyrir setulopt sér í lagi, þá börnum er kend handvinna; að öðru leyti er annað óbygt uppi, en í áformi að gjöra í öðrum enda kenslustofu, ef þörf gjörist síðar meir. Efnahagr skólans er bágr mjög; til þessa dags hafa honum gefizt hérum 1000 rd. (hafa utanhreppsmenn gefið allt að 200 rd.), en fyrir húsasmíðið, jarðarkaupin og annan kostnað er skólinn í skuld, um allt að 1000 rd. Skólanum er nú sem stendr stjórnað af nefnd í hreppnum; prestr er forseti þessarar nefndar við fimta mann. Á almennum hreppsfundi hefir verið samþykt reglugjörð fyrir skólann; er svo til ætlazt, að í skólanum sé kent bæði ófermdum börnum (lestur, lærdómskver, biblíusögur, skrift, reikningr), og að einnig gefist fermdum unglingum færi á að nema þar (skrift, réttritun, reikning, dönsku, ensku, landafræði o. s. frv.), tvær stundir á dag eftir það að hinni almennu kenslu er lokið, sem varir fjórar stundir á dag; þar er og ákveðið, að kenna skuli handvinnu stúlkubörnum.

Fundrinn nefndi skóla þenna: «Thorchilliibarnaskóla í Vatnsleysustrandarhreppi», því að svo er til ætlazt, að öll þau börn í hreppnum, er njóta styrks af Thorchilliisjóði, verði framvegis heimilisföst fóstrbörn skólans; sömuleiðis skal utansveitarbörnum ekki neitað um legurúm á skólanum meðan rúm leyfist, og þeim gefinn kostr á kenslu fyrir sama verð og börnum innanhrepps. Í vetr hafa 22 börn verið á almennri kenslu og 8 unglingar á sérstakri kenslu. Til þessa hafa verið 10 börn heimilisföst í skólanum að meðtöldum Thorchillisjóðs-börnunum, auk kennara og stúlku, sem matreiðir, gætir barnanna, o. s. frv. Þess konar stofnun er hér mjög nauðsynleg og alveg ómissandi, þvíað uppfræðsla í heimahúsum er hér yfir höfuð mjög svo vanrækt; það hafa sýnt þau börn, sem eg hefi fengizt við í vetr. Það eru því öll líkindi til að þessi skóli lifi og dafni; annars vegar krefr nauðsynin þess; hins vegar er hér nægr kraftr til að styðja þetta lofsverða og fagra áform.

Brunnastöðum, 13. Janúar 1873. Oddg. Guðmundsen.”

Oddgeir var þarna nýútskrifaður guðfræðistúdent. Hann kenndi hér aðeins einn vetur, en varð síðan prestur, lengst í Vestmannaeyjum 1889 - 1924 og sinnti þar einnig kennslu, skólastjórn og sveitarstjórnar- og velferðarmálum. Myndin er af Oddgeir á starfsárum hans í Vestmannaeyjum.

Sr. Stefán Thorarensen, frumkvöðull barnaskólastofnunarinnar, veitti henni forstöðu fyrstu 15 árin. Hann réð flest árin unga vel ættaða guðfræðinga og verðandi presta sem kennara, sem margir voru þá of ungir til að mega vígjast til prests. Sjálfur hafði Stefán alla þræði í hendi sér, sem formaður skólanefndar.

Heimildir: Oddgeir Guðmundsen, grein í Þjóðólfi 21. janúar 1973.  Grein um Oddgeir Þórðarson Gudmundsen á vefnum Heimaslóð.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School