35. þáttur: Félagslíf - Skólaferðalög

Frjálsir leikir í frímínútum hafa tíðkast alla tíð og komu áður fyrr í stað íþróttakennslu. Þórdís Símonardóttir, f. 1946, sagði frá því í spjalli að þau krakkarnir hafi oft hlaupið í löngu frímínútunum að flaki bátsins Hauks þar skammt frá og léku sér uns Jón Kristjánsson kallaði, en þá var ekki skólabjalla. Eitt sinn setti Jón þeim fyrir að skrifa ritgerð um hvað þau ætluðu að verða þegar þau yrðu stór. Þau voru þá orðin unglingar og fannst þetta barnalegt og niðurlægjandi viðfangsefni. Stelpurnar fundu þá upp á því að mynda áhöfn á Hauknum og fóru svo hver til síns heima og skrifuðu um það sína ritgerð. Þær höfðu hver sitt hlutverk um borð, ein þeirra var t.d. skipstjóri. Strákarnir voru ekki með í þessum leik, en þær notuðu nöfnin þeirra á hunda og ketti í bátnum! Skólastjóranum leist illa á þessar ritsmíðar og skammaði stelpurnar.

Áður er getið um barnastúkuna Ársól sem Viktoría stofnaði 1926 og sá um þar til nokkru eftir að hún lét af störfum 1952. Nemendur hafa eflaust tekið einhvern þátt í almennum samkomum og dansskemmtunum sem haldnar voru í skólahúsinu.

Lárus Johnsen, íslandsmeistari í skák 1951-‘52, lærður kennari en aðgerðarlítill, með lítinn aga, kenndi hér 1957-´58 og 1963-´64 og lét krakkana tefla. Skák var oft iðkuð í skólanum eftir það og haldin skákmót, ekki síst á tíma Hreins og m.a. lét Frank Herlufsen börnin tefla á 10. áratugnum.

Árið 1939 gefa allir Suðurnesjaskólarnir, nema Gerðaskóli, út vandað vélritað skólablað sem nefnist Sæblik, 12 blaðsíður með myndum, skrifað af nemendum undir nafni  – undir góðri handleiðslu. Þar segir m.a. frá tveimur skólaferðalögum. Drengur í barnskólanum í Keflavík lýsir tveggja daga ferð undir Eyjafjöll og í Fljótshlíð með gistingu í Múlakoti og stúlka úr Hafnaskóla í Höfnum segir frá dagsferð til Þingvalla þar sem mikið var sungið á leiðinni, enda söngkennari með í för. Athygli vekur að í þessu blaði heitir skólinn okkar Vatnsleysustrandarskóli, en í bókunum skólanefndar breytir Suðurkotsbarnaskóli um nafn árið áður (1938) og heitir Brunnastaðaskóli.

Ellert Sigurbjörnsson, sem var skólastjóri 1962-1967, hafði frumkvæði að því 1963 að gefið var út skólablaðið Ströndin og komu út nokkur tölublöð næstu ár. Nemendur 7.-8. bekkjar gáfu út skólablað 1983, þar sem Hilmar E. Sveinbjörnsson var meðal ritnefndarmanna, með dyggri leiðsögn Bryndísar Halldóru kennara. Árið 2001 gáfu nemendur 7. bekkjar út bekkjarblaðið Gretti í opinni viku skólans. Þau söfnuðu auglýsingum, skrifuðu blaðið og prentuðu og nýttu óspart nýjustu tölvutækni. 2013-´14 gaf valhópur í 9. og 10 bekk út blaðið Bjarnfreður. Þetta er langt í frá tæmandi upptalning.

Um 1980 einkenndist félagslíf nemenda af diskótekum, sem nutu mikilla vinsælda um þær mundir og voru haldin hálfsmánaðarlega. Einnig voru kvikmyndasýningar, spilavist, borðtennismót, árleg skólaskákmót með verðlaunum, bekkjarkeppni í íþróttum og keppni við aðra skóla. Helsta skemmtunin voru litlu jólin. Leikhúsferðir voru árlegur viðburður, árið 1980 sáu eldri nemendur Klerka í klípu og þeir yngri Óvitana. Um árabil voru farnar skíðaferðir í Bláfjöll, fyrst 1983. Kennararáð starfaði árin 1984-2001 og fulltrúi nemendaráðs elstu bekkja mátti sitja það. Tók Magnús Hlynur Hreiðarsson þar fyrstur sæti.

Um 1990 eru haldnar dansskemmtanir með vissu millibili, haft opið hús fyrir foreldra og bekkjarkvöld sem umsjónarkennarar sáu um. Þá fóru nemendur í þriggja daga skíðaferð hvern vetur og tíðkaðist það vel fram yfir aldamótin 2000. Þá komst á sú hefð að 7. bekkur væri viku í skólabúðunum á Reykjum í Hrútafirði. Á þeim tíma er farið að halda árshátíð síðasta dag fyrir páskaleyfi og er svo enn. Litlu jólin voru áfram haldin, áður fyrr með helgileik og stundum í kirkjunni.

Leiksvæðið við skólann hefur verið mikið notað, bæði malbikaður körfubolta- og fótboltavöllur. Á túninu þar sem nýjasta álman er nú, var fótboltavöllur. Þá var farið að halda íþróttadag, sem tíðkast hefur síðan, þar sem hápunkturinn er körfuboltaleikur milli nemenda og kennara. Þann leik hafa nemendur unnið tvisvar, í fyrra skipið 1993. Það voru sterkir íþróttasinnaðir árgangar og fjör þegar bekkirnir spiluðu sín á milli. Einnig var keppt við aðra skóla. Þeir allra hörðustu fóru til að horfa á Guðmund íþróttakennara keppa með ÍR í handbolta.

Hugum þá að skólaferðalögum. Elsta heimildin er frá 1936. Fyrsta myndin sýnir hóp í skólaferð það vor, við rútu Stefáns Ingimundarsonar. Á næstu mynd er hópur við styttuna af Hriflu-Jónasi á Laugarvatni 1958, Jón Kristjánsson skólastjóri lengst til hægri. Stopular heimildir eru um skólaferðalög á þessum árum. Fyrstu árin fengu kennarar ekki greitt sérstaklega fyrir að fara með nemendum í skólaferðalög, né heldur fyrir gæslu á kvöldskemmtunum. Á 9. áratugnum var farið að greiða karlmönnum fyrir slíka vinnu. Konurnar liðu það ekki til lengdar og var farið að greiða almennt fyrir slíka vinnu fyrir lok aldarinnar.

Vorið 1964 var farið í skólaferðalag í Hvalfjörð og 1965 var farið til Krísuvíkur, Hveragerðis og um Grafning. Árið eftir var farin þriggja daga vorferð um Vesturland, m.a. bátsferð um Breiðafjörð, sjá mynd af þeim hópi við rútu Hafsteins Snæland skólabílstjóra. Upp frá því og fram að aldamótum fóru þrír elstu bekkirnir í þriggja daga vorferðir, til skiptis um Vesturland, á Norðurland til Akureyrar og þar um slóðir, eða um Suðurland allt austur að Klaustri. Farin var helgarferð með Herjólfi til Vestmanneyja í góðu veðri og gist í Þórsheimilinu. Annars var farið til skiptis norður, vestur eða um Suðurland.

Frá því um 2000 hefur 10. bekkur farið í tveggja til þriggja daga vorferðir, síðasta áratuginn í Skagafjörð og þá gjarna fljótasiglingu. Þáttur í félagslífi vetrarins er að safna fyrir þessum vorferðum. Svo hafa iðulega verið farnar dagsferðir með einstaka bekki eða marga bekki saman og kom sér oft vel að hafa skólabíl tiltækan. Dæmi um það er ferð með nokkra bekki í Sandvík vorið 2009 þar sem var gengið, farið í leiki og grillað á svartri sandströnd, sjá mynd.

Á árunum 2009-2018 var útivist valáfangi efstu bekkja. Í því fólst m.a. að fara mánaðarlega í fjallgöngu einn laugardag í mánuði, allan veturinn. Þessum fjallgöngum stýrði Hilmar Egill. Hér má sjá hóp nemenda á Háatindi á Esju.

Ekki er víst að danskennsla hafi verið á vegum skólans fyrr en á 21. öld. Kvenfélagið Fjóla sendi skólanefnd bréf 1960 og bauð Kirkjuhvol til leigu eða sölu (húsið var þá á fallanda fæti), einkum sem tækifæri til danskennslu sem gæti væri liður í bindindisfræðslu skólans – þannig að unglingar læri að dansa án þess að vera undir áhrifum áfengis.

Árið 1961 fjallaði skólanefndin um bréf frá hreppsnefnd þar sem samþykktur er kostnaður vegna danskennslu. 1962 ræddi nefndin aftur um danskennslu. Sagði skólastjóri ekki útilokað að ráða danskennara og var Símoni og Guðmundi Björgvin falið að ræða um það við oddvita. Ekki er ljóst hvort af þessu varð. Á þessum árum kenndu hjónin Guðmundur Björgvin og Guðrún Lovísa sínum börnum og vinum þeirra að dansa gömlu dansana eftir plötuspilara heima hjá þeim í Lyngholti í Vogum.

Árið 1978 og næstu ár hélt Nýi dansskólinn fjölsótt dansnámskeið í Glaðheimum á laugardagsmorgnum allan veturinn, bæði fyrir börn og fullorðna. Kenndir voru gömlu dansarnir og samkvæmisdansar og haldnar keppnir þar sem menn gátu orðið – og urðu – Íslandsmeistarar! Það voru haldnar aukaæfingar og fengnir erlendir kennarar. Þeir lengra komnu fóru að sýna dans, m.a. á Hótel Sögu og í sjónvarpinu. Hér varð til öflug dansmenning sem náði inn í skólalífið. Þeim sem sáu um Diskótekið Dísu þótti merkilegt að í Vogum gátu allir dansað allt mögulegt; tangó, cha cha cha, rúmbu, djæf, polka, vínarkrus og vals, bara allt sem músikin bauð upp á. Á myndinni er danslið að æfa sig í Glaðheimum.

Á hálfsmánaðarlegum diskótekum í skólanum dönsuðu allir nemendur alls konar dansa! Árið 1984 var Ungmennafélagið Þróttur með fjáröflun til styrktar björgunarsveitinni Skyggni sem gekk út á það að geta dansað heila helgi keðjudans, þar sem tveir og tveir, strákur og stelpa, þurftu að dansa í klukkutíma í senn alla nóttina, sjá mynd.

Eftir nokkur ár hætti Nýi dansskólinn að halda þessi námskeið, en bauð fólki að sækja námskeið í Hafnarfirði, sem fáir gátu nýtt sér. Fjaraði þessi dansbylgja út og hefur ekki risið jafn öflug aftur. Þó gerðist það 1986 að stelpur í efstu bekkjum fengu yngri nemendur með sér til að æfa söng- og dansatriði og tókst svo vel til að þau urðu eftirsótt og sýndu á alls konar hátíðum, og á böllum í Glaðheimum. Árið 1990 var (fyrst?) haldið ball í Festi í Grindavík fyrir 6.-9. bekk af öllum Suðurnesjum. Hin síðari ár hefur stundum verið danskennsla í skólanum fyrir vissa bekki og þá á skólatíma.

Síðasta myndin er af danshópnum sem sýndi í Stundinni okkar. Það þurfti aðeins eina prufu, síðan upptaka sem stóð! Bryndís Schram þáttarstjórnandi situr þarna með krökkunum. Þetta unga fólk er um og yfir fertugt í dag. Hugsanlega varð áhersla á sýningar og keppni full mikil þegar á leið, hafi það bitnað á almennri þátttöku.

Hreinn skólastjóri var mikill stuðningsmaður danskennslunnar. Að sögn Niels Einarssonar, danskennara og eiganda Nýja dansskólans, gerði Hreinn könnun og rannsakaði framkomu, félagslíf og einkunnir sem spönnuðu 2 ár áður en Nýi dansskólinn kom til að kenna dans í Glaðheimum, og önnur tvö ár eftir að danskennslan hófst. Í báðum könnunum var greinilegt að félagslíf lagaðist og einkunnir hækkuðu með komu danskennslunnar.

Heimildir m.a.: Bergsveinn Auðunsson í Faxa 1990.  Myndir frá Hafsteini Snæland, Þorvaldi Erni, Eyjólfi Guðmunds og úr Myndasafni Minjafélagsins.  Skólablaðið Sæblik. Skólasetninga- og -slitaræður Hreins Ásgrímssonar. Samtöl við Þórdísi Símonardóttur, Martein Ægisson, Elísabetu Kvaran, Ernu Margréti, Hafstein Snæland, Hilmar Egil, Höllu Jónu, Særún Jónsdóttur, Helgu S. Árnadóttur,  Hauk Aðalsteinsson og Niels Einarsson um félagslíf o.fl. Myndbönd á youtuberásinni storuvogaskoli1 m.a. frá árshátíðum nálægt 2010.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School