19. þáttur: Margir skólar – mörg skólahús í sömu sveit

Hvað merkir orðið skóli? Er það hús – eða er það stofnun? Ragnar H. Ragnar og Sigríður, kona hans, ráku Tónlistarskóla Ísafjarðar af skörungsskap í áratugi. Allan þann tíma átti skólinn ekki hús heldur fór kennslan fram víða um bæinn, m.a. heima í stofu hjá þeim hjónum. Orðtæki Ragnars var: „Skóli er ekki hús!“.

Margir telja skóla vera hús. Hér í sveit hafa verið byggð mörg hús fyrir barnaskóla og grunnskóla og öll bera þau nafnið skóli. Fyrstan má nefna Thorkilliibarnaskólann í Vatnsleysustrandarhreppi, sem fékk fljótt nafnið Suðurkotsskóli. Það hús var stækkað úr 54 m2 í 82 m2 árið 1886 og endurbyggt á sama grunni 1907, án þess að nafnið breyttist. Í bréfi Ögmundar Sigurðssonar prófdómara frá 1909 er Suðurkotsskóli nefndur Brunnastaðaskóli, enda er Suðurkot í Brunnastaðahverfi. Í lok 4. áratugar tekur Brunnastaðaskólanafnið
yfir, kemur fyrst fyrir í fundargerð skólanefndar 1938 og ávallt notað eftir það. Árið 1944 var byggt nýtt og stærra skólahús, um 100 m frá því eldra, og áfram talað um Brunnastaðaskóla. Það er nú íbúðarhúsið Skólatún. Árið 1979 var var skólinn fluttur úr Brunnastaðahverfi í Voga, byggt þar nýtt 620 m2 skólahús sem síðan var tvöfaldað að stærð 1998 og aftur tvöfaldað 2005. Það hús er byggt í túni höfuðbólsins Stóru-Voga og heitir því Stóru-Vogaskóli.

En þar með er ekki öll nafna- og húsasagan sögð, því tvívegis var byggt annað minna skólahús í barnmörgu hverfi, fyrst Norðurkotsskóli í Auðna- og Kálfatjarnarhverfi 1903 og síðan Vatnsleysuskóli í samnefndu hverfi 1912. Um árabil voru starfræktir 2 skólar samtímis og árin 1934-1938 voru þeir þrír: Suðurkotsskóli, Vatnsleysuskóli og Kirkjuhvolsskóli. Haldið var sér bókhald fyrir hvern þeirra. Það má deila um það hvort þetta sé allt sami skólinn, eða hvort þetta séu 4, 5 eða jafvel 7 skólar! Í reglugerð frá 1912 er talað um skólann, en í Gjörðabók og í reikningum er talað um skólana, í fleirtölu.

Þó að í Vatnsleysustrandarhreppi væru fjölmenn hverfi var hreppurinn í heild það strjálbýll að erfitt var að stefna öllum börnum á einn stað áður en skólaakstur kom til. Mörg börn þurftu að ganga í hálftíma, jafnvel klukkutíma í skólann, í vetrarveðrum! Börn úr fjarlægustu hverfunum þurftu annað hvort að búa í skólarisinu eða var komið fyrir til viðlegu yfir veturinn á nálægum bæjum. Njarðvíkingar gáfust fyrstir upp á því og stofnuðu eigin skóla, fyrst í Hákoti 1876.

Tekin var upp eins konar farkennsla í Auðna- og Kálfatjarnarhverfi, þaðan sem var um 40 mín. gangur í skólann í Brunnastaðahverfi. Það virðast oft hafa starfað tveir kennarar samtímis frá 1884 og annar þá líklega farkennari á einhverjum bæjum. Til dæmis er Guðmundur Þorsteinsson kennari við Suðurkotsskóla 1884-1986, en á sama tíma starfa tveir aðrir kennarar, Guðni Felixson 1884-1885 og Snæbjörn Jónsson 1885-1886. Séra Stefán getur þó ekki um farkennslu í skýrslu sinni í Þjóðólfi 1886. Kennt var í stofunni á Þórustöðum a.m.k. 1893-1900, síðan í Landakoti 1900-1903. Séra Árni Þorsteinsson tekur þannig til orða í Fjallkonunni 1897: „Hér í hreppi eru 2 barnaskólar; annar þeirra er aðalbarnaskóli hreppsins og eru i honum nær 40 börn; hinn er aukaskóli, og munu i honum vera 15 börn.“

Á Þórustöðum kenndi Jón Gestur Breiðfjörð og síðan Magnús Jónsson, eftir að Jón Gestur tók við
Suðurkotsskóla 1898. Líklega mun Jón Jónsson (f.1868) hafa kennt í Landakoti, en Jón og Þorbjörg kona
hans voru húshjón þar um tíma. Í Kennaratalinu er Jón sagður hafa kennt á Vatnsleysuströnd um aldmótin
1900 og síðan í Innri-Njarðvík á árunum 1906-1911 og verið þar útvegsbóndi, kirkjuhaldari og organisti,
eftir það matvörukaupmaður og smiður í Reykjavík. Margrét kona Þórbergs Þórðarsonar var dóttir Jóns og
Þorbjargar.

En þetta þótti ekki fullnægjandi og árið 1903 var slegið lán hjá Thorkilliisjóði (öðru sinni) og ráðist í að byggja annað skólahús, í Norðurkoti í Kálfatjarnarhverfi, 25 m2, 9 x 7 álna bárujárnsklætt timburhús. Skólinn átti neðri hæðina, en í risinu var íbúð. Þar hófst kennsla um haustið í Norðurkotsskóla auk móðurskólans í Suðurkoti í Brunnastaðahverfi. Þann vetur kenndi Þórður Erlendsson 28 börnum 7-14 ára í Suðurkoti og Sigurgeir Sigurðsson 19 börnum 8-14 ára í Norðurkoti. Var kennt í þessu nýja húsi í 7 ár, til vors 1910, og nemendafjöldinn allt upp í 20 – í 15 m2 skólastofu! Veturinn 1908-9 voru þar 12 stúlkur og 7 drengir, öll á eldra stigi, og Árni prestur kennari, kenndi m.a. söng og leikfimi.

Börnin í Auðna- og Kálfatjarnarhverfi uxu úr grasi og þetta vor var kennslu þar hætt, Norðurkotshúsið selt sem íbúðarhús. Samkv. kaupsamningi dags. 27.1.1911 selur skólanefndin „Guðmundi Guðmundssyni hreppstjóra á Landakoti þann hluta (neðri hlutann) úr íbúðarhúsinu í Norðurkoti við Þórustaði, sem er eign barnaskólans hér í hreppi og, sem notað hefur verið til barnakennslu nokkur undanfarin ár...“ Efri hæðin mun hafa verið íbúð - hugsanlega fyrir kennara – og liklega í einkaeigu, en 26. 10. 1910 er Haraldur Sigurðsson kennari krafinn bréflega um að fjarlægja þaðan hey!

Þá um haustið 1910 var hafin kennsla á Vatnsleysu, en þá voru þar barnmörg, fátæk heimili. Var steinsteypt þar lítið skólahús 1911 Vatnsleysuskóli, og kennt þar til 1914. Þar kenndi fyrstu tvo veturna Kristmann Runólfsson frá Hlöðversnesi sem hafði nýlokið kennaraprófi. Síðari tvö árin kenndi Ingvar Gunnarsson frá Skjaldarkoti, en hann varð síðar kennari í Hafnarfirði. Eftir áratugs hlé var kennt þar nær samfellt árin 1925-1943, en þá hófst skólaakstur og eftir það var öllum börnum kennt á einum stað, í Brunnastaðahverfi. Segir frá Vatnsleysuskóla síðar. Enda þótt skólinn hefði sérstakt hús nefndi Viktoría hann oft Vatnsleysufarskóla í einkunnabók skólans.

Á árunum 1934-38 var kennt á þremur stöðum. Auk Vatnsleysuskóla og Brunnastaðaskóla var yngstu börnunum kennt í nýbyggðu félagsheimili, Kirkjuhvoli, og einnig kennd þar leikfimi- og unglingakennsla vegna plássleysis í Brunnastaðaskóla, en aðeins er 10 mínútna gangur þar á milli. Kenndi Stefán Hallson þau ár til skiptis á Vatnsleysu og í Kirkjuhvoli, um 3 mánuði á hvorum stað. 1938 var kennaraíbúð í skólahúsinu breytt í kennslurými fyrir yngstu börnin. Fært var sérstakt bókhald fyrir Kirkjuhvolsskóla.

Minjafélag Vatnsleysustrandar bjargaði húsi Norðurkotsskóla 2008, flutti á nýjan grunn að Kálfatjörn, gerði vandlega upp og rekur þar lítið skólasafn (sjá mynd) og tekur á móti hópum.

Skólaárið í Suðurkots/Brunnaststaðaskóla var flest árin fullir 6 mánuðir en sum árin styttra í hverfisskólunum, enda var farkennsla til sveita oft ekki nema 2 mánuðir á ári á hverjum stað - langt fram á 20. öld! Veturinn 1909 -‘10 var Haraldur Sigurðsson, stúdent, frá Sjónarhóli, eini kennarinn, kenndi 3 daga vikunnar í Suðurkoti (16 börnum) og 3 daga í Norðurkoti (19 börnum). Þetta hefur ekki verið auðvelt, Haraldur sagður heilsulítill, var aðeins með stúdentspróf og aðeins ráðinn þetta eina skólaár. Næstu 4 skólaár voru 2 kennarar, einn á hvorum stað, og kennt 6 mánuði 6 daga vikunnar á báðum stöðum.

Haustið 1918 var engin kennsla 14. nóv. - 11. des. meðan spænska veikin greisaði grimm. Það kom oftar fyrir að loka þurfti skólanum í nokkra daga vegna inflúensu, t.d. í 2 vikur síðari hluta marsmánaðar 1920, að ráði héraðslæknis, og 17. des 1924 – 14. jan. féll kennsla niður vegna mislingafaraldurs. Börnin mættu oftast mjög vel í skólann nema færri komu illviðrisdaga og féll kennsla niður verstu óveðursdagana. Mest kvað að því í janúar 1918, frostaveturinn mikla, en þá var ekki kennt nokkra daga þegar frost fór niður fyrir 20°C.

Heimildir: Greinarnar í Faxa 1990. Skrif St. Thorarensen í Þjóðólf. Kennaratal. Bók Guðm.Björgvins.  Handskrifuð skjöl (dagbók, reikningar, prófabók skólans og gjörðabók skólanefndar). Grein Árna Þorsteinssonar í Fjallkonunni 4.tbl. 1897.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School