21. þáttur: Námsgögn – frá allsleysi til ofgnóttar

Í 10. þætti var sagt frá kristindóms- og stafrófskverum fyrir stofnun barnaskóla, en útgáfa þeirra fór að blómstra um 1800. Þá er farið að gefa út fræðslurit og einhver þeirra hafa nýst barnaskólum. Dæmi um það er Lestrabók handa alþýðu á Íslandi, (Alþýðubókin) eftir Þórarinn Böðvarsson, prest að Görðum og stofnanda Flensborgarskóla. Í þeirri bók er safnað á einn stað (á 423 síður) því helsta sem þá þótti hæfa að vita. Fyrirmyndin var P. Hjorts Börneven. Var bókin framlag Þórarins til þjóðhátíðarinnar 1874 og 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Hún kom út 2 árum eftir að skólinn okkar var stofnaður og hefur eflaust verið notuð þar.

Í þáttum 9, 13 og 15 um skóla á Suðurnesjum er lýst kennsluaðstæðum og fátæklegum kennslutækjum fyrir aldamótin 1900. Í Ísafold 1879 skýrir Stefán Thorarensen frá þvi að Jónas Helgason, organisti með meiru, hafi gefið skólanum 14 eintök af söngvum og kvæðum í 2 röddumm, sem hann hafði gefið út. Í skólaskýrslu eftir veturinn 1895 er skráð eftirtalin áhöld í eigu Norðurkots- og Suðurkotsskóla: Harmoníum nýtt, virt á 120 krónur; nýr uppdráttur af Íslandi, virtur á 6 krónur; geografiske anskuelsistabeller (landakort) ný, 6 kr; Evrópukort, nýtt, á 12 kr; tellurium (jarð- og sól-líkan) nýtt, 16 kr; kynflokkamynd, ný, á 2 kr; og smærri landabréf. Framangreint ár höfðu verið 37 börn í skólunum 10-14 ára og kenndu þeir Sigurjón Jónsson og Jón G. Breiðfjörð.

Morten Hansen, skólastjóri Barnaskóla Reykjavíkur, kynnti og sýndi á aðalfundi kennarfjelagsins 1894 kennsluáhöld til að nota í skólum og við umgangskennslu og var með til sýnis í leikfimisal Barnaskólans fjölskrúðug kennsluáhöld, fyrir kennslu í náttúrufræði, landafræði, sögu, reikningi, leikfimi o.fl. Hafði Morten þessi áhöld til sölu og útvegaði fyrir lágt verð. Í reikningabók Suðurkotsskóla kemur fram að bækur, ritföng og kennslutæki voru aðallega keypt af honum.

Veturinn 1907-1908 hafa verið keyptar bækur og ritföng fyrir 113 kr og selt fyrir 42 kr, en veturinn eftir keyptar bækur, ritföng og kennslutæki fyrir 275 kr og seldar bækur fyrir 40 kr. Thorkilliisjóður, sem greiðir árlega 220 kr til skólans fyrir fátæk börn, hefur kostað bækur og ritföng þeirra.

Veturinn 1908-1909 voru kennslugögn í Norður- og Suðurkots-skólum þessi: Landabréf Íslands 2 stk, landabréf Evrópa 2 stk, landabréf báðar hálfkúlur, landabréf Norður Ameríka, landabréf Suður Ameríka, landabréf Afríka, landabréf Asía, landabréf Ástralía og landabréf Palestína. Dýramyndir 50 stk, mannslíkaminn á pappa. Húsdýralitmyndir 12 stk. Kúlnagrindur fyrir reikning 2 stk. Meterstika 7 stk. Naturhistorisk Atlas. Einnig bæði ein- og tvístrikaðar forskriftarbækur.

Veturinn 1918-´19 voru þessi kennslugögn í Suðurkotsskóla: Sýningarmyndir biblíunnar, gamla og nýja testamentið. Kronbergs Bibel historiske billeder 17 stk., Árstíðarmyndir 4 stk., Anatomiske vægtavler (maðurinn) 4 stk, Chr. Eriksen billeder fra land og by 60 stk.; C C Kristensen kort 10. stk.; öll nauðsynleg landafræðiáhöld; P. Dalbergs skólaatlas; C.R. Sundströms Naturhistorisk Atlas; Æfingar í réttritun 11 stk.; S.A. Gíslason, Reikningsbók I og II hefti; Jónas Jónsson, Reikningsbók I og II hefti; Sam. Eggertsson, Alþýðlegur samanburðarleiðavísir (metrak.); Metrastika, kassi með metrakerfis áhöldum; H. Briens flatarmálsfræði; E. Briem reikningsbók; M. Hansen reikningsbók; Barnasálmabókin 3 stk.; Leikföng 10 stk.; Bók náttúrunnar 5 stk.

Þegar skólahúsið var endurbyggt 1907 voru keyptir 10 skólabekkir (líklega tveggja manna) frá Völundi fyrir
145 kr. Þegar nýtt skólahús var tekð í notkun 1944 var ekkert af búnaði og kennslugögnum í eldra húsinu talið nothæft til að flytja í það nýja.

Allt frá fyrstu pælingum um barnaskóla á Íslandi, á 18. öld, var talið eðlilegt að skóli ætti bújörð, til ábúðar fyrir kennarann. Þegar barnaskólinn á Vatnsleysuströnd var stofnaður var keypt undir hann hálf jörðin Suðurkot, en henni fylgdi torfbær og aðstaða til sjóróðra og að taka þang til eldiviðar, sbr. Lýsingu St.Thorarensen í Þjóðólfi 1873. Stóð skólahús á þeirri jörð uns flutt var í Voga 1979, en þar fékk skólinn úthlutað rúmgóðri lóð úr túni Stóru-Voga. Nálægt 1900 var keyptur hluti af jörðinni Stóra-Knarrarnes í því skyni að afla tekna til reksturs skólans og var jörðin veðsett þegar tekið var lán til byggingar Norðurkotsskóla 1903. Frá 1908 er fært árlega til tekna „eftirgjald“ (leiga) af 1/2 Knarrarnesi (Kristjáni) 40 kr, og af Grund kr. 25 og helst svo til a.m.k. 1921, auk þess að sum árin er einnig bókfært eftirgjald af skólajörðinni Suðurkoti, 65 kr. Árið 1925 vill skólanefndin hætta afskiptum af jarðeignum skólans, en leigir þó út Knararnesjarðarpartinn 1926-1930. Einhvern tíma eftir það hefur sveitarsjóður tekið þetta yfir.

Samkvæmt reikningum skólans hafa útgjöld til pappírs, skriffæra, bóka og kennsluáhalda verið árin 1907-1913 á bilinu 50-100 kr á ári (eitthvað af því endurheimt af efnaðri heimilum), en skóla-ársveltan er þá um 3000 kr og árslaun kennara um 460 kr. Næstu ár er lítill sem enginn slíkur kostnaður bókfærður, en 1926-´28 eru bókfærðar 330 kr til kennsluáhalda skólanna, árið 1929 25 kr til Suðurkotsskóla og 136 kr til Vatnsleysuskóla; og 1930 176 kr til Suðurkotsskóla. Þetta kann að tengjast því að sumarið 1929 barst bréf frá Ásgeir Ásgeirssyni fræðslumálastjóra (síðar forseti Íslands) um að Thorkilliisjóður muni styrkja kaup skóla í Kjalarnesþingi á bókum og kennsluáhöldum, en hann hafði hætt að greiða skólagjöld fátækra barna 1913. Í bréfinu segir: „Eins og kunnugt er hefur sú skipun verið gerð um Thorkilii sjóðinn, að 4/5 hlutum af ársvöxtum sjóðsins verði, fyrst um sinn, eftir nákvæmari ákvörðum sjóðstjórnarinnar, sem sje Skrifstofustjórinn í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, fræðslumálastjóri og forstöðumaður kennaraskólans, varið til að koma upp heppilegum barnabókasöfnum og lesstofum við barnaskóla í Kjalarnesþingi, og til að kaupa nýtísku kenslutæki til skóla þessara, þó megi verja 1/5 af vöxtum árlega til styrktar börnum í Kjalarnesþingi, er dvelja í heimavistarskóla. Eftir ályktun sjóðsstjórnarinnar verður á þessu ári útdeilt til kennslutækjakaupa, barnabókasafna og til skyrktar börnum, sem dvelja í heimavistarskólum, kr. 3700.-, þaraf allt að kr. 900.- til heimavistarbarna. Styrk til kennslutækjakaupa og barnabókasafna verður útdeilt gegn aðminstakosti þriðjungs tillagi úr sveitar eða bæjarsjóði.“

Hauki Aðalsteinssyni, sem var í skólanum á 6. áratugnum, er minnisstæð „mínútublöð“ sem oft voru notuð
við lestrarkennslu.

Brunnastaðaskóli eignaðist 1964 slá til að hengja á Dubdals náttúrufræðimyndir og 1966 áhöld til
leðurvinnu, skuggamyndavél (til að sýna slides-myndir), segulbandstæki (philips) 1967 og árið 1968 fékk
hann til afnota kvikmyndavél og sýningartjald.

1937 taka gildi lög um Ríkisútgáfu námsbóka og var þar með öllum skólaskyldum börnum séð fyrir ókeypis
námsbókum, fjármagnað með sérstöku námsbókagjaldi sem lagt var á heimili þar sem börn á skólaaldri bjuggu. Fræðslumyndasafn ríkisins var stofnað 1961, sem lánaði kvikmyndir til skóla. Þessar stofnanir runnu, ásamt Skólavörubúðinni, saman í Námsgagnastofnun 1980, sem árið 2015 rann saman við Námsmatsstofnun og myndaði Menntamálastofnun. Bókaútgáfa jókst alla 20. öldina - og svo kom internetið .....

Helstu heimildir: Greinar í Faxa 1990, skjöl skólanefndar, aðfangabók skólans, Almenningsdfræðsla á Íslandi, fyrra bindi bls. 173–177. Um kennsluáhöld frá Morten Hansen í Ísafold 43.tbl. 14. 7. 1894. Kristín Bjarnadóttir: Reikningsbækur tveggja alda. Bréf Ásgeirs Ásgeirssonar 20. júlí 1929.  St.Thorarensen, grein í Þjóðólfi 1873.

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School