13. þáttur: Skóli einnig stofnaður í Garði 1872

Stofnaður var barnaskóli í Garði sama ár og í Vatnsleysustrandarhreppi, að frumkvæði séra Sigurðar Br. Sivertsen, prests að Útksálum. Lagði hann til og safnaði fé, og var strax byggt hús í Gerðum. Var skólinn vígður 7. okt. 1872, starfaði þann fyrsta vetur til 7. maí með 15-18 nemendum, 8-14 ára. Var næstu ár kennt kl. 10-15 sex daga vikunnar, frá 1. okt. til 1. apríl, líkt og í Vatnsleysustrandarhreppi. Nemendur voru á bilinu 25-45 flest árin fram undir miðja 20. öld. Stundum var aðeins einn kennari og öllum kennt í einum hópi en oft var aðstoðarkennari og kennt í tveimur deildum, eftir aldri og þroska.

Flest fyrstu árin var góður kennari, Þorgrímur Þórðarson, 22 ára er hann hóf störf, með reynslu frá Eyrarbakka, en svo voru um tíma lítt hæfir kennarar. Kaupið var um 70 kr á mánuði, auk svefnherbergis í skólahúsinu og aðstöðu til að stunda sjóróðra, sem var góður kaupauki á vorin þegar vel aflaðist.

Fyrsta skólahúsið reyndist ekki vel. Það var byggt í fjörunni, flaut sjór umhverfis og jafnvel inn í það, olli skemmdum og var oft hættulegt fyrir börnin að leika sér úti. Húsið var kalt og dimmt og illa búið og hóstandi kennarar og nemendur kvörtuðu oft um kulda og reyk. Þannig var ástandið fyrstu 15 árin þar til 1887 að skólinn var fluttur í tvö leiguherbergi í Miðhúsum og starfaði þar næstu þrjú árin við betri skilyrði. Fékk skólinn þá ný borð og bekki, veggtöflur og ýmisleg áhöld, svo sem tellúríum, veggkort og myndir. Haustið 1880 flutti skólinn í eigið húsnæði að Útskálum, þar sem aðstaða var mun betri, síðan í sérbyggt skólahús 1910, sem er elsti hluti núverandi húss.

Árið 1887 kom merkur skólamaður til starfa í Gerðaskóla, Ögmundur Sigurðsson, og kenndi til 1896 nema eitt skólaár, 1891-1892, þegar hann var í kennaraskóla í Chicago, líklega fyrstur íslenskra skólamanna til að stunda nám í Bandaríkjunum. Áður hafði hann stundað kennaranám í Kaupmannahöfn.

Ögmundur mótaði starf skólans til frambúðar og tók kennsluna föstum tökum. Hann tók fyrir það að foreldrar tækju börnin úr skólanum þegar hentaði að hafa þau í vinnu heima, sem hafði oft valdið ruglingi og erfiðleikum fyrir kennarann. Veturinn 1889-1890 var 41 barn í skólanum, í 2 deildum. Kennslutími var 6 mánuðir; engum nemanda var veitt móttaka eftir 2. október og engum gefið burtfararleyfi allan skólatímann. Við skólann voru 2 kennarar og auk þess tímakennari í söng. Kennslugreinir voru lestur, biflíusögur, kver, landafræði, skrift og rjettritun í báðum deildum, og náttúrusaga og íslenzka í efri deild. Söngur var kenndur í báðum deildum. Kristin fræði voru fyrirferðarmikil í námsefni skólans og vildi Ögmundur auka vægi vísindagreina sem hann taldi notadrýgri. Hann var ekki mikið fyrir vitnisburðarbækur og einkunnagjöf.

Skólinn naut styrkja úr Thorchilliisjóði fyrir fátæk heimili. Það voru t.d. 7 börn árið 1909, fengu 20 kr. hvert. Aðrir foreldrar greiddu skólagjöld, sem gátu fyrir árið numið vikulaunum heimilisföður.

Bjarni Jónsson tók við af Ögmundi 1896 og var aðalkennarinn næstu 5 ár. Hann var mikið fyrir söng og bænir, spilaði á fiðlu og lét börnin syngja. Skyldi skólinn vera kristilegur og þjóðlegur. Síðan tóku við ung hjón, Matthildur Finnsdóttir og Einar Magnússon, og báru uppi skólastarf og héraðsmenningu í meira en fjóra áratugi, allt frá aldamótum og fram í seinna stríð.

Það að tveir prestar í nálægum prestaköllum, Stefán Thorarensen og Sigurður Br. Sívertsen, skuli stofna barnaskóla sama haustið, bendir til tengsla milli þeirra. Gat það verið skyldleiki? Ég bar það undir Magnús Óskar Ingvarsson ættfræðigrúskara (árið 2015) og ekki stóð á svörum: „Amma þeirra systra, Rannveigar og Steinunnar hét Steinunn Helgadóttir, 1770-1857. Fyrri maður hennar var Guðmundur Þórðarson 1766-1803. Dóttir þeirra var Guðrún Guðmundsdóttir 1800-1866. Hennar maður var Sigurður Sívertsen (Bjarnason) 1787-1866. Þau voru foreldrar systranna. Seinni maður Steinunnar Helgadóttur var Brynjólfur Sívertsen 1767-1837. Hann var dómkirkjuprestur í
Reykjavík, síðar pr. Holti undir Eyjafjöllum, síðar pr. Útskálum. Þau voru foreldrar Sigurðar B. Sívertsens 1808-1887, prests á Útskálum. Þannig að systurnar, eiginkonur Stefáns á Kálfatjörn voru (hálf)systurdætur Sigurðar B. Sívertsens.

Merkilegt samt að skyldleikinn er alveg óháður Sívertsen-nafninu. Þeir Sigurður B. Sívertsen og Sigurður Sívertsen faðir systranna voru ekki skyldir (nema þá mjög lítið)".

Hjörtur Kristjánsson svarar (á facebook): „Þeir Stefán á Kálfatjörn og Sigurður á Útskálum voru líka náskyldir ef ég ættgreini rétt. Þeir voru tví- og þremenningar. Sigurður Sigurðsson 1718-1780 og Helga Bryjólfsdóttir 1728-1784, frá Hlíðarenda í Fljótshlíð, voru afi og amma Sigurðar á Útskálum og lang-afi/amma Stefáns á Kálfatjörn".

Magnús Óskar Ingvarsson: „Sem sagt mikill skyldleiki á alla vegu á milli Útskála og Kálfatjarnar á þessum tíma, Sigurður B Sívertsen náfrændi Stefáns og beggja eiginkvenna hans...."

Sigurður B. Sívertsen (f. 2. nóvember 1808 í Seli í Reykjavík, d. 24. maí 1887 á Útskálum í Garði) var prestur á Útskálum. Hann var sonur hjónanna Brynjólfs Sívertsens (Sigurðssonar) prests á Útskálum (áður dómkirkjuprests í Reykjavík og prests í Holti undir Eyjafjöllum) og Steinunnar Helgadóttur konu hans. Sigurður var vígður aðstoðarprestur föður síns með konungsundanþágu vegna aldurs þann 18. september 1831. Hann bjó á Gufuskálum í Leiru 1833 en tók við Útskálum af föður sínum 1. mars 1837 og var prestur þar til ársins 1886, þá orðinn blindur. Kona hans var Helga Helgadóttir (1809 - 1882) og komust 3 barna þeirra upp. Hálfbróðir Sigurðar var Helgi G. Thordersen biskup, en þeir voru sammæðra. Séra Sigurður var mikill og góður búmaður og hlaut verðlaun bæði frá Búnaðarfélagi Suðuramts og frá danska landbúnaðarfélaginu. Hann var forgöngumaður um stofnun barnaskóla í Garði, sem hefur starfað þar óslitið frá árinu 1872. Hann varð riddari af Dannebrog árið 1874. Sigurður var ötull og vel metinn og góður kennimaður. Hann stundaði ritstörf alla tíð á meðan hann hélt sjón og eftir að hann varð blindur lét hann skrifa fyrir sig. Eftir hann liggja æviminningar, greinar í blöðum, Suðurnesjaannáll og Bæjaannáll í Útskálaprestakalli auk fleiri rita sem ekki hafa verið gefin út.

Heimildir: Gerðaskóli í 130 ár 1872-2002, eftir Einar Georg Einarsson, bók m.a. hugsuð sem kennslubók fyrir nemendur skólans, bæði með fróðleik, myndum og verkefnum. Að vissu leyti saga Garðsins. Magnús Óskar Ingvarsson: Samtöl og samskipti á facebook um skyldleika prestanna, einnig Hjörtur Kristjánsson á facebook. Wikipedia um Sigurð B. Sívertsen. Grein Ögmundar: Um skóla á Suðurnesjum. Tímarit um uppeldi og menntnamál 3. árg. 1990, bls. 87-98.

Gerðaskóli 2022

  • Vogar
  • Saft
  • Heimili og skóli
  • Barnaheill
  • Grænfáninn
  • Mentor
  • Twinning School